Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði


Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaðiEf þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂

IMG_6048

 

Uppskrift: 

  • 3 stórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 5 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)

Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við.  Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið.  Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.

IMG_6038IMG_6039IMG_6046

 

Kanilkaka


IMG_1488Við fjölskyldan fórum aftur í kvöldsund núna í vikunni, það er svo notarlegt að fara í heitan pott í myrkri og kulda! Þá borðum við klukkan sex og drífum okkur svo í Árbæjarlaugina. Þar leika krakkarnir sér og við Elfar náum að spjalla í rólegheitunum í nuddpottinum. Æðislegt, mæli með því! Fyrr þann sama dag bakaði ég köku sem ég ætla að gefa uppskriftina af. Þannig var nefnilega mál með vexti að Jóhanna Inga kom heim úr skólanum þann daginn og var svo ægilega svöng. Það kom svo í ljós að hún var ekki venjulega svöng heldur kökusvöng! 😉 Ég hafði beðið eftir tækifæri til þess að baka köku sem ég fann uppskrift af fyrir nokkru, kanilköku með haframjöli. Ég er mjög hrifin af öllu bakkelsi með kanil og var nokkuð viss um að mér þætti þessi kaka góð. Við mægður skelltum því í eina kanilköku og hún var rosalega einföld og góð. Hættulega góð á meðan hún er enn heit, nýkomin út úr ofninum!

Uppskrift

  • 4 dl sykur
  • 150 g smjör, brætt
  • 2 stór egg eða 3 lítil
  • 3 dl mjólk
  • 7 dl hveiti
  • 4 tsk vanillusykur
  • 3 tsk lyftiduft

Ofn hitaður í 225 gráður (undir og yfirhiti). Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er mjólkinni bætt við og að lokum þurrefnunum. Deiginu helt í smurt kökuform (ég notaði form sem er 26 cm x 39 cm).

Stökkur kanil/hafratoppur

  • 200 gr smjör
  • 2 dl. sykur
  • 4 tsk kanil
  • 3 dl haframjöl

Smjörið brætt í potti. Potturinn tekinn af hellunni og restinni af hráefnunum bætt út í. Þá er blandað hituð og blandað saman. Blöndunni er síðan dreift yfir kökuna. Bökuð í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur. Látið ykkur ekki bregða þó að yfirborðið á kökunni verði hæðótt, þannig á það að vera!

IMG_1484

Kryddkaka


Þessi uppskrift af kryddköku er komin frá ömmu minni, hún kallar kökuna reyndar kryddjólaköku. Ömmu er nú farið að bregða fyrir oft á blogginu mínu sem er eiginlega skrítið í ljósi þess að hún heldur því fram að sér þyki agalega leiðinlegt að elda mat og baka! En það hefur þó ekki komið í veg fyrir að hún eldi mat upp á hvern einasta dag og baki kökur auk þess sem hún vann meira að segja í eldhúsi í mörg ár. Amma segist samt ekkert skilja í því að ég hafi gaman að því að laga mat, sá áhugi sé allavega ekki frá sér kominn! 🙂 En amma er með á hreinu gamlar og góðar íslenskar uppskriftir eins og þessa kryddköku. Þetta er feikigóð kaka sem er afar einfalt að búa til. Amma setur yfirleitt í hana rúsínur en ég sleppi þeim, krakkarnir vilja þær ekki og mér finnst kakan líka betri án rúsína. Þessi uppskrift dugar í tvö jólakökuform sem eru  25 x 11 cm.

Uppskrift:

  • 500 gr hveiti
  • 150 gr púðursykur
  • 150 gr sykur
  • 3 egg
  • 250 gr smjör, mjúkt (við stofuhita)
  • 2 tsk matarsódi
  • 2 tsk kanill
  • 2 tsk negull
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 dl mjólk eða súrmjólk

Aðferð:

Ofninn stilltur 180 gráður. Allt hráefnið sett saman í skál og hrært saman. Deiginu skipt í tvö smurð jólakökuform,  25 x 11 cm, og þau bökuð við 180 gráður í ca. 45 mínútur.