Í gær var ég svolítið eins og sprungin blaðra, ánægð blaðra – en sprungin! 🙂 Fermingin hans Vilhjálms var í fyrradag og heppnaðist ákaflega vel. Ég er orðin hressari núna og nýt þess að vera loksins í fríi. Ég á eftir að blogga meira um þennan dásamlega fermingardag, matinn, uppskriftir og skreytingar en ég þarf að vinna úr myndunum betur áður.
Á meðan ætla ég hins vegar að setja hér inn í dag uppskrift að frábærri marengstertu með myntusúkkulaði. Það er fátt sem slær út gómsætum marengstertum og ég mæli með að þið skellið þessa og bjóðið sem eftirrétt eftir góða páskamáltíð!
Marengs:
▪ 2 dl sykur
▪ 1 dl púðursykur
▪ 4 eggjahvítur
▪ 3 bollar Rice Krispies
Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.
Rjómafylling:
▪ 5 dl rjómi
▪ 250 g fersk jarðarber, skorin í bita
▪ ca. 200 g fersk bláber
▪ 8 molar Fazermint (ca. 60 g), saxaðir smátt
Rjóminn er þeyttur og berjunum ásamt Fazermint molunum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.
Fazermint krem:
- 4 eggjarauður
- 4 msk flórsykur
- 12 molar Fazermint (ca. 90 g)
- 100 g Toms extra súkkulaði 70%
Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Toms extra súkkulaðið er brotið niður í skál ásamt Fazermint molunum og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er góð, ef ekki betri, daginn eftir.