Mér finnst sörur mjög misgóðar. En þessar eru algjört nammi! Botninn er stökkur og loftkenndur, kremið bragðgott með engu yfirgnæfandi kaffibragði og súkkulaðihjúpurinn þykkur og góður! Ég fer alltaf ákaflega vel út úr sörubakstrinum fyrir hver jól. Mamma nefnilega undirbýr botna og kremið en svo mætum við Inga frænka bara á staðinn og setjum saman sörurnar! Í dag gerðum við 350 gómsætar kökur.
Uppskrift (ca. 60 kökur)
- 3 eggjahvítur
- 200 gr. flórsykur
- 200 gr. fínakkaðar möndlur (heilar hýðislausar möndlur hakkaðar fínt í kvörn)
Eggjahvítur stífþeyttar. Flórsykurinn sigtaður yfir og hrært varlega saman við með sleikju ásamt möndlunum. Sett á plötu, klædda bökunarpappír, með tveimur teskeiðum og bakað við 180°C í ca. 15 mínútur.
Sörukrem:
- ¾ dl. sykur
- ¾ dl vatn
- 3 eggjarauður
- 150 gr. smjör, mjúkt
- 1 msk. kakó
- 1 tsk. kaffiduft (instant kaffi)
Sykur og vatn sett í pott og soðið saman í síróp, það tekur u.þ.b. 8 -10 mín. Nauðsynlegt er að hafa góðan hita. Tilbúið þegar fer að freyða. Eggjarauðurnar eru þeyttar þar til þær eru kremgular og þykkar. Hellið sírópinu úr pottinum í mjórri bunu út í, þeytið á meðan þar til blandan er orðin létt og loftmikil. Látið kólna. Mjúka smjörinu þá bætt út í, þeytt á meðan. Að lokum er kakói og kaffidufti sigtað út í (instant kaffi er gróft, því er gott að mylja það í gegnum sigtið með skeið, einnig er hægt að mylja það í morteli áður en það er sigtað). Kremið kælt í ísskáp.
Súkkulaðihjúpur
- 1 ½ – 2 pokar suðususúkkulaði (mér finnst best, og gefa fallegasta glansinn, að nota súkkulaðidropa frá Freyju)
Brætt í örbylgjuofni.
Kreminu er smurt á botninn á kökunum, frekar þykkt lag. Þá eru kökurnar kældar með kreminu á í smá stund. Því næst er kremhlutanum dýft ofan í brædda súkkulaðihjúpinn og hjúpnum leyft að stífna. Það þarf kannski að hita súkkulaðihjúpinn aftur í örbylgjuofninum á meðan dýfingunum stendur ef hann verður of stífur. Þegar hjúpurinn hefur stífnað á kökunum er best að raða þeim í box með góðu loki, með t.d. bökunarpappír á milli. Það þarf að geyma sörurnar í frysti og bera þær fram beint úr frystinum, þær þiðna mjög fljótt.