Bounty kúlur


IMG_6203

Inga móðursystir mín átti afmæli um helgina. Það eru bara sex ár á milli okkar og hún er því meira eins og systirin sem ég eignaðist aldrei! 🙂 Inga les sömu sænsku matarbloggin og ég og hún prófaði þessar Bounty kúlur af einu þeirra fyrir afmælið sitt. Þessar kúlur eru algjört nammi fyrir þá sem eru hrifnir af kókosi og ekki spillir fyrir að það er fremur einfalt að búa þær til. Inga frænka er því gestabloggari dagsins með himneskar Bounty kúlur!

Uppskrift (ca. 45 kúlur, fer eftir stærð)

Fylling:

  • 50 gr smjör
  • 1/2 dl síróp
  • 1/2 dl flórsykur
  • 2 dl rjómi
  • örlítið salt
  • 200 gr kókos

Súkkulaðihjúpur:

200 gr suðusúkkulaði. (hér er notaður „Ljós hjúpur“, hjúpdropar frá Nóa og Siríus)

Aðferð:

Öllu hráefni, fyrir utan kókosmjöl, er blandað saman í pott og látið malla í 5-8 mínútur eða þar til blandan fer að stífna dálítið. Þá er kókosmjöli bætt við. Blandan er svo látin kólna dálítið og því næst eru mótaðar litlar kúlur sem eru lagðar á bökunarpappír eða bretti. Kúlurnar eru að lokum settar í frysti í ca. 30 mínútur.

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kúlunum er svo dýft ofan í brædda súkkulaðið og þær lagðar á bökunarpappír þar til þær harðna. Best er að geyma Bounty kúlurnar í kæli.

IMG_6194