Bakaðar vöfflur


Bakaðar vöfflur

Við hjónin vorum að koma ofan úr Hvalfirði þar sem við eyddum ljúfum tíma á hótel Glym. Hótel Glymur er mjög hlýlegt og notalegt hótel. Útsýnið frá hótelinu er óborganlegt, við nutum þess yfir góðu vínglasi áður en við snæddum góða þriggja rétta máltíð á hótelinu.

Seinna um kvöldið fórum við í heita pottinn undir ævintýralega stjörnubjörtum himni. Morgunverðarhlaðborðið var afskaplega ljúffengt. Ef á slíku borði eru egg í allskonar útgáfum, ostar, reyktur lax og ávextir þá er ég glöð og Hótel Glymur stóð undir þeim væntingum.

image

image

Instagram áhangendur Eldhússagna gátu séð myndir frá þessari ferð. Mér finnst þetta Instagram svo ægilega skemmtilegt! Það er nú samt týpískt að loksins þegar ég kemst á Instagram þá eru allir að færa sig yfir á Cinemagram! 🙂 Aldrei að vita nema að Eldhússögur prófi sig áfram þar líka!

Það áttu sér stað tilraunir í eldhúsinu í Kleifarselinu í gær. Ég eignaðist stórsniðug silikon form úr Kokku sem notuð eru til að baka vöfflur í ofni. Ég var ægilega spennt að prófa nýju formin mín og stóðst ekki mátið að búa til vöfflur áður en við hjónin fórum í Hvalfjörðin. Börnin og vinir þeirra sem voru í heimsókn voru ekkert ósátt við þessar tilraunir! Einn af stóru kostunum við þessi form er að allar vöfflurnar verða tilbúnar á sama tíma.

vöfflur

Ég notaði hér um bil sömu uppskrift og ég nota fyrir venjulegar vöfflur en notaði meira smjör. Vöfflurnar urðu rosalega góðar og í raun ekkert líkar þeim sem bakaðar eru í vöfflujárni. Bragðið var það sama en áferðin allt önnur. Þær eru töluvert þykkari og minna á belgískar vöflur. Með því að baka vöfflurnar í þessum formum verða þær stökkar að utan og mjúkar og djúsí að innan. Vöfflurnar slógu algjörlega í gegn hjá öllum börnunum fimm sem sögðu öll sem eitt að þessar vöfflur væru mikið betri en hefðbundnar vöfflur. Ég verð að vera sammála þeim, þetta voru dásamlega góðar vöfflur og afskaplega auðvelt að baka þær. Ég er strax farin að upphugsa fleiri leiðir til þess að nota þessi form. Spenntust er ég fyrir því að prófa að baka brownies í formunum. Það yrði örugglega dúndur eftirréttur sem væri gaman að skreyta og bera fallega fram. Einnig væri sniðugt að nota gerdeig eins og notað er í belgískar vöfflur og gera ósætar vöfflur með kannski beikoni, ostum eða einhverju slíku. Möguleikarnir eru býsna margir!

IMG_9265

Hér er önnur hliðin bökuð, svo er vöfflunum hvolft á bökunarplötu og þær bakaðar í nokkrar mínútur í viðbót.

IMG_9267

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 100 g smjör
  • 400 ml mjólk
  • 250 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk sykur

Ofn hitaður í 220 gráður. Smjörið brætt og eggin pískuð létt saman, þá er smjörinu bætt út í eggin. Því næst er mjólkinni bætt út í og hún pískuð saman við eggin og smjörið. Að lokum er þurrefnunum bætt út og og degið hrært saman með písk þar til það er slétt og laust við kekki. Deginu er hellt í formin og bakað í ofni í ca. 8-9 mínútur. Þá eru formin tekin út og vöfflunum hvolft á ofnplötu og þær bakaðar í ca. 5 mínútur til viðbótar (samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum). Ég reyndar bakaði þær í ca. 8 mínútur til þess að fá meiri lit á vöfflurnar. Við bárum fram vöfflurnar með rjóma og sultu annars vegar …

IMG_9277

og Nutella og jarðaberjum hinsvegar …

Bakaðar vöfflur

Vöfflur


Ég nota vöfflu uppskrift frá mömmu og ömmu (hver gerir það ekki!) en hef bætt hana að tvennu leiti. Ég skil að eggin og þeyti eggjahvíturnar sér áður en ég bæti þeim út í deigið. Mér finnst vöfflurnar verða meira ,,fluffy“ þannig. Svo nota ég súrmjólk á móti mjólkinni í stað þess að nota bara mjólk, það gerir vöfflurnar afar bragðgóðar. Uppskriftin hér að neðan er ekkert sérlega stór, yfirleitt tvöfalda ég hana eða geri allavega eina og hálfa. Það má ekki þeyta vöffludeig of mikið, þá verður deigið stíft og seigt. Svo þarf að muna að stafla ekki upp vöfflunum heldur láta þær á grind.

Uppskrift

  • 300 gr. hveiti
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. salt
  • 250 ml mjólk
  • 250 ml súrmjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 50 gr. smjör

Eggjahvíturnar eru þeyttar í hrærivél eða með þeytara. Hveiti, lyftidufti, salti og hluta af mjólkinni blandað saman. Þeytt með písk þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjarauðunum bætt við, mjólkinni og vanilludropunum. Því næst er smjörinu bætt við. Að lokum er þeyttu eggjahvítunum bætt varlega saman við deigið. Deigið geymist ca 3-4 daga á kæli, vel plastað eða í dalli með loki.

Belgískar vöfflur


Ég hef lengi óskað mér belgísks vöfflujárns. Í byrjun sumars sá ég þannig vöfflujárn auglýst á netinu, lítið sem ekkert notað og falt fyrir fáeina ríkisdali! Ég sló auðvitað til og fjárfesti í því. Ég er búin að skoða mikið uppskriftir og fróðleik um belgískar vöfflur. Helsti munurinn er að þær eru með geri, ekki með lyftidufti eins og venjulegar vöfflur, að auki eru þær mun þykkari en með djúpum dældum. Í Belgíu eru þær seldar hjá götusölum með til dæmis súkkulaði, rjóma, berjum, sykri og öðru gúmmelaði. Ég fann uppskrift af belgískum vöfflum frá Nönnu Rögnvaldar. Eftir að hafa borið hana saman við ótal erlendar uppskriftir sá ég að hennar uppskrift var mjög sambærileg flestum uppskriftunum en með kannski meiri vökva en margar þeirra. Það kom ekki að sök, mér finnst þessi hlutföll koma vel út og held mig við hennar uppskrift.

Með vöfflunum er hægt að bjóða upp á allskonar fyllingar. Hér var ég með vanilluís og tvennskonar heitar sósur, karamellusósu og súkkulaðisósu. Gestirnir voru beðnir um að taka út sósurnar og meta hvor þeirra væri betri með belgísku vöfflunum. Útkoman varð sú að best væri að blanda þeim saman!

Uppskrift:

  • 1 msk þurrger
  • 700 ml mjólk (eða 350 ml mjólk, 350 ml súrmjólk)
  • 3 stór egg, aðskilin
  • 150 g smjör, bráðið og látið kólna dálítið
  • 6 msk sykur (má vera minna)
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur
  • um 500 g hveiti
  • 3 eggjahvítur
  • olía til að pensla vöfflujárnið

Hitaðu 100 ml af mjólk í sem næst 40°C, leystu gerið upp í blöndunni (e.t.v. með 1 tsk af sykrinum) og láttu standa þar til freyðir, eða í um 10 mínútur. Hitaðu afganginn af vökvanum í um 40°C, helltu um einum bolla í stóra skál og hrærðu eggjarauðum, smjöri, sykri, salti og vanillusykri saman við, ásamt gerblöndunni. Hrærðu afganginum smátt og smátt saman við til skiptis við hveitið, þar til komin er fremur þykk vöfflusoppa (ekki nota allt hveitið ef hún virðist ætla að verða of þykk, bættu við hveiti ef hún er of þunn). Þeyttu eggjahvíturnar þar til þær eru farnar að stífna og blandaðu þeim þá saman við með sleikju. Láttu soppuna lyfta sér á hlýjum stað í um 1 klst (enn betra er þó að láta hana lyfta sér í ísskáp yfir nótt, en þá er best að sleppa því að hita meirihluta vökvans).

Hitaðu vöfflujárnið og penslaðu það með olíu. Bakaðu vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Berðu þær fram strax eða haltu þeim heitum í volgum ofni. Einnig má frysta þær og hita svo í ofni.

(Það má líka nota eggin heil og sleppa því að þeyta hvíturnar en þær verða betri svona.)

Með vöfflunum bar ég fram vanilluís og heita súkkulaðisósu (suðusúkkulaði og smá rjómi hitað yfir vatnsbaði) og heita karamellusósu:

  • 100 g smjör
  • 100 g púðursykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl rjómi

Sjóðið saman í 5 mínútur og hrært stöðugt á meðan. Sósan er borin fram heit.

Það er líka gott að bera fram með vöfflunum jarðaber, hindber, þeyttan rjóma, ferska ávexti, hlynsíróp og blanda þessu saman eftir því sem hugurinn girnist, svo ekki sé nú minnst á Nutella, banana og þeyttan rjóma!

Uppfært: ég mæli með því að baka stóra uppskrift af þessum vöfflum til að eiga afgang daginn eftir. Það er nefnilega hrikalega gott að rista þær í brauðrist og smyrja með íslensku smjöri, namminamm!