Brauðbollur með gulrótum og kotasælu og Eldhússögur í Mogganum


Í dag rötuðu Eldhússögur í sunnudagsblað Morgunblaðið. Ég var beðin um að gefa uppskrift af bestu súpunni minni.  Ég prófaði nokkrar súpur en niðurstaðan var alltaf sú sama hjá mér og öðrum fjölskyldumeðlimum, fiskisúpan vestan og kjúklingasúpan með karrí og eplum hafa vinninginn! Ég valdi þá síðastnefndu í blaðið auk ljúffengra brauðbolla með kotasælu og gulrótum. Það kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og smellti af myndum af herlegheitunum (allar myndirnar í  þessari færslu eru þó teknar af mér). Það var að auki tekið smá viðtal við mig. Nú skil ég hvernig stjörnunum líður þegar þær eru misskildar og mistúlkaðar í viðtölum! 😉 Ég sagði við blaðamanninn að heimasíðan yrði í framtíðinni góður vettvangur fyrir krakkana til að sækja uppskriftirnar mínar. Alexander hefur til dæmis oft talað um það að hann þurfi að eignast hina og þessa uppskrift hjá mér þegar hann flytur að heiman. Í viðtalinu er hins vegar talað um að ég eigi fleiri en eitt barn sem er þegar flutt að heiman! Það verður hressandi fyrir Ósk og Alexander (og kannski ákveðin pressa!) að lesa þær fréttir þegar þau vakna í dag, ekki lýgur Mogginn! 🙂

Brauðbollurnar eru einfaldar en afskaplega bragðgóðar og mjúkar, sérstaklega nýbakaðar.

Brauðbollur með gulrótum og kotasælu

  • 50 g ferskt pressuger eða 1 bréf þurrger
  • 5 dl volgt vatn
  • 4 dl fínrifnar gulrætur
  • 250 g kotasæla
  • 2 tsk salt
  • 1 msk olía
  • 4 dl heilhveiti
  • 12 dl hveiti
  • 1 egg til penslunar
  • graskersfræ eða sesamfræ
Pressugerið er mulið út í vatnið í skál. Restinni af hráefnunum bætt út í, hveitinu síðast. Deigið hnoðað í vél eða höndunum þar til það er orðið slétt. Því næst er það látið hefast undir blautum klút í 30 mínútur. Ofninn stilltur á 225 gráður. Deigið hnoðað í stutta stund á hveitistráðu borði. Því er svo skipt í tvennt og rúllað í tvær lengjur. Lengjurnar eru skornar í tíu jafna bita hvor. Bitarnir eru mótaðir í bollur sem er raðað á ofnplötu með bökunarpappír undir. Brauðbollurnar penslaðar með eggi og graskersfræjum eða sesamfræjum dreift yfir. Bollurnar látnar hefast í 20 mínútur. Bakað í miðjum ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur og brauðbollurnar látnar kólna á grind.

20 hugrenningar um “Brauðbollur með gulrótum og kotasælu og Eldhússögur í Mogganum

  1. Vá glæsilegt Dröfn!! Ekki hissa að Mogginn hafi haft upp á þér.
    Ég gerði súpuna með kjúklingi, karrí og eplum í vikunni fyrir gesti og hafði döðluréttinn á eftir. Æðislega gott.
    Frábært að hafa svona flotta rétti að velja úr fyrir hugmyndalausa kokka like yours truly.
    Hlakka til þegar bókin þín kemur út :-))
    Luv
    BB

    • Gaman að heyra elsku Brynja að þú getir nýtt þér uppskriftirnar! 🙂 Ég held að ég haldi mig við þennan vettvang, sé ekki alveg bókaútgáfu fyrir mér! 🙂 Kram til ykkar allra!

  2. En gaman. Hlakka til að kíkja í Moggann. Ég gerði kjúklingasúpuna þína í vikunni og hún er alveg dásamlega góð eins og allt annað sem ég er búin að prófa frá þér. Frábært blogg. Gangi þér vel áfram.

  3. Sæl, æðisleg síða og kynntist henni í Mogganum. Ætla að gera súpuna í afmæli en hvað er þessi uppskrift fyrir marga sem var í blaðinu? Frábært blogg. Hlakka til að prófa meira.
    Kveðja, ALeksandra

    • Þakka þér fyrir! 🙂 Ég myndi segja að þessi uppskrift af súpunni væri fyrir 4-6, fer eftir því hvað fólk borðar mikið! 🙂 Mig minnir að súpan hafi dugað í ca. 7 skammta í venjulega súpuskál. Gangi þér vel!

    • Alexandra, ég gerði þessa súpu daginn fyrir okkur 5, tvöfaldaði uppskriftina og hann dugði í 2 máltíðir (2 fullorðnir og 3 börn).
      Bestu kveðjur til þín (og líka þín Dröfn 🙂
      Ragnhildur Sara

  4. Ég gerði þessa frábæru súpu í gær og hún var svo í matinn aftur í kvöld. Þetta er hrikalega góð súpa og ég er engin súpukona og elda í rauninni aldrei súpur ! Sonur minn 11 ára sagði við mig í kvöld þegar súpan var aftur í matinn „mamma, ætlarðu ekki örugglega að elda þessa súpu oft aftur“ ? Ég vil taka það að sonurinn er sérlega matvandur þannig að þetta eru hrikalega góð meðmæli. Á morgun ætla ég að gera Skötuselinn þar sem ég á hann í frysti. Svo er það hakkrétturinn eftir það og kryddbrauðið. Rosalega er ég fegin að hafa fundið þessa síðu, er búin að vera svo andlaus í eldhúsinu undanfarið. Takk fyrir frábæra síðu 🙂

    • Vá hvað þessi skilaboð gleðja mig! Þakka þér fyrir! 🙂 Það er alveg eins á þessu heimili, við erum ekkert súpufólk en allir elska þessa súpu, líka krakkarnir. Vonandi falla hinir réttirnir líka í kramið hjá ykkur! Fleiri réttir sem yngri krakkarnir hjá mér (sem eru frekar matvönd) eru afar hrifin af eru: Núðlur með kjúklingi og sveppum, Tortilluterta, kjötbollur í tómatsósu, Kjúklingabringur með heimagerðu pestói í pönnukökum, kjúklingapasta með pestó og pepperóní pasta. Kannski er það eitthvað sem stráknum þínum líkar! Gangi þér vel! 🙂

  5. Mjög góð súpa og dásamlegt brauð. Þolinmæðin reyndar frekar lítil þegar kemur að gerbakstri en það kom ekki að sök þó hefunar tíminn væri styttur umtalsvert.
    Ég er afar hrifin af blogginu þínu og skoða það daglega. Er oft mjög hugmyndasnauð um hvað eigi að vera í matinn svo þú kemur sterkt inn. Búin að baka og elda margt af síðunni. Takk kærlega fyrir mig.

    • Kærar þakkir fyrir hrósið, það gleður mig! 🙂 Vonandi heldur þú áfram að finna eitthvað við þitt hæfi á síðunni!

  6. Sæl og blessuð Dröfn!
    Súpan mallar í pottinum akkúrat núna og ég dunda mér við að skoða bloggið þitt á meðan. Svo gaman að fylgjast með þér! Bestu kveðjur úr Sth, I.

  7. Sæl Dröfn fann þessa frábæru súpu á netinu og prufaði að gera hana, epli karrí og kjúklingur eitthvað sem kitlar bragðlaukana. Ég gerði fyrir 80 manns og súpan var frábær ákvað að baka
    brauðbollurnar með kotasælu og gulrótum hef ekki fengið jafn góðar bollur . Takk fyrir að deila þessum upskriftum á eftir að skoða fleira sem þú sendir frá þér.Kveðja Björk .

    • Vá Björk, fyrir 80 manns, það er ekkert smáræði! 🙂 Gaman að þér hafi líkað bollurnar líka. Vonandi finnur þú fleira hér á síðunni við þitt hæfi! Takk fyrir góða kveðju! 🙂

  8. Búin að gera þessar bollur tvisvar sinnum og þær eru hreinasta afbragð. Ég breytti aðeins, átti fjölkornablöndu og setti ca. 3 dl og minna af hveiti. Ég hafði þær líka mjög blautar, þurfti að maka á mig hveiti fyrir hverja bollu. Voru dásamlegar. Takk fyrir æðislega síðu. Ég sem hef haft það orðspor að vera hálfgerður draugur í eldhúsinu er farin að reiða fram hverja dýrindismáltíðina á fætur annarri.

  9. Bakvísun: Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer | Eldhússögur

  10. Bakvísun: BrauA�bollur meA� kotasA�lu og gulrA?tum | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.