Ég hef ekki mikið verið í eldhúsinu undanfarið heldur hef ég notið góða veðursins í garðinum, á veitingastöðum og í veislum síðastliðna daga. Dásamlegt alveg hreint og eitt af því sem er svo skemmtilegt við sumarið þegar veðrið leikur við okkur. Ég prófaði tvo nýja veitingastaði nýverið, Steikhúsið og Kopar, frábærlega góður matur á báðum þessum stöðum. Ég hef einmitt sett inn myndir frá þessum veitingahúsaferðum á Instagram. Áður en ég eignaðist Iphone þá fannst mér svolítið leiðinlegt að geta ekki fylgst með hinum og þessum vinum, ættingjum og bloggurum á Instagram. Ég ætla því að setja inn hér á bloggið nokkrar myndir frá Eldhússögum á Instagram undanfarið fyrir þá sem ekki hafa aðgang þar.
Uppskriftin sem ég ætla að setja inn í dag er af Halloumi osti en hann er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og í Grikklandi. Halloumi hefur hátt bræðslumark og hentar þvi vel til steikingar og grillunnar. Halloumi er hvítur og mjúkur með saltbragði, ekki ósvipaður mozzarrella. Þegar ég bjó í Svíþjóð þá notuðum við oft þennan ost, annað hvort grillaðan eða steiktan, en ostinn var auðvelt að nálgast í öllum matvöruverslunum í Svíþjóð. Hér á landi hefur hins vegar verið erfiðara að nálgast Halloumi. Hann hefur þó verið til í versluninni Tyrkneskur Bazar og hjá Búrinu. En ég sá hér á Lífsstílssíðu Sólveigar að nú er hægt að kaupa Halloumi í Bónus! Ég var fljót til að næla mér í einn og grillaði beikonvafinn Halloumi í kvöld og bar fram með grillmatnum, gómsætt!
Uppskrift
- 1 Halloumi ostur (fæst í Bónus)
- nokkrar beikonsneiðar
- ítalskt kydd (blanda af kryddjurtum, t.d. rósmarín og timjan)
- salt & pipar
Osturinn er skorinn niður í passlega þykkar sneiðar. Ég náði 10 sneiðum úr einum osti. Hver sneið er krydduð með kryddjurtum, salti og pipar (ég notaði lítið salt þvi beikonið er salt). Þá er einni beikonsneið vafið þétt utan um hverja ostsneið. Grillað við meðalhita í ca. 5 mínútur á hvorri hlið.
Rosalega girnilegt og síðan þín er alveg frábær, ég prófa mjög margar uppskriftir héðan og þær hafa sjaldan klikkað 😉
Gaman að heyra það, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Bakvísun: Grillaðar kjúklingabringur í úllalasósu | Eldhússögur
Gleymdi að minnast á að við grilluðum þennan ost með bringunum í úllalasósunni og vakti mikla lukku hjá strákunum mínum og auðvitað okkur fullorðna fólkinu líka 😉 Frábært meðlæti með grillmat.
Bakvísun: Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti | Eldhússögur