Banana-súkkulaðikaka


Ég fékk um daginn þessa rausnarlegu gjafakörfu frá Nóa og Siríus í uppskriftasamkeppni sem var á þeirra snærum. Í henni leyndist allskonar góðgæti sem hefur satt best að segja gengið ágætlega á! Í gær átti ég á þrjá banana sem voru orðnir ansi brúnir og ég ákvað að ég yrði að nýta þá í eitthvað gott. Ég gramsaði síðan ofan í gjafakörfunni, sem enn hefur að geyma ýmisskonar gúmmelaði og fann þar poka af suðusúkkulaðidropum frá Nóa og Siríus. Afraksturinn af samrunanum sem átti sér stað í framhaldinu var snilldin ein! Banana-súkkulaðikaka sem er afskaplega auðveld að baka og dásamlega ljúffeng.  Kakan var enn volg þegar ég bar hana fram og hún var auðvitað afar ljúffeng þannig. En ég náði að smakka síðasta bitann þegar hún var orðin köld og þá var hún eiginlega betri! Með dálitlum þeyttum rjóma þá er orðin til afar gómsætur eftirréttur.  Þið bara verðið að prófa þessa! Næst ætla ég að blanda bæði hvítu og dökku súkkulaði í kökuna.

Annars drógum við krakkarnir fram í dag ,,jól í skókassa“ kassann okkar. Ég vona að flestir þekki til þessa verkefnis, en KFUM og KFUK standa fyrir því frábæra framtaki árlega. Verkefnið snýst um að safna jólagjöfum í skókassa fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu. Ég safna hlutum (og stórum skókössum!) allt árið fyrir þetta verkefni og í dag drógum við krakkarnir fram allt góssið til að skoða hvað vantaði upp á. Lokaskiladagur er 10. nóvember og ég vona innilega að sem flestir taki þátt í þessu þarfa og þakkláta verkefni!

Uppskrift:

 • 75 gr smjör
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 msk mjólk
 • 1/4 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 stór egg
 • 2-3 þroskaðir bananar (ég notaði 3 litla)
 • 150 gr suðusúkkulaðidropar eða suðusúkkulaði, saxað smátt
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi

Aðferð

 1. Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin aðskilin og eggjahvítan þeytt þar til hún verður stíf.
 2. Smjör brætt í potti við vægan hita, kælt dálítið.
 3. Sykur, mjólk, salt og vanillusykur sett í skál ásamt brædda smjörinu og hrært.
 4. Eggjarauðunum bætt út í.
 5. Bananar stappaðir og þeim hrært út í deigið ásamt súkkulaðinu.
 6. Hveiti og matarsóda blandað út í og hrært
 7. Að síðustu er eggjahvítunum bætt varlega út í með sleikju.
 8. Deiginu hellt í smurt tertuform (smelluform eða sílíkonform, ca. 24 cm) og bakað í ofni við 175 gráður í 30-40 mínútur. Best er ef kakan er enn dálítið blaut í miðjunni þegar hún er tekin út úr ofninum. Kakan er dásamlega góð borin fram með þeyttum rjóma eða ís og hún er ekki síðri þegar hún er orðin köld, jafnvel betri!