Ég hef talað um það áður hér á blogginu, að þegar ég sé nýtt sælgæti á markaðnum, þá er ég alltaf spenntust fyrir því að finna því einhvern skemmtilegan farveg í uppskriftum. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá nýja Hrísið með Freyjukaramellubragði var að þessar súkkulaðikúlur myndu passa eins og hönd í hanska við gómsæta marengstertu. Mér datt síðan í hug að búa til karamellurjóma úr Freyju karamellum. … og herregud hvað þetta varð geggjaður rjómi!
Það munaði litlu að hann kæmist ekki á milli botnanna því ég þurfti ”aðeins” að smakka hann til dálítið of oft! 😉 Það væri örugglega geggjað að útbúa svona karamellurjóma og bera fram með berjum og ávöxtum eða með góðri súkkulaðiköku. Það er allavega næst á dagskrá hjá mér. Það er ekkert flókið að búa hann til, bara tvennt sem þarf að passa. Annars vegar að láta ekki rjómann sjóða og hins vegar að gefa honum góðan tíma til að kólna alveg. Það er því mjög hentugt að nota hann á marengstertu því það er einmitt terta sem maður bakar oftast daginn áður. Ég bakaði marengsbotnanna að kvöldi ásamt því að útbúa rjómann. Daginn eftir þeytti ég rjómann og setti saman tertuna, einfalt og fljótlegt. Ég tók hana með með í vikulega sunnudagskaffið hjá okkur fjölskyldunni og sló tertan í gegn. Þetta er terta sem verður sannarlega bökuð aftur og aftur!
Uppskrift:
- 300 g sykur
- 6 eggjahvítur
- 3 bollar Kornflex eða Rice krispies
- 1 tsk lyftiduft
Rjómafylling:
- 5 dl rjómi
- 150 g Freyju karamellur, klipptar í litla bita
- 200 g Hrís með Freyjukaramellum
- 250 g fersk jarðarber, skorin í bita
Súkkulaðikrem:
- 6 eggjarauður
- 6 msk flórsykur
- 200 g suðusúkkulaði
- 50 g Freyjukaramellur, klipptar í litla bita
- 1-2 msk rjómi eða mjólk
Karamellurjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu lækkað í meðalhita og karamellunum, sem búið er að klippa í minni bita, er bætt út rjómann. Þá er hrært þar til karamellurnar hafa bráðnað. Athugið að rjóminni má alls ekki sjóða! Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli, í minnst 4 tíma, eða þar til blandan er orðin alveg köld. Best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og loks er jarðaberjunum og hrískúlunum blandað varlega saman við með sleikju.
Súkkulaðikrem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Suðusúkkulaði og karamellur er sett í pott ásamt 1-2 msk af rjóma eða mjólk (eftir þörfum) og brætt við meðalhita. Þegar súkkulaðiblandan er bráðnuð er hún látin kólna dálítið og því næst bætt út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Ef súkkulaðiblandan er mjög þunn er hægt að setja hana í ísskáp í dálítla stund til þess að hún þykkni áður en henni er dreift yfir tertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, hindberjum og blæjuberjum.
Girnilegt að vanda frá þér!
Kærar þakkir Páll! 🙂
Er hægt að nota eitthvað annað en eggjarauðurnar í súkkulaðið? S.s. ofnæmi fyrir hráum eggjum.
Það er ekkert mál að búa til súkkulaðikrem úr t.d. suðusúkkulaði, mjólkursúkkulaði, Pipp eða einhveru góðu súkkulaði (jafnvel blanda því saman) sem maður bræðir. Svo er súkkulaðið þynnt með rjóma rjóma (ein matskeið í einu) þar til kremið er hæfilega þykkt.
Hvaða grænu blöð notarðu í skreytingarnar? 😀
Myntu
Wow what a cake – please can you translate it to English?