Í fyrra fórum við hjónin í dásamlega ferð til Parísar. Við þræddum stórborgina í rúma viku, skoðuðum söfn, hlýddum á tónleika, fórum í lautarferðir í Lúxemburgargarðinn, sigldum eftir Signu en síðast en ekki síst snæddum við ljúfengan mat og drukkum dásamleg frönsk vín! Mörgum mánuðum fyrir ferðina kortlagði ég veitingastaðina í París, skoðaði matseðla, vefsíður og veitingahúsadóma. Þetta heppnaðist afar vel, við fórum á frábæra veitingastaði og fengum ljúffengan mat alla ferðina. En satt best að segja þá voru það ekki fínu veitingastaðirnir sem stóðu upp úr matarlega hjá okkur. Eftir að við komum heim gátum við ekki hætt að hugsa um crêpes, frönsku pönnukökurnar, sem eru seldar hér og þar um París í litlum sölustöndum! Crêpes með osti, skinku og eggi var hrikalega gott (ég er með uppskrift af því hér). En crêpes með Nutella og banönum …. Mon Dieu! 🙂 Og mér sem finnst ekki hnetusmjör gott! Eftir að heim var komið reyndi ég að endurskapa þessa dásemd en það gekk brösuglega. Málið með Crêpes er að þær eiga að vera þunnar og stórar en því er erfitt að ná með íslenskri pönnukökupönnu. En viti menn, ég fann Crepe rafmagnspönnu í Elkó sem var alls ekki svo dýr! Eftir að ég keypti hana fór ég að reyna að fullkomna uppskriftina og held að ég sé komin niður á uppskrift sem ég er sátt við. Svo þarf reyndar smá lagni við að steikja pönnukökurnar næfurþunnar og smyrja þær heitar með Nutella. En enginn í fjölskyldunni kvartar yfir þessum æfingum hjá mér! 😉 Fyrir þá sem vilja búa til alvöru Crêpes mæli ég með að setja þessa pönnu á jólagjafaóskalistann. En það er alveg hægt að búa til gómsætar crêpes á venjulegri pönnukökupönnu eða bara á venjulegi steikarpönnu með teflonhúð, ég hvet ykkur til að pófa!
Uppskrift
- 190 gr sigtað hveiti
- 1/4 tsk salt
- 3 egg
- 360 ml mjólk
- 45 gr smjör, brætt
- Nutella
- Vel þroskaðir bananar.
Skerið banana í sneiðar. Sigtið hveitið. Þeytið saman egg og hveiti, bætið smám saman mjólkinni við og að lokum bræddu smjör og salti. Þeytið vel.
Setjið örþunnt lag af deiginu á pönnu og steikið, snúið pönnukökunni við, bíðið í ca. 30 sekúndur, brjótið pönnukökuna í tvennt. Smyrjið Nutella á pönnukökuna og dreifið banönum yfir. Það þarf að hafa frekar hröð handtök. Brjótið svo pönnukökuna aftur saman, og steikið í skamma stund á hvorri hlið til að Nutella og bananar bráðni vel saman.
Berið fram pönnukökurnar sjóðheitar og ekki er verra að bera þær fram með vanilluískúlu og/eða þeyttum rjóma.
Þetta er sko nammi nammi nammi!!!
besti eftirrétturinn sem maður getur hugsað sér!
Þetta langar mig að prófa, nammi namm:)
Svakalega er þetta flott blogg hjá þér, fallegar myndir og þessi eftirréttur er bara æði1
Bakvísun: Meira crêpes … | Eldhússögur
Bakvísun: Uppáhalds í eldhúsinu | Eldhússögur
Bakvísun: Ofnbökuð svínalund með beikoni og sveppum | Eldhússögur
Bakvísun: Súkkulaði-bananavöfflur | Eldhússögur
Úff við fengum einmitt langbestu crépuna á svona standi úti í fyrra. Ótrúlega góð! Langar í svona pönnu!
Ég mæli svo mikið með svona pönnu! Crepes eru bara dásamlega góðar! Ég minnist einmitt mest frá París góðu osta og skinku crepes sem við borðuðum um borð í bátnum sem sigldi með okkur frá Effelturninum að Notre Dame. Einnig allra Nutella/banana crepes sem við keyptum úti á horni rétt hjá hótelinu okkar. Við vorum hætt að borða eftirrétti á veitingastöðunum, strunsuðum alltaf í standinn eftir á og hámuðum í okkur Nutella/banana crepes, hættulega gott! 🙂
Bakvísun: Brúnku-ostakaka með Dumle karamellukremi | Eldhússögur