Gulrótarkaka


IMG_1041

Ég hef lengi skoðað litríkar Kitchen aid hrærivélar með stjörnur í augum og stúderað alla þá liti sem eru í boði. Ég er ekki mikið fyrir króm eða svart, er meira svona pasteltýpan. Bláu litirnir hafa alltaf höfðað mest til mín en núna, þegar kom loksins að því að velja lit, þá kolféll ég hins vegar fyrir pistasíugrænu vélinni.

IMG_1027 2

Ég gæti ekki verið sáttari með nýju vélina og þennan fallega lit. Ég gat ekki beðið eftir því að nota nýju vélina og jómfrúarbaksturinn var ein af mínum uppáhaldskökum, gulrótarkaka. Ég er eiginlega jafnhrifin af gulrótarkökum og eplakökum (ég elska góðar eplakökur!) og þessi uppskrift er algjörlega skotheld. Dúnmjúk, safarík og góð gulrótarkaka sem er ákaflega einfalt að baka. Ég mæli með! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g gulrætur, rifnar
  • ca 70 g maukaður ananas (án vökva)
  • 4 egg
  • 4 dl sykur
  • 2 dl matarolía
  • 1 msk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 tsk kanill
  • 4 dl hveiti

Rjómaostakrem

  • 200 g rjómaostur
  • 100 g smjör, við stofuhita
  • 4 dl flórsykur

IMG_1005

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Þá er matarolíu, rifnum gulrótum og maukuðum ananas bætt út í. Því næst er lyftidufti, vanillusykri, kanil og hveiti bætt út í og hrært þar til deigið er slétt. Þá er deiginu hellt í smurt form ( ca. 30 cm x 25 cm eða hringlaga form), klætt bökunarpappír. Kakan er bökuð við 180 gráður neðarlega í ofninum í ca. 40-45 mínútur. Kakan er kæld áður en kremið er sett á.

Rjómaostakrem: öllum hráefnunum er hrært saman þar til kremið verður létt og ljóst. Kremið er sett á kalda kökuna.

IMG_1037IMG_1046

Gulrótarkaka með súkkulaði og eplum


Gulrótarkökur eru rosalega góðar, sérstaklega þær sem eru safaríkar og bragðmiklar. Þessi er ein af þeim, þetta er dásamlega góð uppskrift. Þessi gulrótarkaka er best daginn eftir að hún er bökuð.

Uppskrift:

  •  3 stór egg
  • 2.5 dl matarolía (t.d. sólblómaolía)
  • 200 gr. sykur
  • 150 gr púðursykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 tsk kanill
  • 1/2 tsk múskat
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 320 gr. hveiti
  • 100 gr. suðusúkkulaði, fínsaxað
  • 400 gr gulrætur, rifnar
  • 1-2 græn epli, rifin

Rjómaostakrem

  •  100 gr. smjör, við stofuhita
  • 200 gr. flórsykur
  • 200 gr. rjómaostur, við stofuhita
  • 3 tsk vanillusykur

Aðferð:

Hitð ofinn í 180 gráður. Þeytið saman egg, sykur og olíu þar til blandan verður ljós. Bætið út í hveiti og öðrum þurrefnum og blandið varlega saman. Bætið við súkkulaði, rifnum gulrótum og rifnum eplum og blandið við deigið. Bakið í lausbotna smurðu formi (25 cm) í miðjum ofni í 50-60 mínútur.

Krem:

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til það verður létt og ljóst, bætið þá við rjómaostinum og vanillusykri. Smyrjið kremið á kökuna þegar hún er orðin köld.