Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu


Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! 🙂 Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! 🙂

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! 🙂 Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368