Kanilsnúðakladdkaka


kanilsnúðakaka4

Ég veit ekki hvað ég er með orðið margar uppskriftir hér á síðunni af „kladdkökum“ (klessukökum), en þær eru orðnar ansi margar. Ástæðan fyrir því er líklega sænsku áhrifin af langri búsetu minni í Svíþjóð og svo sú staðreynd að ég skoða reglulega sænsk matarblogg og þar ber mikið á kladdkökum – fyrir utan auðvitað hvað þær eru góðar og einfaldar að baka. Ég hef séð uppskrift að þessari köku í margskonar útgáfum á mörgum sænskum bloggum undanfarið og ákvað að prófa að baka hana í dag. Það leið innan við hálftími frá því að ég byrjaði að baka þar til kakan var komin á borðið sem er frábær byrjun. Hvern vantar ekki að eiga góða uppskrift að afar fljótlegri og góðri köku? Kakan sjálf fannst mér ákaflega góð og gestirnir mínir voru mér sammála. Hún minnti óneitanlega á heita og ljúffenga kanilsnúða þó svo að það sé eiginlega bara kanillinn sem er sameiginlegur þáttur með þessu tvennu. Ég er svo heppin að eiga sænskan perlusykur (sjá umfjöllun um hann hér) til að strá ofan á kökuna en það er vel hægt að sleppa honum. Það sem er líka svo frábært við þessa köku er að það þarf enga hrærivél og varla nokkur áhöld, bara einn pott, desilítramál og písk og hráefnin á maður öll yfirleitt til, algjör snilld! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 stór egg
  • 1 msk kanill
  • hnífsoddur salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 1/2 dl hveiti
  • perlusykur ofan á kökuna (má sleppa)

Ofn stilltur á 180 gráður við undir/yfirhita. 22-24 cm smelluform smurt að innan. Smjör sett í pott og brætt. Potturinn tekinn af hellunni og smjörið látið kólna dálítið. Þá er restinni af hráefnunum bætt út í pottinn og pískað saman. Deiginu helt í formið og perlusykri dreift yfir (má sleppa). Bakað við 180 gráður í ca. 15-20 mínútur. Athugið að kakan á að vera fremur klesst og blaut og því betra að baka hana styttra en of lengi. Borin fram volg eða köld (hún er ekki síðri daginn eftir) með þeyttum rjóma.

kanilsnúðakaka3 kanilsnúðakaka1