Inga móðursystir mín átti afmæli um helgina. Það eru bara sex ár á milli okkar og hún er því meira eins og systirin sem ég eignaðist aldrei! 🙂 Inga les sömu sænsku matarbloggin og ég og hún prófaði þessar Bounty kúlur af einu þeirra fyrir afmælið sitt. Þessar kúlur eru algjört nammi fyrir þá sem eru hrifnir af kókosi og ekki spillir fyrir að það er fremur einfalt að búa þær til. Inga frænka er því gestabloggari dagsins með himneskar Bounty kúlur!
Uppskrift (ca. 45 kúlur, fer eftir stærð)
Fylling:
- 50 gr smjör
- 1/2 dl síróp
- 1/2 dl flórsykur
- 2 dl rjómi
- örlítið salt
- 200 gr kókos
Súkkulaðihjúpur:
200 gr suðusúkkulaði. (hér er notaður „Ljós hjúpur“, hjúpdropar frá Nóa og Siríus)
Aðferð:
Öllu hráefni, fyrir utan kókosmjöl, er blandað saman í pott og látið malla í 5-8 mínútur eða þar til blandan fer að stífna dálítið. Þá er kókosmjöli bætt við. Blandan er svo látin kólna dálítið og því næst eru mótaðar litlar kúlur sem eru lagðar á bökunarpappír eða bretti. Kúlurnar eru að lokum settar í frysti í ca. 30 mínútur.
Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kúlunum er svo dýft ofan í brædda súkkulaðið og þær lagðar á bökunarpappír þar til þær harðna. Best er að geyma Bounty kúlurnar í kæli.
Hæ Dröfn mín, mikið rosalega er það flott og skemmtilegt bloggið þitt, prófaði um daginn spagettípizzu með pepperoni og fannst það alveg meiriháttar gott, og ekki þótti manninum og börnunum það síðra. Þessi síða er komin í favorits hjá mér og alveg víst að miklu fleiri uppskriftir frá þér verða prófaðar í nánustu framtíð. Alveg sérlega fallegt líka allt í kringum þig, bæði heimilið þitt og fjölskylda. Hlakka til að fylgjast með ykkur áfram 🙂 Knús xxxx
Takk elsku Helena mín fyrir fallega kveðju, mikið gleður hún mig! 🙂 En hvað það er gaman að þið getið notað uppskriftirnar og líkar vel. Bestu kveðjur til ykkar allra (í nýja fína húsinu sem ég sá myndir af um daginn á FB! 🙂 ) knús til baka!
Ætla að gera þessar fyrir jólin,
Gaman að heyra Jóhanna! Ég mæli með þessum fyrir alla kókosaðdáendur! 🙂
Ég hef gert þessar kúlur og þær eru „to die for“… Líka geggjaðar með hvítu súkkulaði og smá kókos á toppinn, þá líta þær út eins og snjóboltar og eru einstaklega jólalegar!
Er afar þakklát fyrir bloggið þitt og allar fallegu matar-myndirnar, er komin með aðeins of langann lista af mat sem ég verð að prufa 😉
hæ hæ og takk fyrir skemmtilegt, fallegt og óhemju „girnilegt“ blogg
Mér finnst þessar bounty kúlur alveg svakalega girnilegar og ætla að búa þær til á eftir . En – er sama hvort maður notar matreiðslurjóma eða venjulegan rjóma í þær ?
kv Birgitta
Sæl Birgitta og takk fyrir hrósið, það gleður! 🙂 Ég myndi ekki nota matreiðslurjóma, mæli með hefðbundnum rjóma fyrir Bountykúlurnar.
Mà geyma þær í kæli eða í frysti þar til daginn eftir àn þess að vera búin að setja á þær hjúpið?
Ég hef ekki prófað það sjálf en ég sé því ekkert til fyrirstöðu að geyma kúlurnar í sólarhring í frysti áður en súkkulaðið er sett á þær.
Bakvísun: Smákökur með súkkulaðibitum | Eldhússögur
Girinileg uppskrift! Hvað heldur þú að kúlurnar hafil langt geymsluþol í kæli? Væri kanski betra að frysta þær ef maður ætlar að gera þær núna og geyma til jólanna?
Ég veit ekki alveg hvað það er langur geymslutími á kúlunum. Ég er samt nokkuð viss um að þær geymist vel til jóla í frysti.
Prófaði þessar kúlir og þær eru svo góðar að þær kláruðust fljótlega og er að fara að gera stærri uppskrist næst 🙂
Bakvísun: Himneskar BountykA?lur | Hun.is