Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu


Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! 🙂 Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! 🙂

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! 🙂 Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368