Í dag rötuðu Eldhússögur í sunnudagsblað Morgunblaðið. Ég var beðin um að gefa uppskrift af bestu súpunni minni. Ég prófaði nokkrar súpur en niðurstaðan var alltaf sú sama hjá mér og öðrum fjölskyldumeðlimum, fiskisúpan vestan og kjúklingasúpan með karrí og eplum hafa vinninginn! Ég valdi þá síðastnefndu í blaðið auk ljúffengra brauðbolla með kotasælu og gulrótum. Það kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og smellti af myndum af herlegheitunum (allar myndirnar í þessari færslu eru þó teknar af mér). Það var að auki tekið smá viðtal við mig. Nú skil ég hvernig stjörnunum líður þegar þær eru misskildar og mistúlkaðar í viðtölum! 😉 Ég sagði við blaðamanninn að heimasíðan yrði í framtíðinni góður vettvangur fyrir krakkana til að sækja uppskriftirnar mínar. Alexander hefur til dæmis oft talað um það að hann þurfi að eignast hina og þessa uppskrift hjá mér þegar hann flytur að heiman. Í viðtalinu er hins vegar talað um að ég eigi fleiri en eitt barn sem er þegar flutt að heiman! Það verður hressandi fyrir Ósk og Alexander (og kannski ákveðin pressa!) að lesa þær fréttir þegar þau vakna í dag, ekki lýgur Mogginn! 🙂
Brauðbollurnar eru einfaldar en afskaplega bragðgóðar og mjúkar, sérstaklega nýbakaðar.
Brauðbollur með gulrótum og kotasælu
- 50 g ferskt pressuger eða 1 bréf þurrger
- 5 dl volgt vatn
- 4 dl fínrifnar gulrætur
- 250 g kotasæla
- 2 tsk salt
- 1 msk olía
- 4 dl heilhveiti
- 12 dl hveiti
- 1 egg til penslunar
- graskersfræ eða sesamfræ