Pizzabrauð


Pizzabrauð

Nú er jólaundirbúningurinn að ná hámarki. Ég fór í síðustu viku til Boston og átti þar mjög ljúfa daga. Veðrið var ótrúlegt, 15-16 stiga hiti og sól, sumarblómin höfðu enn ekki fölnað! Bostonbúar voru agndofa yfir þessu veðri enda vanir vetrarhörkum. Það var ákaflega gott að fá smá frí frá kulda og klaka enda gengum við borgina enda á milli þessa fimm daga sem við dvöldum þar, heila 60 kílómetra samkvæmt gönguappinu. Það var afar gaman að skoða borgina en einna skemmtilegast var að fara á jólatónleikana hjá synfóníuhljómsveit Boston ásamt kór. Mér tókst hér um bil að kaupa allar jólagjafirnar líka. Ég reyndi að panta sem mest og lét senda á hótelið þannig að ég þyrfti ekki að vera að leita í búðunum. Nú þegar jólagjafirnar eru frá get ég farið að einbeita mér að matarstússi. Ég verð með hefðbundinn mat á aðfangadag, hamborgarhrygg. Á jóladag er ég með hangikjöt en ég er ekki alveg búin að ákveða hvað verður í matinn á annan í jólum. Ég er komin með nokkrar tegundir af ísum inn í frysti, allt nýjar tegundir í ár, meðal annars ný uppáhaldsútgáfa af Toblerone ís og svo dásamlega góður Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum

Í dag langar mig hins vegar að færa hér inn á bloggið afar góða og einfalda uppskrift að ljúffengu pizzabrauði. Á morgun förum við á hefðbundið ættarjólaball þar sem allir koma með eitthvað á hlaðborð. Mér finnst sjálfri alltaf gott að fá mér eitthvað brauðkyns á slíkum hlaðborðum og þetta pizzabrauð myndi sóma sér vel þar.

Uppskrift:

  • 2 bréf þurrger (11.8 g bréfið)
  • 1 tsk hunang eða sykur
  • 3 dl volgt vatn
  • 1 tsk salt
  • 2 msk olía
  • 8-10 dl hveiti

Fylling:

  • 2-3 dl góð pizzasósa
  • 200 g pepperóni
  • ca. 300 g rifinn ostur
  • 2 mozzarellakúlur (120 g stykkið)
  • heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum eða annað gott krydd

IMG_7580

Gerið er leyst upp í volga vatninu ásamt hunangi eða sykri þar til blandan byrjar að freyða, tekur ca. 10 mínútur. Hveiti og salti blandað saman við olíuna. Um það bil helmingnum af þessari blöndu er bætt út í gerblönduna og unnið með hnoðkrók í vél eða í höndum. Smátt og smátt er hveitiblöndunni bætt saman við og hnoðað þar til deigið hefur fengið passlega áferð, hvorki of blautt eða of þurrt. Þá er blautur klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Því næst er deiginu skipt í tvennt og hvor helmingur fyrir sig flattur út í rétthyrning, ca. 25 x 40 cm.

IMG_7587

Pizzasósunni er dreift á báða helmingana ásamt pepperóni, rifnum osti og niðurskornum mozzarella. Kryddað með góðu kryddi, t.d. heitu pizzakryddi, oregano og/eða basiliku. Þá er pizzunum rúllað upp frá langhliðinni og þær lagðar á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með vatni eða olíu og kryddaðar með saltflögum, pizzakryddi eða oregano. Rúllurnar látnar hefast í 30 mínútur. Ofn hitaður í 200 gráður og rúllurnar bakaðar í 30-35 gráður.

IMG_7589 IMG_7594

Pizzasnúðakaka með piparosti og pepperóní


Pizzasnúðakaka með piparosti og pepperóní

Í dag ætla ég að gefa ykkur uppskrift (ef uppskrift skyldi kalla) að afskaplega einfaldri útgáfu af gómsætri pizzu sem ekkert þarf að hafa fyrir. Þetta byrjaði á því að ég sá mynd á Pinterest fyrir allnokkru af pizzamöffins sem voru bakaðir í möffinsformi. Einn daginn langaði mig til þess að bjóða krökkunum upp á eitthvað extra gott og ákvað að prófa mig áfram með svona pizzamöffins. Ég átti eina rúllu af tilbúnu pizzadeigi … já, þetta gerðist! 🙂 Halló, ég heiti Dröfn og er matarbloggari – ég keypti tilbúið pizzadeig! 😉 Ég hef oft skrifað hér á bloggið að gerdeig sé ákaflega fljótlegt og einfalt. Það er líka dagsatt! Hins vegar er ekki fljótlegt að bíða eftir hefingunni, gerdeigsbakstur þarf að skipuleggja. Þess vegna getur verið gott að grípa í tilbúið gerdeig ef naumur tími er til stefnu. Þegar til kastanna kom þá hvarf ég frá möffins hugmyndinni og þetta endaði allt saman í pizzasnúðaköku, nokkuð sem mér datt í hug þegar ég var að rúlla upp deiginu. Dásamlega djúsí og góð, krakkarnir geta ekki beðið eftir því að ég geri hana aftur!

IMG_6578

Uppskrift:

  • 1 rúlla tilbúið pizzadeig
  • 1 box rifinn piparostur
  • 150 g rifinn mozzarella ostur eða pizza ostur
  • pepperóní (ég notaði pepperóní pylsur sem ég skar niður)
  • pizzasósa
  • heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum

IMG_6559

Ofn hitaður í 200 gráður. Pizzasósunni er dreift yfir pizzudeigið. Því næst er pepperóní pylsunum dreift yfir ásamt ostinum. Kryddað með heitu pizzakryddi. Deiginu er rúllað upp frá langhliðinni. Deigrúllan er því næst skorin niður í jafnar sneiðar.

IMG_6564

Ofnplata er klædd bökunarpappír og einn snúður settur í miðjuna og þeim næstu raðað þétt í kringum hann. Fyrir þá sem vilja er hægt að dreifa extra osti yfir pizzasnúðakökuna áður en hún fer inn í ofninn.

IMG_6568

Bökuð í um það bil 20-25 mínútur eða þar til hún hefur tekið passlegan lit. Berið fram rjúkandi heita og njótið! 🙂

IMG_6571