Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Bismarkbaka með súkkulaðisósu


IMG_6924Mikið var gaman að sjá viðbrögðin við færslunni hér að neðan með uppáhaldseftirréttunum mínum en þetta innlegg var heimsótt 7 þúsund sinnum á bara einum degi. Flestir leggja mikið upp úr matnum á gamlárskvöld og greinilegt að margir eru að leita að góðum uppskriftum fyrir kvöldið.

Við stórfjölskyldan verðum enn og aftur saman á gamlárskvöld, við fáum greinilega ekki nóg af hvert öðru yfir hátíðarnar! Að þessu sinni verðum við enn fleiri en á aðfangadagskvöld og verðum heima hjá foreldrum mínum. Í forrétt verður grafin nautalund með piparrótarsósu (hér er uppskrift af sósunni), í aðalrétt verður kalkúnn með dásamlega góðu meðlæti en ég mun svo sjá um eftirréttinn. Ég ætla ekki að hafa neinn af eftirréttunum 15, þó þeir séu allir afskaplega góðir. Ég ætla að hafa eftirrétt sem ég hef ekki enn sett inn uppskrift af hér á bloggið. Þetta er Bismarkbaka með súkkulaðisósu sem ég gerði í fyrsta sinn fyrir jólin í fyrra, sá eftirréttur komst strax í uppáhald hjá fjölskyldunni enda afskaplega jólalegur og góður. Ég sendi uppskriftina meira að segja í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus í fyrra, fullviss um þessi dásemd myndi myndi rústa keppninni ….  sem hún gerði svo reyndar ekki! 🙂 Ég efast því eiginlega um að Nói og félagar hafi prófað uppskriftina því hún er svo hrikalega góð! 😉 Þessi eftirréttur er afskaplega einfaldur og þægilegur að gera, það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara og setja í frysti. Súkkulaðisósuna er líka hægt að gera áður og hita hana svo bara aftur upp rétt áður en hún er borin fram.

fluff1Eina sem gæti verið snúið við þessa uppskrift er að nálgast marshmallow-fluff-234x300Marshmallow fluff sem er sykurpúðakrem. Það er oftast til í Hagkaup en þó ekki alltaf. Það hefur alltaf verið til á Amerískum dögum en stundum líka þess á milli. Ég keypti það í Hagkaup núna rétt fyrir jól og reikna því með að það sé til enn. En svo ætti nú líka að vera hægt að nálgast það í Kosti. Tegundin sem ég keypti í Hagkaup núna lítur út eins og þessi til vinstri, „Jet-Puffed marshmallow creme“ en dósirnar geta líka litið út eins og þessi til hægri, „Marshmallow Fluff“

IMG_6891

Botn

  • 20 kexkökur með súkkulaði (ég nota súkkulaði Maryland kex, fyrir Oreoaðdáendur er t.d. hægt að nota Oreokex)
  • 2 msk. kakó
  • 25 g brætt smjör

Kexið er maukað fínt i matvinnsluvél ásamt kakói og smjöri, blandað vel saman. Fóðrið botninn á 24-26 cm smellumóti með smjörpappír. Þrýsitð kexmylsnunni vel í niður á botninn í forminu og setjið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós Marshmellow krem (Marshmallow fluff eða Marshmallow creme)
  • nokkrir dropar piparmintu Extract
  • nokkrir dropar rauður matarlitur
  • 1 dl  Bismark brjóstsykur frá Nóa og Siríus (+ til skreytingar)

Þeytið rjómann og blandið Marshmellowkreminu varlega saman við með sleikju. Passið samt að leyfa kreminu að halda „fluffinu“, þ.e. Marshmellowkremið á að vera í „klumpum“ í rjómanum. Bætið við Piparmintu extract eftir smekk (gætið þess samt að nota ekki of mikið af því, bara örfáa dropa). Setjið 1/3 af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Brjótið Bismark brjóstykurinn í morteli eða í matvinnsluvél. Blandið saman við stærri hluta kremsins og setjið ofan á botninn.

Takið afganginn af kreminu og setjið nokkra dropa af rauðum matarlit saman við það. Setjið nú rauða kremið ofan á það hvíta.

Setjið í frysti í minnst fimm tíma og takið út ca. einum tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með Bismark brjóstsykri.

Súkkulaðisósa

  • 125 g suðusúkkulaði
  • 75 g smjör
  • ½ dl. sykur
  • ½ dl síróp
  • ½ dl. vatn

Hitið súkkulaði, smjör, sykur, vatn og síróp saman í potti við hægan hita. Hrærið í öðru hverju þar til blandan er orðin slétt og samfelld. Berið fram heita með Bismarkbökunni.

IMG_6894