Sjóræningjasúpa


IMG_0362Ég veit ekki hvað er að gerast með mig og súpur þessa dagana. Á stuttum tíma hef ég gert tvenns konar súpur sem ég var mjög hrifin af, ég sem er alltaf að tala um að ég sé engin súpumanneskja! Hér gef ég upp uppskriftina af annarri þeirra. Þessi súpa er matarmikil og afar bragðgóð. Brauðteningarnir setja punktinn yfir i-ið og reyndar finnst mér ferski kóríanderinn líka gera það – hann setur alltaf punkt yfir i-ið í hjá mínum bragðlaukum! 🙂 Ég notaði uppskrift sem ég fann á sænskum vef en breytti henni frekar mikið. Til dæmis voru ekki sætar kartöflur í upprunalegu uppskriftinni en mér fannst það koma mjög vel út. Ég var eitthvað að velkjast með nafnið á súpunni, fannst frekar óþjált að kalla hana „súpu með hakki, kartöflum og sætum kartöflum“! Ég ákvað því án mikillar umhugsunar að kalla hana Sjóræningjasúpu, hvers vegna ekki?! 🙂 Líklega var ofarlega í huga mér bókin hans Jóns Gnarrs, Sjóræninginn, sem er ég var að klára að lesa og fannst frábær.

IMG_0385

Uppskrift:

  • 5-8 kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 sæt kartafla, flysjuð og skorin í bita
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía
  • 1.2 líter nautakraftur
  • 1 gul paprika, skorin í bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 500-600 g hakk
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk paprikuduft
  • 2 tsk oregano
  • salt og pipar
  • 2-3 dl tómatasósa (ég notaði Jamie Oliver tómat/basiliku pastasósu, 1 krukku)
  • 2 tsk sambal oelek eða annað chilimauk
  • brauðteningar (t.d. með hvítlauk og osti)
  • ferskt kóríander (má sleppa)

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er hakkinu bætt út í og það steikt. Því næst er paprikunni bætt út í ásamt tómatsósunni og kryddunum. Svo er nautakraftinum bætt út í. Suðan er látin koma upp og þá er kartöflubitarnir og sætu kartöflubitarnir settir út í og súpan látin malla í ca. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar. Súpan er smökkuð til með salti, pipar, sambal oelek og fleiri kryddum ef þarf. Súpan er borin fram með brauðteningum og fersku kóríander.

Fyrir þá sem vilja búa til eigin brauðteninga sem eru auðvitað enn betri en þessir tilbúnu þá er hér uppskrift:

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

IMG_0387