Piparkökur


piparkökurPiparkökubakstur er ómissandi í jólaundirbúningnum á heimili okkar. Ég er mjög veik fyrir piparkökuformum og við eigum orðið ansi veglegt safn af þeim. Jólasveinninn er líka sniðugur stundum og laumar í skóinn skemmtilegum formum daginn áður en við bökum piparkökurnar – skemmtileg tilviljun! 🙂IMG_2183

Hluti af piparkökuformunum

Það er nauðsynlegt að setja á fóninn góða jólatónlist, kveikja á kertum og drekka malt og appelsín úr jólaglösum á meðan piparkökurnar eru bakaðar og skreyttar. 🙂

IMG_2192

Krakkarnir eru snillingar að skreyta piparkökurnar. Hér málaði Vilhjálmur eina kökuna eins og uppáhalds hundategundina sína.IMG_2282Jóhanna er líka svo hugmyndarík í skreytingum, hér málaði hún jólatré á jólasokkinn – og skreytti með ótal silfurkúlum (sem eru ætar auðvitað!).

IMG_2258Hér að neðan færi ég inn uppskrift að góðum piparkökum, uppskrift sem ég nota alltaf þegar ég útbý deigið sjálf. Reyndar kaupi ég líka stundum tilbúið deig. Það er jú langskemmtilegast að skera út piparkökurnar og mála þær og önnum kafnar mömmur þurfa að forgangsraða á annasamri aðventu. Mér finnst samt þessar piparkökur langbestar.

Uppskrift:

 • 250 g sykur
 • 2 dl ljóst síróp
 • 1 msk kanil
 • ½ msk engifer
 • ¼ msk negull
 • ¼ tsk pipar
 • 250 g smjör
 • 1 msk matarsódi
 • 2 egg
 • 650-800 g Kornax hveiti

Kalt smjör er sett í skál sem er sett til hliðar. Því næst er sykur og síróp sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Þá er kanil, engifer, negul og pipar hrært vel saman við. Því næst er matarsódanum bætt út í og öllu hrært hratt og vel saman. Á þessum tímapunkti verður blandan ljósari og bólgnar upp. Þá er blöndunni strax hellt yfir smjörið í skálinni og hrært vel þar til allt smjörið hefur bráðnað og blandan er orðin köld. Því næst er eggjunum bætt út í og þeim hrært vel saman við blönduna. Að lokum er hveitinu bætt smátt og smátt út í þar til deigið er orðið þétt og slétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Þegar nota á deigið er það hnoðað örlítið og svo flatt út með kökukefli, þá er gott að strá dálítið af hveiti á borðið svo það festist ekki við eða nota bökunarpappír undir deigið. Piparkökurnar eru mótaðar með þar til gerðum formum, það þarf að passa að þær séu um það bil jafn þykkar allar. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 5-10 mínútur, fer eftir stærð piparkakanna.


IMG_2197
IMG_2205

 

Glassúr:

 • flórsykur
 • eggjahvíta
 • sítrónusafi
 • matarlitir (Wilton eru langbestir)
 • kökuskraut eftir smekk

Flórsykur er settur í skál og örlítið af vatni er bætt út í ásamt smá sítrónusafa og eggjahvítu (ég notaði örlítið úr eggjahvítubrúsa en það er líka hægt að nota hluta af eggjahvítu úr einu eggi). Pískað vel saman þar til að blandan er slétt. Það þarf að prófa sig áfram með hlutfallið af vökva og flórsykri til að ná hæfilegri þykkt þannig að glassúrinn renni ekki en þó  þannig að það sé hægt að sprauta honum á piparkökurnar. Það er góð regla að bæta við minnna en meira af vökva því það þarf lítið til að glassúrinn verði of þunnur. Glassúrnum er svo skipt í eins margar skálar og litirnir eiga að vera og matarlit hrært út í hverja skál. Ég sett svo glassúrinn í litlu einnota sprautupokana frá Wilton (notaði bara pokana, ekki stútinn) og klippti örlítið gat, það hentaði mjög vel.

IMG_2286

IMG_2312 IMG_2260IMG_2314IMG_2263IMG_2311 IMG_2264 IMG_2271IMG_2266

Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum


Jólastofa

Það styttist óðfluga í jólin og líkt og flestir þá er ég farin að huga að matarinnkaupunum fyrir jólin. Hátíðar snúast um hefðir og ég þarf ekkert að finna upp hjólið þegar matseðillinn er settur saman. Við snæðum hamborgarhrygg á aðfangadag, hangikjöt á jóladag en á annan í jólum er misjafnt hvað ég útbý, oft hef ég góða fiskmáltíð sem hentar vel eftir kjötmáltíðirnar dagana á undan. Allar uppskriftirnar að þessum réttum eru hér á Eldhússögum en í dag kynni ég frábæra nýjung sem ég er ákaflega spennt yfir. Ég er komin í samstarf við sommalier (vínþjón) sem ætlar að hjálpa mér að para saman góð vín með uppskriftunum mínum. Eins og ég hef talað um áður þá finnst mér voða gott að dreypa á smá léttvíni með góðri máltíð en þekking mín á vínum er afar lítil. Það verður því ákaflega gaman að geta fengið faglega hjálp við val á vínum með máltíðunum og ekki síður að geta gefið ykkur ábendingar um hvaða vín henta með uppskriftunum sem ég gef upp.

_LKI3259-2Vínþjónninn sem kominn er í samstarf við Eldhússögur heitir Sævar Már Sveinsson framreiðslumeistari sem hefur sérhæft sig í léttvínum. Sævar hefur unnið titilinn vínþjónn ársins 5 ár í röð og keppt í fjölmörgum alþjóðlegum keppnum. Hann hefur meðal annars starfað á Hótel Holti, Sommelier Brasserie og á Grillinu á Hótel Sögu. Sævar mun para saman vín með réttunum hér á Eldhússögum miðað við það hráefni sem er í uppskriftunum svo að vínið falli vel að matnum og öfugt. Þá hefur Sævar í huga atriði eins og; sætu, sýru, beiskju og seltu. Oftast gildir sú regla að setja vín með matnum sem hefur álíka eiginleika. Það þýðir að réttur með sætu meðlæti passar vel með víni með sætum ávaxtakeim og svo framvegis.

Sævar er þegar búinn að skoða nokkrar uppskriftir að hátíðarmat hér á Eldhússögum og para við þær ljúffeng léttvín.

Tillögur að gómsætum hátíðarmat og drykk sem henta vel yfir jól og áramót:

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

Hangikjöt

Hangikjöt með kartöfluuppstúf

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

Roastbeef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

IMG_0748

Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur

IMG_6042

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_1917

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu

Eplabaka með piparkökum


Eplabaka með piparkökum

Mér finnst eplabökur vandræðalega góðar. Svíar eru mikið bökufólk og á kaffihúsum þar í landi eru alltaf allskonar pæ í boði, hindberjapæ, eplapæ og fleiri góð pæ. Fyrstu árin sem ég bjó í Svíþjóð var ég stórhneyksluð á því hvernig Svíar eyðilögðu þessar góðu bökur með því að drekkja þeim í vanillusósum. En eftir nokkurra ára dvöl þar í landi var ég orðin frelsuð og vildi líka að eplabökunni minni væri drekkt í ljúffengri vanillusósu!

Eitt kvöldið fyrr í vikunni var ég í jólaskapi, nýbúin að kaupa box af gómsætum sænskum piparkökum (þessum sænsku í rauðu boxunum merktum „Göteborgs“ – þær eru bestar!) og langaði að búa til eplaböku. Skyndilega fékk ég þá hugdettu að það væri gott að blanda piparkökum við eplabökudeigið. Ég beið ekki boðanna og hófst strax handa. Hálftíma seinna stóð rjúkandi heit og gómsæt eplabaka á borðinu og húsið angaði af jólailmi. Vissulega var ég ekki með neina sænska vanillusósu til að drekkja bökunni í en í þetta sinn setti þeytti rjóminn punktinn yfir i-ið. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki uppgötvað þetta fyrr því eplabakan var með þeim betri og jólalegri bökum sem ég hef bragðað!

image.aspx

Uppskrift:

Deig:
 • 125 g smjör (gott ef það hefur fengið að standa í stofuhita í smá tíma)
 • 1dl sykur
 • 1dl Kornax hveiti
 • 1.5 dl haframjöl
 • ca. 10-12 piparkökur, muldar fremur smátt
 • 1/2msk kanill
 • 1 tsk engifer
 • 1 tsk negull
Fylling: 
 • 3-4 græn epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í þunnar sneiðar
 • 2 msk hrásykur

IMG_1560

Ofn hitaður í 210 gráður. Öllum hráefnunum í deigið blandað saman í höndunum í massa. Eplaskífunum raðað í eldfast mót og hrásykrunum dreift yfir. Því næst er deiginu dreift yfir eplin. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til eplin eru orðin mjúk og deigið stökkt. Berið fram heitt með vanilluís eða þeyttum rjóma.
IMG_1570

Oreokúlur


OreokúlurÞetta gúmmelaði passar jafnt sem góðgæti fyrir jólin og allt árið um kring. Þetta er einföld uppskrift og afar fljótleg sem er mikill kostur fyrir uppteknar húsmæður og húsfeður á aðventunni. 🙂 Fyrir Oreokex aðdáendur þá er þetta bráðnauðsynleg uppskrift að prófa!

Uppskrift ca. 30 litlar kúlur

 • 150 gr rjómaostur, Philadelphia
 • 16 Oreo kexkökur (1 pakki)
 • 200 gr suðusúkkulaði (ég notaði Dökkan hjúp frá Nóa og Siríus, líka gott að nota 56% súkkulaði)
 • skraut ef vill, t.d. súkklaðikökuskraut, saxaðar hnetur, brætt hvítt súkkulaði

Oreokúlur

Oreokúlur

Setjið Oreokex og rjómaost saman í matvinnsluvél og keyrið þar til kexið hefur mulist niður og er vel blandað við rjómaostinn.
Það er gott að setja blönduna í ísskáp í ca. 30 mínútur áður en kúlurnar eru mótaðar, það verður svo mikið auðveldara. Þegar kúlurnar eru svo mótaðar í höndunum er gott að gera þær litlar, súkkulaðið gerir þær síðan stærri.
Kúlurnar eru lagðar á bökunarpappír og kældar í ísskáp í 4-5 tíma eða í frysti í 2-3 tíma. Þegar þær eru orðnar nægilega harðar þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði, kúlunum dýft ofan í og þær síðan lagðar á bökunarpappír. Gott er að dýfa kúlunum í súkkulaðið með tannstöngli. Ef maður vill er hægt að strá skrautinu yfir kúlurnar áður en súkkulaðið harðnar. Þessar kúlur bragðast langbest ef þær hafa fengið að vera í ísskáp í minnst sólarhring.

IMG_6696

Hangikjöt með kartöfluuppstúf


 

IMG_2612Við höfum átt yndisleg jól. Elfar var á vakt helgina 22. og 23. desember og vann þá bæði dag og nótt en á móti fékk hann frí yfir jólin sem var dásamlegt þar sem hann hefur verið að vinna síðastliðin tvö ár yfir jólin. Á aðfangadagskvöld kom stórfjölskyldan að vanda til okkar og þá eldaði ég hamborgarhrygg. Ég var búin að setja inn uppskriftina af hryggnum fyrir jól en er núna búin að uppfæra þá færslu með nýjum myndum. Á jóladag fórum við að venju til foreldra minna í brunch þar sem í boði er meðal annars gómsætt hreindýrapaté, fjallagrasapaté, síld, skinkuhorn, grafið hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, reyktur lax, grafin lax með tilheyrandi sósum, sultum og fleiru. Þetta er eiginlega sá jólamatur sem mér finnst bestur. Á jóladag er ég venjulega með hangikjöt um kvöldið. Það voru hinsvegar allir svo saddir eftir brunchið að það endaði á því að öll fjölskyldan kúrði saman í sófanum fram eftir kvöldi og horfði á bíómyndir milli þess sem að það var nartað í afgang af hamborgarhrygg og jólagraut auk þess sem borðað var konfekt og meira konfekt! 🙂

Jólin heima hjá okkur

IMG_6651

Recently Updated20Við leggjum mikið upp úr því að hafa jólatréð okkar barnslega ævintýralegt. Við erum ekki mikið fyrir eitthvað svona stílhreint hvítt/silfrað skraut eitthvað! 🙂 Ég hef safnað í gegnum tíðina jólatréskrauti sem börnunum finnst fallegt og spennandi, svolítið svona eins og umhverfið í Grinch bíómyndinni! 🙂 Elfar setur 700 marglitar perur í jólatréð, hann vefur hverja einustu grein á trénu með seríu! Það tekur því alltaf eina kvöldstund að setja ljósin á og svo er tréð skreytt daginn eftir. Ég leitaði í mörg ár af gullstjörnu á toppinn og varð hoppandi glöð þegar ég fann eina slíka í Svíþjóð rétt áður en við fluttum heim, mér finnst einhvernvegin að það eigi að vera gullstjarna á toppnum á jólatrjám! Ég var á Pinterest um daginn sem er óþrjótandi uppspretta allskyns hugmynda. Þar sá ég svona skáp svipaðan þeim sem við eigum, skreytan á svona einfaldan hátt sem mér fannst svo fallegt. Ég hermdi því eftir og þetta varð útkoman.

Recently Updated19

Recently Updated21Fyrst ég er kominn í þennan gír þá verð ég að setja inn mynd af arninum okkar líka sem er kominn í einfaldan jólabúning með ómissandi híasentuskreytingu sem pabbi útbýr fyrir okkur fyrir hver jól. Nú mætti halda að þetta væri orðið einhverskonar heimilisblogg, ég ætla að skvera inn uppskriftinni sem titillinn á þessari bloggfærslu lofaði! 🙂 Ég eldaði sem sagt jóladags hangikjötið á annan í jólum í ár. IMG_2619Líkt og með hamborgarhrygginn elda ég hangikjötið í ofni. Ég las mér til um að það væri besta leiðin til að elda saltað kjöt og það þrælvirkar fyrir hamborgarahrygginn, hann verður svo lungnamjúkur og meyr. Ég keypti úrbeinað hangikjötslæri sem var 1.2 kíló. Ég vafði því inn í álpappír og stakk í það kjöthitamæli. Ég setti það á grind með ofnskúffu undir (það getur lekið úr því) í ofn sem er búið að hita í 130 gráður. Ég eldaði hangikjötið þar til kjarnhitinn var búinn að ná 65 gráðum, það tók næstum því 3 klukkutíma. Hangikjötið varð afskaplega meyrt og bragðgott við þessa meðhöndlun.

Hangikjöt í ofni

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með ítalska rauðvíninu Mezzacorona Merlot með hangikjötinu. Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, mild tannín. Rauð ber, laufkrydd.

IMG_2599

Að sjálfsögðu var hefðbundið meðlæti, grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, kartöfluuppstúfur, laufabrauð, drukkið jólaöl með og hlustað á jólajazz! 🙂

IMG_2595

Segið þið annars hangikjöt með uppstúfi eða uppstúf? Hvor tveggja er rétt að segja í þágufalli, ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst eðlilegra að nota, ég var eitthvað að vandræðast með hvað ég ætti að skrifa í fyrirsögninni. En svona geri ég allavega kartöfluuppstúf:

Uppskrift:

 • 1 kíló kartöflur
 • 130 g smjör
 • 8 msk hveiti
 • ca 1 líter mjólk
 • 1 msk sykur
 • salt og pipar
 • hnífsoddur af múskat

Kartöflur soðnar, afhýddar og skornar í bita ef þær eru mjög stórar. Smjörið brætt í potti, hveitinu hrært út í og látið malla í 1-2 mínútur við vægan hita. Bakað upp með mjólkinni, kryddað með múskati, salti og pipar og sykri síðan bætt út í. Kartöflurnar látnar út í og látið malla í 5 mínútur við meðalhita.IMG_2624

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu


IMG_6528

Það er ekki seinna vænna en að setja inn uppskrift af jólamatnum! Stórfjölskyldan mín eyðir alltaf aðfangadagskvöldinu saman. Eftir að við fluttum til Íslands fyrir fjórum árum tók ég við aðfangadagskvöldi af mömmu en alla mína æsku vorum við hins vegar hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld. Þá voru oft rjúpur í jólamatinn, nokkuð sem ég komst aldrei upp á lagið að borða. En eftir að rjúpurnar urðu illfáanlegar hefur hamborgarhryggur verið jólamaturinn okkar. Ég hef skrifað hjá mér (eða réttara sagt sent sjálfri mér tölvupóst!) undanfarin ár hvaða uppskrift og aðferð mér hefur hugnast best hverju sinni og það er gott að geta komið þeim upplýsingum úr tölvupóstinum í heilsteypt innlegg hér á blogginu!

IMG_4416

Horft inn um gluggann í Kleifarselinu á aðfangadagskvöld.

IMG_4419

Eins og ég geri með afar margt þá lagðist ég í umfangsmikla heimildavinnu áður en ég tók við þessu veigamikla hlutverki að elda jólamatinn fyrir 12 manns! Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið skrif og viðtöl við fjölmarga kokka og aðra eldhússnillinga að það á alls ekki að sjóða saltað kjöt í vatni. Þetta á við bæði um hamborgarhrygg og hangikjöt, ég elda því hvor tveggja í ofni og mér finnst kjötið verða mikið meyrara og betra þannig. Þegar hamborgarhryggurinn er steiktur í ofni getur hann verið aðeins saltari af því að saltið leysist ekki upp í soðvatni. Það á sérstaklega við um litla hryggi, kannski undir tveimur kílóum. Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur er gott að leggja hann í kalt vatn í 2-3 tíma fyrir eldun. Ég elda hamborgarhrygginn við lágan hita og þá þarf ekki að hafa hann í álpappír. Eins og ég hef skrifað hér áður er ég afar ginkeypt fyrir stjörnugjöfum, dómum og gagnrýni og ég fylgist því vel með á ári hverju hvaða hamborgarhryggir fá bestu einkunn. Kea og Ali hamborgarahryggirnir koma yfirleitt vel út í könnunum og ég nota annan hvorn þeirra.

IMG_4369

Varðandi magn þá hef ég skrifað hjá mér árlega hversu þunga hryggi ég kaupi, hversu margir borða og hvað verður eftir. Eftir að hafa reiknað þetta út þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þarf að kaupa 400 grömm á mann af hamborgarahrygg með beini. Þá er ég að miða við fullorðna sem borða og að það verði afgangur.

IMG_6507

Við erum mjög hefðbundin varðandi meðlæti með hamborgarhryggnum:

 

Uppskrift af gljáðum hamborgarhrygg:

 • Hamborgarhryggur á beini, ca. 400 gr. á mann miðað við að það verði afgangur
 • ananassneiðar

Sykurhjúpur (f. ca. 2-3 kílóa hrygg)

 • 2,5 dl púðursykur (í ár notaði ég muscovado sykur, það kom mjög vel út)
 • 1/2 dl vínedik eða cider edik
 • 1 dl tómatsósa
 • 1 dl rjómi
 • 1/2  dl Dijon sinnep

Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur (þar sem að hann er ekki soðinn í vatni) þá er gott (ekki nauðsyn) að leggja hann í ískalt vatn í ca. 2 tíma fyrir eldun, sérstaklega á þetta við um litla hryggi.

Bræðið sykur og edik saman í þykkum potti (athugið það kemur sterk lykt þegar edik og sykur er soðið saman). Þegur sykurbráðin fer að þykkjast dálítið er sinnepi, tómatsósu og rjóma bætt saman við. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan verður þykk. Haldið 1 dl af hjúpnum til haga fyrir sósuna. Hryggurinn er lagður í kalt vatn í 2-3 tíma (fyrir þá sem hafa áhyggur af því að hann verði of saltur). Ofn hitaður í 150 gráður (undir/yfirhita). Hryggurinn er þerraður vel og smurður með gljáanum. Því næst er hann settur á ofngrind neðarlega í ofninn og ofnskúffa botnfyllt með vatni sett undir ofngrindina. Það þarf að fylgjast með því að það sé alltaf vatn í ofnskúffunni á meðan eldun stendur og bæta við vatni við þörfum. Best er að nota kjöthitamæli sem stungið er inn í miðjan hrygginn. Hryggurinn er eldaður í ofninum við 150 gráður þar til hann nær 65 gráða kjarnhita, það er um það bil 45-60 mínútur per kíló, fer mikið eftir því hvort hryggurinn er þykkur eða mjór. Athugið að þegar um það bil klukkustund er eftir af eldunartímanum er tími til að taka soð úr ofnskúffunni og byrja á sósunni því hún þarf að sjóða niður í minnst 1 klukkustund (miðað við tvöfalda sósuuppskrift).

Ég geri alltaf nóg af gljáa og pensla 2-3svar sinnum á meðan hryggurinn er í ofninum, það er gott að setja vel af gljáa og leyfa honum að leka aðeins ofan í soðið í ofnskúffunni. Í lokin er gott að hækka ofninn í ca. 220 gráður í 10-15 mínútur. Hryggnum leyft að jafna sig í allt að 10 mínútur eftir að hann kemur úr ofninum, áður en hann er skorinn. Hann þolir líka vel að bíða lengur ef sósan er ekki tilbúin. Hamborgarhryggurinn er borinn fram með ananassneiðum.

Kóksósa (ég áætla þetta magn fyrir ca 5 einstaklinga eða með einum hrygg)

 • 1 dl af sykurhjúpnum
 • 2 dl af soðinu
 • 2 dl Coca Cola
 • 2 dl rauðvín
 • 3-5 dl rjómi
 • sósujafnari ef með þarf

Setjið soðið, kókið, rauðvín og sykurhjúpinn í pott.  Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið hana malla á meðal hita (þannig að hún „bubbli“) þar til hún hefur soðið niður um helming. Það er afar mikilvægt að sjóða niður sósuna, annars verður hún ekki góð! Ég lét hana malla á hitanum 5 af 9. Athugið að það tekur tíma að láta sósuna sjóða niður, ég tek því af soðinu og byrja á sósunni áður hamborgarhryggurinn er tilbúinn en ef vel á að vera þá tekur ca. klukkutíma að sjóða niður sósuna um helming (miðað við tvöfalda sósuuppskrift). Bætið þá rjóma saman við og látið malla áfram í 10-15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og bragðmikil. Ég nota vel af rjóma því grunnurinn af sósunni er svo bragðsterkur og góður að hún þolir vel slatta af rjóma. Gott er að nota sósujafnara ef sósan er of þunn.

19182Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með rauðvíninu Casillero Del Diablo Carmenere Reserva frá Chile. Það er rúbínrautt. Lýsing: Þurrt, meðalfylling, þétt tannín, fersk sýra. Skógarber, paprika, tóbak, krydd.

Ég mæli líka með jólaöli með þessum hátíðarmat! 🙂

IMG_6531

Bounty kúlur


IMG_6203

Inga móðursystir mín átti afmæli um helgina. Það eru bara sex ár á milli okkar og hún er því meira eins og systirin sem ég eignaðist aldrei! 🙂 Inga les sömu sænsku matarbloggin og ég og hún prófaði þessar Bounty kúlur af einu þeirra fyrir afmælið sitt. Þessar kúlur eru algjört nammi fyrir þá sem eru hrifnir af kókosi og ekki spillir fyrir að það er fremur einfalt að búa þær til. Inga frænka er því gestabloggari dagsins með himneskar Bounty kúlur!

Uppskrift (ca. 45 kúlur, fer eftir stærð)

Fylling:

 • 50 gr smjör
 • 1/2 dl síróp
 • 1/2 dl flórsykur
 • 2 dl rjómi
 • örlítið salt
 • 200 gr kókos

Súkkulaðihjúpur:

200 gr suðusúkkulaði. (hér er notaður „Ljós hjúpur“, hjúpdropar frá Nóa og Siríus)

Aðferð:

Öllu hráefni, fyrir utan kókosmjöl, er blandað saman í pott og látið malla í 5-8 mínútur eða þar til blandan fer að stífna dálítið. Þá er kókosmjöli bætt við. Blandan er svo látin kólna dálítið og því næst eru mótaðar litlar kúlur sem eru lagðar á bökunarpappír eða bretti. Kúlurnar eru að lokum settar í frysti í ca. 30 mínútur.

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kúlunum er svo dýft ofan í brædda súkkulaðið og þær lagðar á bökunarpappír þar til þær harðna. Best er að geyma Bounty kúlurnar í kæli.

IMG_6194

Jólaglögg og piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi


IMG_1494

Þið eruð kannski að velta vöngum yfir þessari samsetningu í fyrirsögninni og finnst hún fráleit. Sko, eitt af því allra besta sem ég veit eru mygluostar! Auðvitað er þetta nafn samt, „mygluostar“ alveg glatað og hljómar frekar ógirnilega. Uppáhaldsosturinn minn er Gullostur (það nafn hljómar hins vegar vel!) og ég held að ég borði næstum því einn á viku! Ætli það sé ekki meinhollt örugglega? Á seinni árum er ég meira að segja farin að kjósa góðan ostbita fram yfir súkkulaðibita, hversu fullorðins er það?! 😉 Miðað við þessa ostaást mína þá mætti halda að piparkökur með gráðosti væru mitt uppátæki en svo er alls ekki. Þessi samsetning er algeng og vinsæl í Svíþjóð. Þar fer maður ekki í jólaglögg án þess að fá þetta gúmmelaði með glögginni. Jólaglögg er líka afar vinsæll drykkur í Svíþjóð á aðventunni, ég hef ekki orðið eins mikið vör við það hér. Í Svíþjóð er hægt að kaupa allskonar tegundir af tilbúinni jólaglögg í Ríkinu. Hér þarf að hafa aðeins meira fyrir glögginni en það er alveg þess virði. Það er svo notalega jólalegt að sötra heita glögg með möndlum og rúsínum á köldu desemberkvöldi og gæða sér á piparkökum með góðum ostum. Þeim sem líkar ekki gráðostur geta farið í mildari samsetningu, t.d. notað brie eða Gullost. Ég mana ykkur til að prófa þessa dásemd, ég lofa því að þið lítið ekki piparkökur sömu augum eftir það! 🙂

IMG_1490

Jólaglögg:

 • 1 flaska rauðvín
 • 1 dl vodka
 • 10 kardimommu belgir
 • 1 -2 kanilstangir
 • ca 3 cm engifer skorið í bita
 • 8 negulnaglar
 • 4 appelsínusneiðar
 • 1½ dl sykur
 • möndlur & rúsínur

Öllu kryddi nema sykri blandað saman við vodka og látið standa yfir nótt við stofuhita. Þá er sykrinum blandað saman við vodkablönduna og hitað að suðu. Blandan má þó alls ekki sjóða. Því næst er kryddið sigtað frá og rauðvíni blandað saman við. Möndlur og rúsínur settar út í eftir smekk. Borið fram með gómsætum piparkökum með ostum.

gl_gg_989708c

Piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi

 • piparkökur
 • gráðostur, t.d. blár kastali (og/eða jólabrie eða Gullostur)
 • valhnetur
 • gott hunang

Valhnetur hakkaðar gróft og þær settar í skál. Hunangi hellt yfir þannig að það þeki valhneturnar vel en að það renni samt ekki út um allt þegar það er sett á ostinn. Osturinn skorinn í skífur og lagður á piparkökurnar, hunangs-valhneturnar settar yfir ostinn.

IMG_1496

Sörur


Sörur

Helginni höfum við eytt í jólaundirbúning. Í gær voru piparkökur skreyttar í skólanum hjá krökkunum og laufabrauð skorin út. Síðan skottuðumst við mæðgur (sú yngri, eldri dóttirinn er föst í próflestri) út í skúr og sóttum jóladótið og erum búnar að dunda okkur við að setja það upp. Eitt af uppáhalds jólaskrautinu okkar er litla jólatréið hér að neðan. Í rauninni er þetta dagatal, fyrir neðan tréið eru 24 litlar skúffur með jólaskrauti, eitt fyrir hvern dag. Í því er líka spiladós og þá snýst tréið í hringi. Krökkunum finnst þetta jólatré svo fallegt og ævintýralegt. Elfar kom heim frá Barcelona síðastliðna nótt og gerði í dag enn eina tilraunina við útiseríuna sem nú var búið var að gera við. Hann var búinn að koma henni vel fyrir í tréinu þegar það slökknaði á henni við litlar vinsældir. Það kallaði því á fjórðu ferðina í búðina (þetta var ný sería!) auk þess sem tveir dagar hafa farið í vaskinn við þetta seríustúss! Það er sannarlega mikið á sig lagt við jólaundirbúninginn! 🙂

Sörur

Á meðan Elfar minn eyddi deginum við seríubasl fór ég ég sörugerð. Þessar sörur eru eins og sörur eiga að vera að mínu mati! 🙂 Mér finnst sörur nefnilega svo ofsalega misjafnar, sumar sörur finnst mér alls ekki góðar. En þessar eru algjört nammi! Botninn er stökkur og loftkenndur (ekki flatur), kremið bragðgott með engu yfirgnæfandi kaffibragði og súkkulaðihjúpurinn þykkur og góður! Ég fer alltaf ákaflega vel út úr sörubakstrinum fyrir hver jól. Mamma nefnilega undirbýr botna og kremið en svo mætum við Inga frænka bara á staðinn og setjum saman sörurnar! Í dag gerðum við 350 gómsætar kökur. Best er að nota Dökkan hjúp, sem eru hjúpdropar frá Nóa og Siríus. Kökurnar fá þá svo fallegan glansandi hjúp.

Sörur

Uppskrift (ca. 60 kökur)

 • 3 eggjahvítur
 • 200 gr. flórsykur
 • 200 gr. fínakkaðar möndlur (heilar hýðislausar möndlur hakkaðar fínt í kvörn)

Eggjahvítur stífþeyttar. Flórsykurinn sigtaður yfir og hrært varlega saman við með sleikju ásamt möndlunum. Sett á plötu, klædda bökunarpappír, með tveimur teskeiðum og bakað við 180°C í ca. 12-13 mínútur. (Blástur 175°C í ca. 12 mín – ég nota ekki blástur, finnst þær molna meira við það).

Sörur

Sörukrem:

 • ¾ dl. sykur
 • ¾ dl vatn
 • 3 eggjarauður
 • 150 gr. smjör, mjúkt
 • 1 msk. kakó
 • 1 tsk. kaffiduft (instant kaffi)

Sykur og vatn sett í pott og soðið saman í síróp, það tekur u.þ.b. 8 -10 mín. Nauðsynlegt er að hafa góðan hita. Tilbúið þegar fer að freyða. Eggjarauðurnar eru þeyttar þar til þær eru kremgular og þykkar. Hellið sírópinu úr pottinum í mjórri bunu út í, þeytið á meðan þar til blandan er orðin létt og loftmikil. Látið kólna. Mjúka smjörinu þá bætt út í, þeytt á meðan. Að lokum er kakói og kaffidufti sigtað út í (instant kaffi er gróft, því er gott að mylja það í gegnum sigtið með skeið, einnig er hægt að mylja það í morteli áður en það er sigtað). Kremið kælt í ísskáp.

Súkkulaðihjúpur N__a_D__kkur_Hj__4ed6b2411dd66

 • ca 1½ poki Dökkur hjúpur (hjúpdropar) frá Nóa og Siríus

Brætt í örbylgjuofni.

Sörur

Kreminu er smurt á botninn á kökunum, frekar þykkt lag. Þá eru kökurnar kældar með kreminu á í smá stund. Því næst er kremhlutanum dýft ofan í brædda súkkulaðihjúpinn og hjúpnum leyft að stífna. Það þarf kannski að hita súkkulaðihjúpinn aftur í örbylgjuofninum á meðan dýfingunum stendur ef hann verður of stífur. Þegar hjúpurinn hefur stífnað á kökunum er best að raða þeim í box með góðu loki, með t.d. bökunarpappír á milli. Það þarf að geyma sörurnar í frysti og bera þær fram beint úr frystinum, þær þiðna mjög fljótt.

SörurSörur