*Unnið í samstarfi við Urtu*
Eitt af því besta sem ég veit er nýbakað brauð. Þó svo að heimabökuð brauð séu fljótleg að búa til þá tekur alltaf dálítinn tíma að láta gerdeig hefa sig. Mér finnst því alltaf gott að geta gripið til einhvers sem er fljótlegt en þó jafngott og nýbakað brauð. Þessi uppskrift lætur kannski lítið yfir sér við lestur en maður verður bara að prófa til að fatta hversu ljúffengt þetta brauð er! 😉 Ótrúlega einfalt en sjúklega gott. Frábær leið til að bjóða upp á heitt, stökkt og djúsí brauð með matnum á mettíma! Ég nota hér þara hvítlaukssaltið frá Urtu og það fæst Hagkaup, Kringlunni.
Uppskrift
- 400 g tilbúið pítsadeig
- 3-4 msk ólífuolía
- ca. 1 msk fersk rósmarín, saxað
- Þara hvítlaukssalt eða annað gott flögusalt
Pítsadeiginu er rúllað út og skorið í ferninga. Olía hituð á pönnu og þegar hún er orðin mjög vel heit eru fjórar sneiðar af deiginu settar á pönnuna og þær steiktar á fremur háum hita, um það bil 1 mínútu á hvorri hlið eða þar til þær verða gullinbrúnar. Gott er að þrýsta deiginu dálítið niður á pönnuna með spaða. Um leið og brauðið er tekið af pönnunni er rósamaríni og þara hvítlaukssalti dreift yfir brauðið. Meiri olíu er bætt á pönnuna við þörfum og restin af brauðinu steikt á saman hátt. Mikilvægt er að hita olíuna mjög vel áður en brauðið er steikt. Borið fram heitt.