Súkkulaði-bananavöfflur


IMG_0368

Mér finnst flest allt þar sem súkkulaði er sameinað með banönum afskaplega gott. Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar slíkar uppskriftir sem eru allar í miklu uppáhaldi.

Frönsku pönnukökurnar, crepes, með Nutella og banönum eru til dæmis hættulega góðar.

IMG_3736

Þessi súkkulaði- og bananakaka er líklega uppáhaldskakan mín hér á Eldhússögum. Ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu!

IMG_9530

Banankakan með súkkulaði lætur ekki mikið yfir sér á mynd en er sjúklega góð.

IMG_0153

Þessi bananakaka hefur verið í uppáhaldi á heimilinu í 20 ár og eina kakan sem eiginmaðurinn bakar reglulega.

IMG_2259

Hér er svo súkkulaðikaka með banönum og sykurpúðum, algjört hnossgæti.

IMG_1013

Hérna er reyndar banana- og karamellubaka en hún er svo dásamlega góð.

IMG_3186

Í dag bæti ég í safnið enn einni súkkulaði/bananauppskriftinni sem sló svo sannarlega í gegn hér heima! Ég fór nefnilega að hugsa um leiðir til þess að nota skemmtilegu vöffluformin mín á fleiri vegu en að baka bara í þeim hefðbundnar vöfflur. Þessi form fást í Kokku. Hér setti ég inn uppskrift þar sem ég bakaði hefðbundar vöfflur í formunum.

vöfflur

Mér datt í hug að prófa að búa til vöfflur með súkkulaði og banönunum, nokkuð sem reyndist snilldarhugmynd. Ég prófaði mig áfram og fyrstu vöfflurnar reyndust óætar! Ég notaði of mikið kakó og of lítinn sykur, þær urðu alltof rammar. En eftir að hafa prófað mig áfram með deigið datt ég niður á sjúklega góðar vöfflur, þessar verðið þið bara að prófa! Frábær eftirréttur eða með kaffinu til hátíðarbrigða. Ég prófaði bæði að baka þær í vöffluformunum mínum í ofninum en líka í belgíska vöfflujárninu og hvor tveggja kom álíka vel út.

IMG_0353IMG_0361IMG_0375

Svona komu vöfflurnar úr belgíska vöfflujárninu

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að baka þessar vöfflur í hefðbundu vöfflujárni ef þið eigið ekki formin. Ég mæli hins vegar mikið með formunum úr Kokku, þá er hægt að baka allar vöfflurnar í einu og bera þær fram sjóðandi heitar samtímis. Snilld til dæmis sem eftirréttur fyrir marga.

Súkkulaði-bananavöfflur

Uppskrift:

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl kartöflumjöl
  • 1 msk kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjölk
  • 2 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 bananar, stappaðir

Þurrefnunum blandað saman í skál. Þá er öðru egginu og helmingnum af mjólkinni blandað út í. Því næst er hinu egginu, restinni af mjólkinni, brædda smjörinu og banönunum bætt út í og hrært með písk þar til deigið er slétt. Bakað í vöfflujárni og vöfflurnar bornar fram heitar.

Ef notuð eru vöffluform er ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Deiginu er hellt í formin og sett inn í ofn í 7 mínútur. Því næst eru formin tekin úr ofninum og vöfflunum hvolft á bökunarplötu. Hitað í ofninum í 4-5 mínútur til viðbótar.

IMG_0349

Vöfflurnar er hægt að bera fram með niðursneiddum banönum og sírópi, ís og karamellusósu, þeyttum rjóma og Nutella sósu eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0379

Bakaðar vöfflur


Bakaðar vöfflur

Við hjónin vorum að koma ofan úr Hvalfirði þar sem við eyddum ljúfum tíma á hótel Glym. Hótel Glymur er mjög hlýlegt og notalegt hótel. Útsýnið frá hótelinu er óborganlegt, við nutum þess yfir góðu vínglasi áður en við snæddum góða þriggja rétta máltíð á hótelinu.

Seinna um kvöldið fórum við í heita pottinn undir ævintýralega stjörnubjörtum himni. Morgunverðarhlaðborðið var afskaplega ljúffengt. Ef á slíku borði eru egg í allskonar útgáfum, ostar, reyktur lax og ávextir þá er ég glöð og Hótel Glymur stóð undir þeim væntingum.

image

image

Instagram áhangendur Eldhússagna gátu séð myndir frá þessari ferð. Mér finnst þetta Instagram svo ægilega skemmtilegt! Það er nú samt týpískt að loksins þegar ég kemst á Instagram þá eru allir að færa sig yfir á Cinemagram! 🙂 Aldrei að vita nema að Eldhússögur prófi sig áfram þar líka!

Það áttu sér stað tilraunir í eldhúsinu í Kleifarselinu í gær. Ég eignaðist stórsniðug silikon form úr Kokku sem notuð eru til að baka vöfflur í ofni. Ég var ægilega spennt að prófa nýju formin mín og stóðst ekki mátið að búa til vöfflur áður en við hjónin fórum í Hvalfjörðin. Börnin og vinir þeirra sem voru í heimsókn voru ekkert ósátt við þessar tilraunir! Einn af stóru kostunum við þessi form er að allar vöfflurnar verða tilbúnar á sama tíma.

vöfflur

Ég notaði hér um bil sömu uppskrift og ég nota fyrir venjulegar vöfflur en notaði meira smjör. Vöfflurnar urðu rosalega góðar og í raun ekkert líkar þeim sem bakaðar eru í vöfflujárni. Bragðið var það sama en áferðin allt önnur. Þær eru töluvert þykkari og minna á belgískar vöflur. Með því að baka vöfflurnar í þessum formum verða þær stökkar að utan og mjúkar og djúsí að innan. Vöfflurnar slógu algjörlega í gegn hjá öllum börnunum fimm sem sögðu öll sem eitt að þessar vöfflur væru mikið betri en hefðbundnar vöfflur. Ég verð að vera sammála þeim, þetta voru dásamlega góðar vöfflur og afskaplega auðvelt að baka þær. Ég er strax farin að upphugsa fleiri leiðir til þess að nota þessi form. Spenntust er ég fyrir því að prófa að baka brownies í formunum. Það yrði örugglega dúndur eftirréttur sem væri gaman að skreyta og bera fallega fram. Einnig væri sniðugt að nota gerdeig eins og notað er í belgískar vöfflur og gera ósætar vöfflur með kannski beikoni, ostum eða einhverju slíku. Möguleikarnir eru býsna margir!

IMG_9265

Hér er önnur hliðin bökuð, svo er vöfflunum hvolft á bökunarplötu og þær bakaðar í nokkrar mínútur í viðbót.

IMG_9267

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 100 g smjör
  • 400 ml mjólk
  • 250 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk sykur

Ofn hitaður í 220 gráður. Smjörið brætt og eggin pískuð létt saman, þá er smjörinu bætt út í eggin. Því næst er mjólkinni bætt út í og hún pískuð saman við eggin og smjörið. Að lokum er þurrefnunum bætt út og og degið hrært saman með písk þar til það er slétt og laust við kekki. Deginu er hellt í formin og bakað í ofni í ca. 8-9 mínútur. Þá eru formin tekin út og vöfflunum hvolft á ofnplötu og þær bakaðar í ca. 5 mínútur til viðbótar (samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum). Ég reyndar bakaði þær í ca. 8 mínútur til þess að fá meiri lit á vöfflurnar. Við bárum fram vöfflurnar með rjóma og sultu annars vegar …

IMG_9277

og Nutella og jarðaberjum hinsvegar …

Bakaðar vöfflur