Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum


IMG_0779Eins og ég hef sagt frá kom yfir mig ísgerðarlöngun nú í desember og ég bjó til nokkra mismunandi ísa fyrir hátíðarnar. Ég var dálítið ánægð með mig þegar ég var búin að þróa uppskriftina að þessum ís því mér fannst hann svo himneskt góður og smjörsteiktu kanileplin settu algjörlega punktinn yfir i-ið. Mér fannst ofboðslega gott að fá svona stökka núggat áferð á Dumle molana í ísnum og lítið mál að búa það til. Stórfjölskyldunni var boðið upp á þennan ís yfir hátíðarnar og gáfu honum öll toppeinkunn! 😉 Það er varla hægt að vera með hátíðlegri eftirrétt nú um áramótin og reyndar er þetta eftirréttur sem sómir sér vel allt árið um kring! 🙂 IMG_0761

Uppskrift f. 6

  • 2 pokar Dumle Orginal karamellur (samtals 240 g)
  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 2 vanillustangir, klofnar í tvennt og fræin skafin úr

Ofn er hitaður í 180 gráður við blástur. Dumle karamellunum er raðað á ofnplötur  klæddar bökunarpappír. Sett inn í ofn við 180 gráður í um það bil 5-7 mínútur eða þar til karamellurnar hafa bráðnað. Gæta þarf þess að þær brenni ekki. Þegar karamellurnar hafa kólnað eru þær saxaðar niður.IMG_0747IMG_0753IMG_0756

Rjómi þeyttur. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til blandan verður ljós og loftmikil. Þá er þeyttum rjóma, vanillufræjum og Dumle-núggati bætt varlega út í og blandað vel saman með sleikju. Sett í ísform eða 24 cm smelluform og fryst í minnst 5 tíma. Borið fram með heitum smjörsteiktum kanileplum.

Smjörsteikt kanilepli:

  • 4 rauð epli
  • 3/4 dl púðursykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 msk smjör.

Eplin eru afhýdd og skorin í fremur þunna báta. Púðursykri og kanil blandað saman og eplunum velt upp úr blöndunni. Smjör hitað á pönnu og eplin steikt í nokkrar mínútur á meðalhita þar til þau hafa mýkst vel. IMG_0765