Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Franskar Crêpes með Nutella og banönum


Í fyrra fórum við hjónin í dásamlega ferð til Parísar. Við þræddum stórborgina í rúma viku, skoðuðum söfn, hlýddum á tónleika, fórum í lautarferðir í Lúxemburgargarðinn, sigldum eftir Signu en síðast en ekki síst snæddum við ljúfengan mat og drukkum dásamleg frönsk vín! Mörgum mánuðum fyrir ferðina kortlagði ég veitingastaðina í París, skoðaði matseðla, vefsíður og veitingahúsadóma. Þetta heppnaðist afar vel, við fórum á frábæra veitingastaði og fengum ljúffengan mat alla ferðina.  En satt best að segja þá voru það ekki fínu veitingastaðirnir sem stóðu upp úr matarlega hjá okkur. Eftir að við komum heim gátum við ekki hætt að hugsa um crêpes, frönsku pönnukökurnar, sem eru seldar hér og þar um París í litlum sölustöndum! Crêpes með osti, skinku og eggi var hrikalega gott (ég er með uppskrift af því hér). En crêpes með Nutella og banönum …. Mon Dieu! 🙂 Og mér sem finnst ekki hnetusmjör gott! Eftir að heim var komið reyndi ég að endurskapa þessa dásemd en það gekk brösuglega. Málið með Crêpes er að þær eiga að vera þunnar og stórar en því er erfitt að ná með íslenskri pönnukökupönnu. En viti menn, ég fann Crepe rafmagnspönnu í Elkó sem var alls ekki svo dýr! Eftir að ég keypti hana fór ég að reyna að fullkomna uppskriftina og held að ég sé komin niður á uppskrift sem ég er sátt við. Svo þarf reyndar smá lagni við að steikja pönnukökurnar næfurþunnar og smyrja þær heitar með Nutella. En enginn í fjölskyldunni kvartar yfir þessum æfingum hjá mér! 😉 Fyrir þá sem vilja búa til alvöru Crêpes mæli ég með að setja þessa pönnu á jólagjafaóskalistann. En það er alveg hægt að búa til gómsætar crêpes á venjulegri pönnukökupönnu eða bara á venjulegi steikarpönnu með teflonhúð, ég hvet ykkur til að pófa!

Uppskrift

  • 190 gr sigtað hveiti
  • 1/4 tsk salt
  • 3 egg
  • 360 ml mjólk
  • 45 gr smjör, brætt
  • Nutella
  • Vel þroskaðir bananar.

Skerið banana í sneiðar. Sigtið hveitið. Þeytið saman egg og hveiti, bætið smám saman mjólkinni við og að lokum bræddu smjör og salti. Þeytið vel.

Setjið örþunnt lag af deiginu á pönnu og steikið, snúið pönnukökunni við, bíðið í ca. 30 sekúndur, brjótið pönnukökuna í tvennt. Smyrjið Nutella á pönnukökuna og dreifið banönum yfir. Það þarf að hafa frekar hröð handtök. Brjótið svo pönnukökuna aftur saman, og steikið í skamma stund á hvorri hlið til að Nutella og bananar bráðni vel saman.

Berið fram pönnukökurnar sjóðheitar og ekki er verra að bera þær fram með vanilluískúlu og/eða þeyttum rjóma.