Þá erum við hjónin komin heim eftir dásamlega New York ferð. Sem betur fer rétt sluppum við fyrir horn með flugmannaverkfallið. Öll Evrópuflug féllu niður þennan dag en það var flogið til Bandaríkjana þrátt fyrir nokkra tíma seinkun. Við áttum helgina í fríi saman en svo sótti Elfar ráðstefnu og hélt þar erindi. Á meðan gekk ég New York þvera og endilanga og lét mér sko ekki leiðast! Mér finnst svo gaman að fara í svona borgarferðir og skoða þar menninguna, umhverfið, mannlífið svo ekki sé minnst á matarmenninguna. Þó ég haldi mest upp á gamlar og virðulegar Evrópuborgir líkt og París þá er líka eitthvað svo heillandi við New York. Borgin er einstök, engin hverfi í borginni eru eins og Central Park er í raun ótrúlegur garður – byggður algjörlega af manna höndum fyrir 150 árum.
Áður en ég fer í svona ferðir þá undirbý ég þær afar vel. Þó það sé líka gaman að ráfa um stefnulaust og skoða það sem fyrir augu ber í ókunnugri borg þá gefur það manni langmest að vera vel undirbúinn. Til dæmis þá leiðist mér ákaflega mikið að eyða óþarfa tíma við að leita að veitingastöðum og enda svo kannski á því að fá vondan og óspennandi mat. Ég er því alltaf búin að bóka borð á veitingastöðum öll kvöldin sem við dveljumst í borginni, betra að vera búin að bóka og afpanta þá frekar ef plönin breytast. Ég skoða mikið síður eins og Tripadvisor þar sem aðrir ferðalangar segja frá sínum upplifunum, svo skoða ég staðsetningu, matseðla og verð á viðkomandi veitingastöðum. Á mjög mörgum veitingastöðum verður hreinlega að bóka með margra vikna fyrirvara sökum vinsælda. Ég skrifa líka hjá mér nokkra góða hádegisverðarstaði í helstu hverfunum og get þá droppað inn í hádeginu þar sem ég er stödd hverju sinni á þeim veitingastöðum sem ég veit að eru góðir. Okkur hefur reynst best að fara á meðaldýra og ódýra veitingastaði í svona ferðum. Oft eru dýrir og fínir veitingastaðir ekkert með betri mat en hægt er að fá annarsstaðar (sérstaklega hér Íslandi þar sem matur á gæða veitingastöðum er einstaklega góður) og verðið á veitingastöðum í stórum borgum er afar hátt. Til dæmis var besti maturinn sem við fengum að þessu sinni djúpsteiktur kjúklingur á pínulitlum stað í Greenwitch Village sem er eiginlega bara „take away“ staður – ég get svarið það – ég fæ bara vatn í munninn þegar ég hugsa um hann núna! 🙂 Þetta var jafnframt ódýrasta máltíðin sem við borðuðum í ferðinni! Við fórum þangað fyrsta daginn og töluðum um þennan kjúkling það sem eftir lifði ferðar. Staðurinn heitir Sticky´s Finger Joint (ef vel er að gáð þá sést í okkur hjónin á þessari mynd! 🙂 ) og þið megið ekki láta hann framhjá ykkur fara ef þið eruð í New York. Við deildum með okkur nokkrum tegundum og mér fannst mozzarellafyllti kjúklinginn bestur en Elfar var hrifnastur af Wasabi kjúklingnum.
Þetta verður sannarlega fyrsti viðkomustaður okkar í næstu ferð til New York! 🙂
Við gerðum margt annað skemmtilegt. Á vegum ráðstefnunnar var ofslega flott galakvöld á American Museum of Natural History. Þar var í boði þriggja rétta dásamlega góður málsverður í þessu frábæra umhverfi. Einnig tróð upp magnaður gospel kór og í kjölfarið frábær hljómsveit sem spilaði undir dansi fram á nóttu. Hápunkturinn var hins vegar Broadway sýningin sem við fórum á, Jersey Boys. Hún byggist á skrautlegum ferli hljómsveitarinnar Frankie Valli and the Four Seasons. Þeir áttu marga smelli sem lifa góðu lífi í dag. Á sviðinu í Broadway er svo brjálæðislega hæfileikaríkt fólk að það er eiginlega sama hvaða sýningu maður sér, þær eru allar frábærar. Við vorum reyndar einstaklega ánægð með þessa sýningu því við vorum svo hrifin af lögunum. Til dæmis er lagið Begging búið að hljóma í Ipodi okkar beggja stanslaust undanfarna daga. Ef skoðaður er listinn á Tripadvisor yfir topp „attractions“ í New York þá trónir einmitt Jersey Boys söngleikurinn efst þar á lista. Ég mæli með að nota TKTS básana til að kaupa miða á Broadway sýningar með 50% afslætti. Við fengum miða á 73 dollara per mann sem er sannarlega hvers dollara virði.
En svo ég víki frá New York að Eldhússögu dagsins þá segir sú saga frá einstaklega djúsí og góðri köku! Þessi kaka hæfir sérstaklega vel sem eftirréttur því hún er sæt og góð og hæfilegt að fá sér bara eina sneið og satt best að segja hefur hún slegið í gegn hjá öllum þeim sem hafa smakkað hana hjá mér. Að blanda saman brownie og ostaköku er bara snilld og kremið sjúklega gott, súkkulaði, karamella og hnetur brætt saman … þetta er bara klikkuð blanda börnin góð! 🙂
Uppskrift:
Rjómaostablanda
- 300 gr Philadelphia ostur
- ¾ dl sykur
- 1 tsk vanillusykur
Philadelphia ostur, sykur og vanillusykur er þeytt saman þar til blandan verður slétt. Blandan er geymd á meðan brúnkudeigið er útbúið.
Brúnku deig:
- 2 egg
- 100 gr smjör
- 2 dl sykur
- 3 msk bökunarkakó
- 2 dl hveiti
- ½ tsk lyftiduft
- 1 dl pistasíur frá Ültje, saxaðar gróft
Bökunarofn hitaður í 180 gráður. Egg og sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Á meðan er smjör og kakó sett í pott og hitað við vægan hita þar til smjörið er bráðnað og hefur blandast saman við kakóið. Því næst er smjörblöndunni bætt út í eggjablönduna. Að lokum er hveiti, lyftidufti og grófsöxuðum pistasíum blandað varlega saman við deigið með sleikju. Bökunarform (22 cm) er smurt að innan, helmingnum af brúnkudeiginu er hellt í formið og slétt úr því. Því næst er rjómaostablöndunni dreift varlega yfir brúnkudeigið. Að lokum er restinni af brúnkudeiginu dreift yfir rjómaostablönduna. Bakað neðarlega í ofni við 180 gráður í 30-40 mínútur. Kakan á að vera vel blaut í miðjunni þegar hún kemur úr ofninum. Kakan er látin kólna í forminu.
Dumle karamellu-hnetukrem
- 1 poki Dumle go nuts (175 g)
- 1-2 msk rjómi
Dumle go nuts bitarnir (gott að geyma um það bil þrjá bita til að skreyta með) eru settir í pott og bræddir við vægan hita. Rjóma er bætt út í þar til blandan hefur náð passlegri þykkt. Þegar kakan er orðin köld er hún tekin úr bökunarforminu og Dumle hnetu kreminu dreift yfir kökuna. Nokkrir Dumle bitar eru saxaðir gróft og stráð yfir kremið. Best er að geyma kökuna í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram.