Chilikjúklingur með chorizo pylsu, kirsuberjatómötum og rótargrænmeti


Um síðustu helgi buðum við foreldrum mínum í mat og ég ákvað að prófa kjúklingarétt sem ég hef haft augastað á. Í honum er chorizo pylsa en ég hef lítið sem ekkert notað slíkar pylsur. Til dæmis hef ég ekki enn fundið hjá mér hvöt til að fara í verslunina Pylsumeistarann á Hrísateigi þó svo að ég hafi heyrt að það eigi að vera ægilega mikið gourmet og hámóðins hjá öllum matgæðingum! Ég hefði auðvitað átt að fara þangað til að tryggja að ég notaði hágæða pylsu í réttinn en ég lét mér duga að kaupa chorizo pylsu frá Ali í Þinni Verslun. Og þessi pylsa kom reglulega á óvart, passaði vel við réttinn og meira að segja krakkarnir voru sólgnir í hana. Rétturinn sjálfur er afar einfaldur að útbúa og reglulega góður, jafnvel krakkarnir hámuðu hann í sig af bestu lyst. Þó svo að í réttinum væri chilimauk fannst engum rétturinn vera of bragðsterkur, hvorki foreldrum mínum né börnunum. Ég skellti í eitt svona brauð til að bera fram með réttinum, en splæsti í sunnudagsútgáfuna, notaði bara hveiti og sesamfræ! Að auki bar ég fram með réttinum ferskt salat.

Uppskrift f. 3-4:

 • 4-6 stórar kartöflur, skornar í báta
 • 2 stórar gulrætur, skornar í þykkar skífur
 • 1 sæt kartafla, skorin í fremur stóra teninga
 • 8 skarlottulaukar, skornir í tvennt
 • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • ólífuolía og smjör til steikingar
 • 4 kjúklingabringur, skornar í 3-4 bita hver
 • 1 dl hvítvín (eða kjúklingasoð)
 • 1 dós niðursoðnir kirsuberjatómatar (fást í Krónunni)
 • 1-2 tsk sambal oelek (má nota aðra tegund af chilimauki)
 • 100-150 gr chorizo pylsa, skorin í bita
 • maldonsalt og pipar
 • ferskt timjan (ég fékk það ekki og notaði þurrkað)

Stillið ofn á 225 gráður. Skrælið kartöflur, sæta kartöflu og gulrætur og skerið eins og uppskriftin segir til um. Dreifið grænmetinu í eldfast mót ásamt skarlottulauknum og hvítlauknum. Hellið yfir dálítið af ólífuolíu og kryddið með maldonsalti og pipar. Hitið í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að grænmetið er næstum því tilbúið.

Á meðan grænmetið er í ofninum er kjúklingur kryddaður með maldonsalti og pipar. Kjúklingurinn er brúnaður í smjör og ólífuolíu þar til að hann hefur fengið lit. Því næst er kjúklingurinn lagður ofan á grænmetið ásamt chorizo pylsubitunum, kokteiltómötunum (vökvinn líka notaður) og grófsöxuðu timjan.

Að lokum er hvítvíni/kjúklingasoði blandað saman við chilimaukið og því hellt yfir réttinn. Rétturinn er aftur settur inn í ofn í um það bil 15-20 mínútur eða þar til bæði kjúklingur og grænmeti er tilbúið. Borið fram með brauði og góðu salati. Ekki skemmdi rauðvínsglasið fyrir!

Ofnbakaður hafragrautur með rabbabara


Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið fyrir hafragraut, eiginlega borða ég hann ekki en öfunda alla þá sem borða hafragraut því hann er svo hollur og staðgóður! Flestum í fjölskyldunni finnst hann góður, þær systur fá sér oft hafragraut á morgnana. En svo sá ég á netinu hugmynd af ofnbökuðum hafragraut sem kveikti áhuga minn á að gera einhverjar skemmtilegar útfærslur af grautnum. Það lítur kannski út fyrir að vera tímafrekt að útbúa grautinn í ofni en svo er alls ekki, ég tók tímann! Ég var 2 mínútur að útbúa grautinn (með forskornum rabbabara úr frysti, aðeins lengur ef epli eru skorin niður), svo er honum bara hent inn í ofn og á meðan er hægt að vekja börnin og hafa alla til á meðan grauturinn bakast í ofninum í ca. 15 -20 mínútur. Það er líka hægt að búa hann til kvöldinu áður og geyma í ísskáp yfir nóttu, setja bara álpappír eða plastfilmu yfir hann. Krökkunum fannst ofnbakaði hafragrauturinn algjört sælgæti! Ósk sagði að grauturinn bragðaðist ekki eins og hafragrautur, meira eins og nammi! Meira að segja Vilhjálmi, sem hefur hingað til ekki verið mjög hrifinn af hafragraut, fannst hann æðislegur. Ég prófaði nokkrar útfærslur af grautnum. Í eitt skiptið notaði ég frosin bláber í botninn, en betra fannst okkur að nota rabbabara eða epli. Við eigum líka eftir að prófa t.d. frosin hindber, það er örugglega ljúffengt! Það er hægt að leika sér enn meira með þennan graut, td. bæta út í hann smá kókosmjöli, döðlum, hnetum eða hunangi. Eins er hægt að bera hann fram og borða með kotasælu, jógúrt eða AB-mjólk. Ef það er afgangur af grautnum þá er hægt að geyma hann í ísskáp og borða seinna um daginn, kaldan eða upphitaðan. Uppskriftin hér að neðan passar fyrir eina svanga sál!

Uppskrift:

 • 1 dl haframjöl
 • 3/4 dl mjólk
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 egg
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/2 banani
 • rabbabari eða epli eða hindber eða bláber eða ……

Ofninn er hitaður í 220 gráður. Í botninn á litlu eldföstu móti eða skál er lagður smátt skorinn rabbabari (nú eða smátt skorin epli, líka hægt að skera þau í skífur). Haframjöli, mjólk, eggi, lyftidufti, kanil og banana blandað saman í skál með gaffli (banani stappaður í leiðinni) og helt yfir rabbabarann. Bakað í ofni við 220 gráður í 15-20 mínútur (fer dálítið eftir hvernig formið er og þá hversu þykkt lag af graut er ofan á ávöxtunum, fer líka eftir hversu stökkt yfirborð maður vill)

Laxasúpa


Þessi súpa komst inn í gegnum súpuhliðið hjá mér! Þetta er sem sagt súpa sem mér finnst afar góð þó ég sé kresin á súpur. Laxinn í súpunni kemur rosalega vel út en mikilvægt er að ofelda hann ekki. Eftir að laxinn er kominn ofan í súpuna tekur bara nokkrar mínútur fyrir hann að verða tilbúinn. Fenniku fékk ég í Nettó í Mjóddinni. Ég mæli með því (fyrir þá sem búa réttu meginn í borginni! 🙂 ) að kaupa laxinn í Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni og skottast svo yfir í Nettó sem er við hliðina á og kaupa grænmetið og restina af hráefninu þar. Það er yfirleitt mjög gott úrval af grænmeti og ávöxum í þeirri verslun. Þetta er fremur mild súpa, ekkert af hráefninu er sérstaklega bragðsterkt. Ég vil hafa súpur frekar bragðmiklar og notaði því vel af cayanna piparnum en það er smekksatriði, súpuna þarf að smakka til og krydda eins og hentar hverjum og einum.

 • 800 gr laxaflök, roðflett og skorin i teninga
 • 200 gr rækjur (má sleppa)
 • 1-2 stönglar af sellerí, skorið í strimla
 • 2 gulrætur, skornar í strimla
 • 1 fennika, skorin í strimla
 • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
 • smjör til steikingar
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 8 dl fiskisoð
 • smá hvítvín (má sleppa)
 • 5 dl matargerðarrjómi
 • Cajanna pipar
 • maizena mjöl og vatn
 • salt 

Skerið allt hráefnið eins og sagt er til um hér að ofan. Reynið að hafa grænmetisstrimlana svipað stóra. Steikið sellerí og gulrætur í smjöri í nokkrar mínútur, bætið svo við fenniku og púrrlauk og steikið í smástund í viðbót. Bætis svo við tómötum, fiskisoðinu, rjómanum og hvítvíni (ef það er notað). Látið súpuna malla þar til að grænmetið er tilbúið. Hristið saman dálítið maizenamjöl og vatn og bætið út í súpuna, látið suðuna koma upp. Því næst er súpan söltuð og pipruð með cayanna pipar og smökkuð til. Laxinum er bætt út í í örfáar mínútur (hann er mjög fljótt tilbúinn), hrærið ekki í súpunni. Bætið svo rækjum út í þegar súpan er borin fram. Súpuna er hægt að skreyta með fersku dilli og gott er að bera hana fram með góðu brauði, til dæmis focaccia brauði eða þessu fljótlega fimmkornabrauði.

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

 •  250 gr suðusúkkulaði
 • 180 gr smjör
 •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
 •  2 dl sykur
 •  4 egg
 •  2 tsk vanillusykur
 •  1/2 tsk lyftiduft
 •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

 •  25 gr smjör
 •  1/2 dl rjómi
 •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Eggjanúðlur með kjúklingi og wok steiktu grænmeti


IMG_0340

Ég eldaði þennan kjúklingarétt fyrir okkur Elfar í kvöld. Börnin langaði svo ofsalega mikið í Dominos pizzur en við hjónin erum ekki hrifin af þeim. Svo enduðu krakkarnir nú öll á því að laumast aðeins í réttinn, þrátt fyrir pizzurnar, enda er hann afskaplega góður. Mér finnst oft erfitt að finna góða sósu með svona núðlukjúlingaréttum. En þessi sósa er rosalega góð! Það er hægt að nota frosið wok grænmeti en auðvitað er mikið betra að hafa það ferskt. Þessi réttur er ekki bara góður heldur afar fljótlegur að elda. Ég var jafnlengi að búa til þennan rétt eins og stóru krakkarnir voru að sækja pizzurnar, ca. 15 mínútur. Frábær réttur sem er svo gott að grípa í þegar maður vill búa til fljótlegan er samt rosalega góðan kvöldmat! 🙂

Uppskrift:

 • 600 gr kjúklingabringur eða kjúklingalundir
 • 2-3 gulrætur
 • góður biti af hvítkálshaus
 • 250 gr sveppir
 • lítill brokkolí haus
 • ferskt engifer, fingurstór biti
 • 4 hvítlauksrif
 • 1 pakki soðnar eggjanúðlur (250 gr)
 • 3-4 msk ólifuolía
 • 2 tsk sesamolía
 • 2 msk oystersauce
 • 5-6 msk góð sojasósa
 • 1 msk hoisin-sósa
 • 1 tsk sykur

IMG_0334

Afhýðið engifer og hvítlauk og saxið fínt. Skerið kjúklinginn í þunnar sneiðar (gott að skera hann hálffrosin). Skerið hvítkálið og gulrætur í strimla, sneiðið sveppina og skerið brokkolí í passlega bita. Hrærið saman sesamolíuna, ostron sósuna og hoisin sósuna, sojasósuna og sykur. Sjóðið núðlurnar eins og gefið er upp í leiðbeiningum.
Hitið ólífuolíuna á pönnu (wok pönnu ef þið eigið hana til) og steikið engifer og hvítlauk í örstutta stund á háum hita, bætið svo kjúklingnum út í og steikið þar til hann hefur fengið lit. Þá er hvítkáli, gulrótum og sveppum bætt út í.  Ef pannan er of lítil þá er hægt að færa allt yfir í stóran pott. Bætið nú við sósunni ásamt soðnu núðlunum og steikið saman í nokkrar mínútur þar til rétturinn er gegnumheitur.
IMG_0331

Gulrótarbrauð með hunangi og hörfræjum


Þetta holla og safaríka brauð er afar einfalt að baka enda er það gerlaust. Það er ákaflega gómsætt á meðan það er enn dálítið heitt, smurt með alvöru smjöri! En það helst safaríkt lengi og það er hægt að rista brauðið þegar á líður. Alexander fannst þetta voða girnilegt brauð og var spenntur að smakka það með heimatilbúnu kæfunni sem var í ísskápnum. Sem betur fer spurði hann um leyfi hvort hann mætti fá sér af þessari girnilegu kæfu. Annars hefði hann hann smurt fersku pressugeri á brauðið! 🙂 Ég hafði keypt pressuger í Hagkaup sem er selt eftir vikt og það leit greinilega út eins og góður kæfubiti!

Já og svo minni ég á að á forsíðu þessarar vefsíðu hægra megin er hægt að ,,læka“ Eldhússögur á Facebook og fylgjast þannig með hvenær nýjar uppskriftir koma inn! 🙂 Nú eða verða áskrifandi í gegnum tölvupóst, þá er hægt að skrá netfangið sitt efst til hægri á síðunni.

Uppskrift (2 brauð):

 • 4 1/2 dl hveiti 
 • 3 dl rúgmjöl
 • 3 dl heilhveiti
 • 1 1/2 dl haframjöl
 • 1/2 msk salt
 • 4 msk hörfræ
 • 1 1/2 msk lyftiduft
 • 1 1/2 msk matarsódi
 • 2 dl mjólk
 • 3 dl súrmjólk eða hrein jógúrt
 • 1 dl hunang
 • 3 dl rifnar gulrætur

Hitið ofninn í 170 gráður. Hveiti, heilhveiti, rúgmjöli, haframjöli, salti, hörfræjum, lyftidufti og matarsóda blandað saman í skál. Mjólk, súrmjólk, hunangi og gulrótum bætt út í. Hrærið saman og skiptið deiginu milli tveggja smurðra brauðforma. Brauðformin sem ég nota eru 25 x 11 cm, mæld að ofan, þau mjókka aðeins niður. Bakið við 170 gráður í 40-50 mínútur. Látið brauðið kólna dálítið í formunum.

Kjötbollur í tómatsósu


Í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni minni, sem mér er tíðrætt um, er þessi uppskrift af kjötbollum á þriðju blaðsíðu. Þetta er því uppskrift sem hefur fylgt okkur fjölskyldunni frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega krökkunum. Með þessum rétti hef ég hrísgrjón eða kúskús. Ég hef með árunum minnkað kjötbollurnar töluvert, þá þurfa þær styttri eldunartíma. Í upprunalegu uppskriftinni er ekki egg en mér finnst það binda svo vel saman bollurnar að ég bætti því við. Það er mikilvægt að krydda vel hakkið svo að þetta verði kjötbollur sem bragð er að! Í uppskriftinni sem ég gef upp hér að neðan er sama magn og ég nota fyrir fjölskylduna okkar, það er, fyrir sex svanga og ei matgranna, það kláraðist hver einasta bolla hjá okkur! Fyrir þetta magn þarf að nota tvær pönnur til að steikja bollurnar á eða steikja þær í tveimur umferðum.

Uppskrift:

 • 1300 gr nautahakk
 • 2 1/2 dl brauðmylsna eða mulið Ritz kex
 • 1 egg
 • 2-3 dl rifinn ostur
 • salt og pipar
 • gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum
 • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
 • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
 • 2 dósir hakkaðir tómatar með basilku
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1/2 dl tómatsósa
 • 1 tsk kjötkraftur
 • 1 msk þurrkuð basilika

Nautahakki, brauðmylsnu, rifnum osti, eggi og kryddi blandað vel saman og mótaðar bollur  á stærð við tómata. Bollurnar eru steiktar í smjöri og/eða olíu á pönnu þar til þær eru vel steiktar á öllum hliðum. Ef pannan er stór er hægt að útbúa sósuna á pönnunni, annars er best að færa bollurnar yfir í stóran pott og útbúa sósuna í honum. Lauknum bætt á pönnuna með bollunum, því næst er rjómanum hellt út á ásamt hökkuðum tómötunum. Að því búnu er tómatpúrru, tómatsósu, kjötkrafti og basiliku bætt út í. Bollurnar látnar malla í sósunni í ca. 10-15 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Sósan er smökkuð til með kryddi. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati eða soðnu brokkolí.

Pönnukökur eins og hjá ömmu


Í gær kom vinkona Jóhönnu með henni heim úr skólanum. Þeim stöllum var svo mikið niðri í fyrir að þær hringdu í mig þegar þær voru eiginlega rétt fyrir utan húsið. Ástæðan var einföld, þær langaði svo ægilega mikið í pönnukökur! Ég gat ekki annað en orðið við bón þeirra, þær voru svo mikil krútt!

Ég man vel þegar ég fékk uppskriftina af pönnukökunum. Þá var ég rúmlega tvítug, nýflutt til Stokkhólms og hafði fengið pönnukökupönnu í jólagjöf. Ég hringdi heim til Íslands í ömmu til að fá uppskriftina. Ömmu vafðist nú tunga um tönn, enda búin að baka pönnukökur í hálfa öld og löngu hætt að styðjast við uppskrift. En eftir nokkrar útlistingar hafði ég skrifað niður uppskrift af gómsætum ömmu-pönnukökum sem ég hef svo notast við síðastliðin 20 ár. Þessi uppskrift gefur gróflega reiknað 10-14 pönnukökur.

Uppskrift:

 • 200 gr. hveiti
 • 2 msk sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • ca. 1/2 líter mjólk
 • 50 gr smjör

Sykri, salti og matarsóda er blandað saman við hveitið ásamt hluta af mjólkinni. Þeytt saman þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjum bætt út í, vanilludropum og restinni af mjólkinni. Að lokum er smjörið brætt og bætt út í. Ef deigið er of þykkt er meiri mjólk bætt út í deigið. Deiginu er hellt mjög þunnt á pönnu og steikt báðum megin. Pönnukökurnar bornar fram heitar með rjóma og sultu eða sykri. Jóhanna segir að best sé að nota mjög mikið af bláberjasultu og rjóma! 🙂

Sashimi með avókadó og mangó í ponzusósu


Jamm, enn og aftur, avókadó og mangó! Þetta eru aðalpersónurnar í eldhússögunum mínum eins oft og ég mögulega kem þeim að! Og með þeim aukapersónum sem eru í þessum rétti … ég segi bara eins og Ósk dóttir mín ,,það hamingja í munninum á mér!“ 🙂 Þessi forréttur er hreinasta hnossgæti, það tekur enga stund að útbúa hann og að auki er hann afar fallegur á diski. Ég keypti lax í fiskbúð Hólmgeirs og frysti hann yfir nóttu eins og gera á við lax sem bera á fram hráan. Ég tók hann út að morgni og setti í ísskáp. Þá var hægt að skera hann niður seinnipartinn. Sósan sem er með réttinum er svo ljúffeng. Þetta er svokölluð ponzusósa en það kalla Japanir sósur sem gerðar eru úr sojasósu og safa úr sítrusávöxtum. Þeir nota Ponzusósuna meðal annars með sashimi og tataki (mjög létt grillað kjöt eða fiskur) Það er svo lítið mál að búa þennan rétt till, það þarf bara að skera laxinn fremur þunnt ásamt avókadóinu og mangóinu. Hræra síðan saman í sósuna og voilà! Dásemdar forréttur er tilbúinn!

Við snæddum þennan rétt um helgina með vinum okkar, Hildi og Alla ásamt börnum. Við skipulögðum svo brilliant matarboð, ég sá um að elda matinn og kom með hann heim til þeirra! Mér finnst svo gaman að elda en hundleiðinlegt að þrífa og laga til. Því miður er ég ekki nógu afslöppuð týpa, ég verð því alltaf að hafa allt spikk og span ef von er á heimsókn. Það gerir það að verkum að ég get sinnt matargerðinni minna en ég vildi. Núna gat ég hins vegar dúllað mér eingöngu í eldhúsinu en Hildur og Alli sáu um hina hliðina! Góð skipting fannst okkur öllum! 🙂

Uppskrift f. 4

400 gr lax
1 mangó (vel þroskað)
1 avókadó
1,5 dl safi úr límónum (lime), ca. 3-4 stykki
1 dl sojasósa
1/4 – 1/2 rautt chili
2 msk kóríander
2 msk vorlaukur
2 tsk sykur
Ristuð sesamfræ

Aðferð

Byrjað er að útbúa ponzusósuna. Límónusafinn er kreistur úr límónunum og blandað við sojasósuna. Vorlaukur, chili (kjarnhreinsað) og kóríander saxað mjög fínt og bætt við sojasósuna. Sykrað eftir smekk. Sósan geymd í ísskáp.
Lax, mangó og avókadó skorið í þunnar sneiðar og raðað fallega á disk. Sojasósunni og ristuðum sesamfræum dreift yfir. Skreytt með nokkrum þunnum chilisneiðum og kóríanderblöðum.

Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

 • 1 msk smjör til steikingar
 • 1 lítill laukur, saxaður fínt
 • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
 • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
 • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
 • 3 gulrætur, rifnar gróft
 • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
 • 3 tsk karrí
 • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
 • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
 • 900 gr kjúklingabringur
 • hvítur pipar
 • salt
 • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.