Við fjölskyldan erum nýkomin heim úr rúmlega vikulöngu fríi. Við keyrðum hringinn í kringum landið og dvöldum í sumarbústaði rétt fyrir utan Vopnafjörð. Við vorum orðin dálítið leið á því að fara alltaf bara austur fyrir fjall í bústað og höfum því undanfarin ár sóst eftir því að fara á meira „framandi“ staði og sjá þá í leiðinni meira af landinu okkar. Í ár var það sem sagt Vopnafjörður, í fyrra Patreksfjörður og árið þar áður vorum við á Seyðisfirði. Það sem er svo skemmtilegt við svona ferðir er meðal annars það að borgarbörnin okkar fá meiri tilfinningu fyrir landinu og hrópa alltaf upp yfir sig ef þau heyra til dæmis fréttir frá þeim stöðum sem við höfum dvalið á.
Matarlega séð voru tveir toppar í ferðinni okkar (fyrir utan okkar eigin grilltoppa í bústaðnum! 😉 ). Annar þeirra var Humarhöfnin á Höfn í Hornafirði. Það er afar notalegur staður sem býður upp á ljúffengan humar (reyndar á alltof háu verði samt að mínu mati). Hins vegar var það gistihúsið Egilsstaðir. Þvílíkur dásemdarstaður, það má enginn láta þann stað fram hjá sér fara þegar ferðast er um austurland! Sjálft húsið býr yfir mikilli sögu og hefur verið gert upp á ákaflega fallegan hátt. Það er hægt að gleyma sér við að skoða alla antíkmunina sem komið hefur verið fyrir smekklega í húsinu. Húsið sjálft og umhverfi þess er eitt og sér tilefni til heimsóknar en maturinn er líka dásamlega góður. Elfar fékk sér æðislega humarsúpu og ég fékk mér lambahamborgara með sultuðum lauk og camembertsósu, hnossgæti – ég á eftir að reyna við hann í eldhúsinu mínu! Það er mjög sniðugt að heimasækja staðinn á milli kl. 11.30 – 17.00. Þá er í boði léttur matseðill með girnilegum matréttum á afar sanngjörnu verði – þið bara verðið að prófa ef þið eigið leið þarna um! 🙂
Takið eftir því hvað gömlu gluggarnir eru endurnýttir á skemmtilegan hátt, þeir eru notaðir sem myndarammar.
Þó svo að við höfum alls ekki fengið neitt dandalaveður (elsk’etta vopnfirska orð fyrir „bongóblíðu“! ) þá áttum við frábæra daga í bústaðnum. Fórum reglulega í sund í Selárdalslaug og skoðuðum Burstarfell sem er einstaklega skemmtilegt. Við fórum líka í löggu- og bófa í fallega skóginum í kringum bústaðinn.
Búin á því eftir mikinn hamagang í löggu og bófa! Mamman var svo æstur bófi að hún snéri sig á ökkla þar sem hún var á háskalegum flótta yfir læk og stökk beint ofan í gjótu!
Einnig veiddum við á höfninni á Vopnafirði. Við veiddum ýmislegt; bæði þorsk og ýsu, kræktum í stóran krabba og nældum óvart í rassinn á mávi! Við fengum bæði síld og makríl hjá sjómönnunum fyrir beitu og við það varð mávurinn óþarflega spenntur í kringum okkur. Jóhanna Inga lagði stöngina frá sér á bryggjuna og þá notaði einn mávurinn tækifærið og ætlaði að stela beitunni en þar með flaug hann líka af stað með stöngina! Það varð upp fótur og fit þegar við reyndum að bjarga stönginni og rétt gátum komið í veg fyrir að hún færi í sjóinn!
Jóhanna Inga krækti í krabba!
Í þessu fríi hef ég lítið sinnt blogginu en bæti úr því í dag með uppskrift af dásamlega góðu og einföldu döðlubrauði. Ég er í raun ekki mikið fyrir döðlubrauð – eða það hélt ég þar til að ég smakkaði þetta brauð. Það slær fátt þessu brauði við þegar það er nýbakað, enn volgt og með góðu lagi af íslensku smjöri og jafnvel góðum osti og sultu líka!
Uppskrift (1 brauð):
- 2 bollar hveiti
- 1 bolli sykur
- 1 bolli döðlur
- 1 bolli vatn
- 1 tsk matarsódi
- 1 msk smjör
- 1 egg
Ofninn er hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform er smurt að innan (stærð ca. 22 cm x 8 cm – þegar botninn á forminu er mælt en það víkkar út að ofan) Döðlur, vatn og smör sett í pott og hitað að suðu og látið malla í 1 – 2 mínútur, hrært á meðan. Síðan er blandan hrærð í hrærvél þar til hún er orðin að mauki. Restinni að hráefninu er bætt út í hrærivélaskálina og öllu blandað saman. Deigið er sett í brauðform og bakað við 180 gráður í 50 mínútur.