Eftir að hafa lukkast vel með útfærslu á Toblerone ísnum um daginn fór ég að hallast á þá skoðun að kannski væri ég meira fyrir ís en ég áður hafði haldið. Allavega er ég búin að búa til tvo ísa til viðbótar sem ég ætla að hafa í eftirrétt yfir jól og áramót sem mér fannst vera hnossgæti. Í þessum tilraunum mínum komst ég líka að því hvað það er óskaplega skemmtilegt að prófa sig áfram með hinar ýmsu útfærslur á ísum og sjaldnast hægt að mistakast þegar allskonar gúmmelaði er blandað saman við þeyttan rjóma! 🙂
Uppskriftin sem ég ætla að færa inn á bloggið í dag er af ofboðslega fallegum ís með frísklegu hindberjabragði sem kemur skemmtilega út á móti bismark og myntusúkkulaðibragðinu. Ég notaði súkkulaðifylltan myntubrjóstsykur sem gefur bæði ljúffengt en jafnframt hátíðlegt bragð af ísnum.
Uppskrift:
- 5 eggjarauður
- 1 msk sykur
- 5 dl rjómi
- 1 kassi Fazermint myntufyllt súkkulaði (150 g)
- 1 poki Marianne súkkulaðifylltur myntubrjóstsykur (120 g)
- 300 g frosin hindber, afþýdd.
Rjóminn er þeyttur og lagður til hliðar. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Myntubrjóstsykur er mulinn fremur smátt í matvinnsluvél. Fazermint myntusúkkulaði er saxað niður. Hindber eru maukuð með gaffli. Þeytta rjómanum er blandað varlega saman við þeyttu eggjarauðurnar með sleikju og söxuðu súkkulaði, muldum brjóstsykri og maukuðum hindberjum blandað varlega saman við. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og fryst í að minnsta kosti 5 tíma.