Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti


Þessa dagana er fámennt á heimilinu. Ósk var að fara til Madrid með Versló bekknum sínum í tengslum við spænskuáfanga. Elfar er í Stokkhólmi vegna rannsóknarverkefnis og verður þar í heila viku. Alexander er í prófum í læknisfræðinni og sést því lítið heima. Það eru því bara ég og yngri krakkarnir í kvöldmat. Þegar við Jóhanna Inga vorum úti í búð spurði ég hvað hana langaði að borða í kvöldmat. Það stóð ekki á svari, vöfflur! Það er reyndar ekki eins út í hött og það hljómar! Við erum með tvöfaldan ríkisborgararétt, erum Svíar líka, og þeir borða bæði vöfflur og pönnukökur í kvöldmat og það með rjóma og sultu meira að segja! Það er löng hefð í Svíþjóð að borða baunasúpu á fimmtudögum. Hefðin á uppruna sinn frá miðöldum. Þá var baunasúpan soðin með vænum kjötbita og var snædd á fimmtudögum en á föstudeginum var fastað. Pönnukökurnar voru bornar á borð sem eftirréttur á eftir baunasúpunni til þess að veita góða magafylli fyrir föstuna daginn eftir. Þessi hefð er enn ótrúlega rík í Svíþjóð. Í til dæmis flestum mötuneytum,  á elliheimilum, í mörgum skólum og á fjölmörgum veitingastöðum er baunasúpa í matinn á fimmtudögum auk pönnukaka og stundum vaffla í eftirrétt. Ég mundi allt í einu eftir því að ég skoðaði Gestgjafann á biðstofu um daginn og sá svo girnilega uppskrift af ósætum belgískum vöfflum með bæði parmesan osti og rjómaosti. Ég hafði tekið mynd á símann minn af uppskriftinni og gat því verslað það sem þurfti í uppskriftina. Kvöldmaturinn hjá okkur var því hálfgerður morgunmatur og/eða ný útgáfa af sænskum fimmtudagseftirrétti: belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti með spældu eggi og beikoni! Ég notaði belgíska vöfflujárnið mitt en það er líka hægt að nota venjulegt vöfflujárn. Það er svolítil kúnst að gera vöfflur stökkar. En ég er búin að uppgötva frábært ráð þegar kemur að belgískum vöfflum. Það er að rista þær í brauðrist eftir bökun! Þær verða mjög stökkar að utan, mjúkar að innan og rjúkandi heitar. Svo er gott að nota íslenskt smjör ofan á þær sjóðandi heitar, þá bráðnar það og gerir vöfflurnar ómótstæðilegar! Ég geri því alltaf svolítið af aukavöfflum sem ég geymi og hægt er að rista daginn eftir.

Uppskrift:

  • 250 gr hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti eða grófu spelti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 40 gr parmesan ostur (rifinn)
  • 3 egg
  • 4 dl mjólk
  • 70 gr rjómaostur
  • 70 gr smjör, brætt
  • salt og pipar

Hitið vöfflujárnið og blandið saman hveiti, lyftidufti og parmesan osti saman í skál. Bætið eggjum og 2 dl af mjólkinni út í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Hrærið rjómaost saman við og síðan smjör og afganginn af mjólkinni. Bragðbætið með salti og pipar. Bakið vöfflurnar þar til þær hafa fengið góðan lit. Afar gott er að setja vöfflurnar í brauðrist og smyrja þær með smjöri.

Um daginn efndi Nói og Siríus til uppskriftasamkeppni. Þeir leituðu að uppskrift til að setja í uppskriftabæklinginn sinn árið 2012.  Ég sendi inn uppskrift af uppáhaldskökunni minni, kirsuberjatertunni góðu. Ég vann ekki en fékk aukaverðlaun fyrir ,,girnilegustu uppskriftina“! Verðlaunin voru karfa með bökunarvörum. Þegar ég sótti körfuna kom í ljós að þetta var aldeilis rausnarleg karfa, hún var troðfull af Nóa og Siríus vörum og hafði auk þess að geyma bæði stóran konfektkassa og uppskriftabókina þeirra, Súkkulaðiást! Vel gert Nói! 🙂

Belgískar vöfflur


Ég hef lengi óskað mér belgísks vöfflujárns. Í byrjun sumars sá ég þannig vöfflujárn auglýst á netinu, lítið sem ekkert notað og falt fyrir fáeina ríkisdali! Ég sló auðvitað til og fjárfesti í því. Ég er búin að skoða mikið uppskriftir og fróðleik um belgískar vöfflur. Helsti munurinn er að þær eru með geri, ekki með lyftidufti eins og venjulegar vöfflur, að auki eru þær mun þykkari en með djúpum dældum. Í Belgíu eru þær seldar hjá götusölum með til dæmis súkkulaði, rjóma, berjum, sykri og öðru gúmmelaði. Ég fann uppskrift af belgískum vöfflum frá Nönnu Rögnvaldar. Eftir að hafa borið hana saman við ótal erlendar uppskriftir sá ég að hennar uppskrift var mjög sambærileg flestum uppskriftunum en með kannski meiri vökva en margar þeirra. Það kom ekki að sök, mér finnst þessi hlutföll koma vel út og held mig við hennar uppskrift.

Með vöfflunum er hægt að bjóða upp á allskonar fyllingar. Hér var ég með vanilluís og tvennskonar heitar sósur, karamellusósu og súkkulaðisósu. Gestirnir voru beðnir um að taka út sósurnar og meta hvor þeirra væri betri með belgísku vöfflunum. Útkoman varð sú að best væri að blanda þeim saman!

Uppskrift:

  • 1 msk þurrger
  • 700 ml mjólk (eða 350 ml mjólk, 350 ml súrmjólk)
  • 3 stór egg, aðskilin
  • 150 g smjör, bráðið og látið kólna dálítið
  • 6 msk sykur (má vera minna)
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur
  • um 500 g hveiti
  • 3 eggjahvítur
  • olía til að pensla vöfflujárnið

Hitaðu 100 ml af mjólk í sem næst 40°C, leystu gerið upp í blöndunni (e.t.v. með 1 tsk af sykrinum) og láttu standa þar til freyðir, eða í um 10 mínútur. Hitaðu afganginn af vökvanum í um 40°C, helltu um einum bolla í stóra skál og hrærðu eggjarauðum, smjöri, sykri, salti og vanillusykri saman við, ásamt gerblöndunni. Hrærðu afganginum smátt og smátt saman við til skiptis við hveitið, þar til komin er fremur þykk vöfflusoppa (ekki nota allt hveitið ef hún virðist ætla að verða of þykk, bættu við hveiti ef hún er of þunn). Þeyttu eggjahvíturnar þar til þær eru farnar að stífna og blandaðu þeim þá saman við með sleikju. Láttu soppuna lyfta sér á hlýjum stað í um 1 klst (enn betra er þó að láta hana lyfta sér í ísskáp yfir nótt, en þá er best að sleppa því að hita meirihluta vökvans).

Hitaðu vöfflujárnið og penslaðu það með olíu. Bakaðu vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Berðu þær fram strax eða haltu þeim heitum í volgum ofni. Einnig má frysta þær og hita svo í ofni.

(Það má líka nota eggin heil og sleppa því að þeyta hvíturnar en þær verða betri svona.)

Með vöfflunum bar ég fram vanilluís og heita súkkulaðisósu (suðusúkkulaði og smá rjómi hitað yfir vatnsbaði) og heita karamellusósu:

  • 100 g smjör
  • 100 g púðursykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl rjómi

Sjóðið saman í 5 mínútur og hrært stöðugt á meðan. Sósan er borin fram heit.

Það er líka gott að bera fram með vöfflunum jarðaber, hindber, þeyttan rjóma, ferska ávexti, hlynsíróp og blanda þessu saman eftir því sem hugurinn girnist, svo ekki sé nú minnst á Nutella, banana og þeyttan rjóma!

Uppfært: ég mæli með því að baka stóra uppskrift af þessum vöfflum til að eiga afgang daginn eftir. Það er nefnilega hrikalega gott að rista þær í brauðrist og smyrja með íslensku smjöri, namminamm!