Í dag ætla ég að gefa ykkur uppskrift (ef uppskrift skyldi kalla) að afskaplega einfaldri útgáfu af gómsætri pizzu sem ekkert þarf að hafa fyrir. Þetta byrjaði á því að ég sá mynd á Pinterest fyrir allnokkru af pizzamöffins sem voru bakaðir í möffinsformi. Einn daginn langaði mig til þess að bjóða krökkunum upp á eitthvað extra gott og ákvað að prófa mig áfram með svona pizzamöffins. Ég átti eina rúllu af tilbúnu pizzadeigi … já, þetta gerðist! 🙂 Halló, ég heiti Dröfn og er matarbloggari – ég keypti tilbúið pizzadeig! 😉 Ég hef oft skrifað hér á bloggið að gerdeig sé ákaflega fljótlegt og einfalt. Það er líka dagsatt! Hins vegar er ekki fljótlegt að bíða eftir hefingunni, gerdeigsbakstur þarf að skipuleggja. Þess vegna getur verið gott að grípa í tilbúið gerdeig ef naumur tími er til stefnu. Þegar til kastanna kom þá hvarf ég frá möffins hugmyndinni og þetta endaði allt saman í pizzasnúðaköku, nokkuð sem mér datt í hug þegar ég var að rúlla upp deiginu. Dásamlega djúsí og góð, krakkarnir geta ekki beðið eftir því að ég geri hana aftur!
Uppskrift:
- 1 rúlla tilbúið pizzadeig
- 1 box rifinn piparostur
- 150 g rifinn mozzarella ostur eða pizza ostur
- pepperóní (ég notaði pepperóní pylsur sem ég skar niður)
- pizzasósa
- heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum
Ofn hitaður í 200 gráður. Pizzasósunni er dreift yfir pizzudeigið. Því næst er pepperóní pylsunum dreift yfir ásamt ostinum. Kryddað með heitu pizzakryddi. Deiginu er rúllað upp frá langhliðinni. Deigrúllan er því næst skorin niður í jafnar sneiðar.
Ofnplata er klædd bökunarpappír og einn snúður settur í miðjuna og þeim næstu raðað þétt í kringum hann. Fyrir þá sem vilja er hægt að dreifa extra osti yfir pizzasnúðakökuna áður en hún fer inn í ofninn.
Bökuð í um það bil 20-25 mínútur eða þar til hún hefur tekið passlegan lit. Berið fram rjúkandi heita og njótið! 🙂