Banana-súkkulaðikaka


Ég fékk um daginn þessa rausnarlegu gjafakörfu frá Nóa og Siríus í uppskriftasamkeppni sem var á þeirra snærum. Í henni leyndist allskonar góðgæti sem hefur satt best að segja gengið ágætlega á! Í gær átti ég á þrjá banana sem voru orðnir ansi brúnir og ég ákvað að ég yrði að nýta þá í eitthvað gott. Ég gramsaði síðan ofan í gjafakörfunni, sem enn hefur að geyma ýmisskonar gúmmelaði og fann þar poka af suðusúkkulaðidropum frá Nóa og Siríus. Afraksturinn af samrunanum sem átti sér stað í framhaldinu var snilldin ein! Banana-súkkulaðikaka sem er afskaplega auðveld að baka og dásamlega ljúffeng.  Kakan var enn volg þegar ég bar hana fram og hún var auðvitað afar ljúffeng þannig. En ég náði að smakka síðasta bitann þegar hún var orðin köld og þá var hún eiginlega betri! Með dálitlum þeyttum rjóma þá er orðin til afar gómsætur eftirréttur.  Þið bara verðið að prófa þessa! Næst ætla ég að blanda bæði hvítu og dökku súkkulaði í kökuna.

Annars drógum við krakkarnir fram í dag ,,jól í skókassa“ kassann okkar. Ég vona að flestir þekki til þessa verkefnis, en KFUM og KFUK standa fyrir því frábæra framtaki árlega. Verkefnið snýst um að safna jólagjöfum í skókassa fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu. Ég safna hlutum (og stórum skókössum!) allt árið fyrir þetta verkefni og í dag drógum við krakkarnir fram allt góssið til að skoða hvað vantaði upp á. Lokaskiladagur er 10. nóvember og ég vona innilega að sem flestir taki þátt í þessu þarfa og þakkláta verkefni!

Uppskrift:

 • 75 gr smjör
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 msk mjólk
 • 1/4 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 stór egg
 • 2-3 þroskaðir bananar (ég notaði 3 litla)
 • 150 gr suðusúkkulaðidropar eða suðusúkkulaði, saxað smátt
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi

Aðferð

 1. Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin aðskilin og eggjahvítan þeytt þar til hún verður stíf.
 2. Smjör brætt í potti við vægan hita, kælt dálítið.
 3. Sykur, mjólk, salt og vanillusykur sett í skál ásamt brædda smjörinu og hrært.
 4. Eggjarauðunum bætt út í.
 5. Bananar stappaðir og þeim hrært út í deigið ásamt súkkulaðinu.
 6. Hveiti og matarsóda blandað út í og hrært
 7. Að síðustu er eggjahvítunum bætt varlega út í með sleikju.
 8. Deiginu hellt í smurt tertuform (smelluform eða sílíkonform, ca. 24 cm) og bakað í ofni við 175 gráður í 30-40 mínútur. Best er ef kakan er enn dálítið blaut í miðjunni þegar hún er tekin út úr ofninum. Kakan er dásamlega góð borin fram með þeyttum rjóma eða ís og hún er ekki síðri þegar hún er orðin köld, jafnvel betri!

39 hugrenningar um “Banana-súkkulaðikaka

 1. Ég var að enda við að baka eina svona og ég lét hana í c. 25cm hringlaga lausbotna form og það er greinilega of lítið, því að það flæðir uppfyrir hjá mér.

  • Ææ! Ég hefði átt að vera nákvæmari í lýsingunni en það þarf að nota svona hátt lausbotna kökuform. Annað hvort smelluform eða sílíkon, ekki þessi lágu lausbotna form. Vonandi bjargast kakan samt hjá þér! 🙂

 2. Bakvísun: Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum | Eldhússögur

 3. Ætla að prófa þessa um helgina ásamt kjúklingaleggjonum.Fæ börn og barnabörn í mat..Hlýt að slá i gegn:) Verðum 9 í mat ? Hvort það sé nóg að tvöfslda…

  • Þú slærð örugglega í gegn! 🙂 Ef þú ert að meina kjúklingaréttinn þá ætti að vera nóg að tvöfalda. Fer svolítið eftir því hverjir borða, gott að reikna með 2 leggjum á barn og 3 á fullorðinn. Ein kaka gefur hins vegar 10 vænar sneiðar, ekki vitlaust að gera tvær svoleiðis … og eiga smá afgang! 🙂

   • Eitt enn ,þegar þú talar um hita í bakstri ertu að meina með eða án blásturs
    Kv Brynja

   • Ég gef alltaf upp hitastig miðað við undir- og yfirhita. Tek sérstaklega fram ef ég er að gefa upp blásturshita.

 4. Var að prófa þessa og omm nomm nomm bara…. prófaði að blanda saman venjulegu súkkulaði og smá af orangesúkkulaði….. eitt orð Yummie 😉
  Á pottþétt eftir að gera þessa aftur 😉

  • Frábært að heyra Alda! Sniðugt hjá þér að bæta við orangesúkkulaði. Ég væri sko til í að baka þessa í hverri viku! 😉

 5. Ég bakaði þessa í gær og fór með hana í babyshower. Sló í gegn 🙂 Ég notaði mjólkursúkkulaði og það kom ofsalega vel út líka. Takk fyrir uppskriftina.

 6. Prófaði þessa í gær og hún olli sko ekki vonbrigðum, sló algjörlega í gegn á þessu heimili. Æðislegt að skoða þessa síðu hjá þér 🙂

 7. Ég er búin að gera þessa nokkuð oft og hún er bara er æðisleg 🙂 Ég bakaði hana reyndar í 26cm formi og það passaði mjög vel.

 8. Hvað get ég sagt, það er sama hvað ég elda eða baka af þessari síðu það rennur svo ljúft niður í alla fjölskylduna. Þú ert snillingur;)
  Er áskrifandi af Gestgjafanum sem er yndislegt blað og hef alltaf beðið spennt eftir að það komi inn um lúguna, og ligg yfir því.
  En núna er ég bara hér að þræða allir þínar yndislegu uppskriftir og allir í fjölskyldunni bíða spenntir hvað kemur næst , sem er svo gaman og fæ ekki nóg 😉
  Svo með þessa köku þá er hún auðvitað súper góð og strákarnir mínir voru með fullan munninn að biðja strax um aðra sneið 🙂

  • Vá hvað þetta er skemmtilegt að lesa Halla Björk! 🙂 Kærar þakkir fyrir að vera alltaf svona dugleg að gefa mér „feedback“, það er ótrúlega dýrmætt fyrir mig! 🙂

 9. Þessi var bökuð í gær og slær alltaf í gegn. Gaman að hafa bæði banana-súkkulaðiköku og súkkulaði-bananaköku hér á blogginu, legg til að þessi verði skýrð í höfuðið á mér 😉

 10. Sæl. Hefur þú prófað að baka banana-súkkulaðikökuna og frysta hana? Eða nota frosna banana í hana? Ég á nefnilega banana sem þarf að fara að nota en afmælið ekki fyrr en eftir 4 daga 🙂
  Bestu kveðjur fyrir góða síðu, Oddný

  • Sæl Oddný. Það er vel hægt að frysta bananakökuna. Eins getur þú bara skellt banönunum í frysti og tekið þá svo nokkrum klukkutímum áður en þú notar þá í köku (eða boost t.d.) ef þeir eru í hýðinu. Stundum sneiði ég þá niður og frysti þá þannig, þá þiðna þeir fyrr.

 11. Bakvísun: Banana-sA?kkulaA�ikaka | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.