Rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum & basilku og ný espresso vél


IMG_5538IMG_5129

*færsla í samstarfi við Heimilistæki*

Þar til fyrir stuttu drakk ég ekki kaffi og hafði satt best að segja óbeit á öllu sem var með mokka- eða kaffibragði. Þetta breyttist allt fyrir tveimur árum. Þá vorum við stödd í Toskana á Ítalíu í dásamlega fallegu umhverfi og umvafin góðum hráefnum úr héraðinu; parmaskinku, melónu, baguette brauði, ljúfu víni og auðvitað … espresso kaffi. Mér fannst ég þá knúin til að prófa mig meira áfram með kaffi, verandi í þessu landi kaffiunnenda. Elfar minn er mikill espresso maður og þegar við ferðumst saman þá er til dæmis alltaf hluti af ferðinni tileinkuð því að finna besta espresso bolla viðkomandi lands. Í Toskana dvöldum við í frábæru húsi (sjá hér) og þar var auðvitað espresso kaffivél að ítölskum sið. Ég bað Elfar á hverjum morgni að útbúa fyrir mig espresso kaffibolla. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist þeir sérstaklega góðir en ég drakk samt einn bolla á hverjum morgni í garði  fallega hússins sem við dvöldumst og naut ótrúlegs útsýnis yfir Toskana héraðið með espresso bolla í hönd. Í lok dvalarinnar fórum við til Rómar þar sem ég pantaði mér cappuccino á kaffihúsi. Þá gerðist eitthvað, allt í einu fannst mér bollinn ákaflega ljúffengur. Upp frá því hef ég drukkið einn bolla af cappuccino á hverjum morgni og nýt þess til hins ýtrasta! Fyrst fannst mér dálítið skrítið að drekka heitan drykk daglega, ég var ekki vön því. Mér leið eins og ég þyrfti alltaf að fá mér ristað brauð með bollanum, því það var svo mikil kakó tilfinning yfir svona heitum drykk. Núna drekk ég kaffibollann minn yfirleitt stakan en stundum fæ ég mér ristaða beyglu með honum en beyglur eru í miklu eftirlæti hjá mér.

Síðastliðin ár höfum við átt fallega, bláa espresso vél sem hefur þjónað okkur rosalega vel því bæði elstu börnin eru kaffifólk eins og pabbi sinn og vélin því mjög mikið notuð. Nú þegar ég bættist í kaffidrykkjuhópinn þá fannst mér hins vegar vera kominn tími til að uppfæra vélina, aðallega vegna þess að gamla vélin flóaði ekki mjólkina nógu vel en það er grundvallaratriði fyrir cappuccino bollann minn! Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá vinn ég heimavinnuna mína vel þegar á að kaupa tæki til heimilisins. Ég er mikill grúskari og kaupi engin tæki nema vera búin að vega og meta kosti og galla allra mögulegra tækja sem koma til greina! Eftir mikið Internet grúsk þá varð þessi vél fyrir valinu, Sage by Heston Blume the barista express sem fæst í Heimilistækjum.

IMG_5565

Ekki er þetta bara frábær vél heldur er hún líka falleg. Þetta er eina vélin sem ég hef uppi við í eldhúsinu, hin tækin eru í tækjaskáp, og það kom því ekki til greina að kaupa einhverja ljóta vél! 😉  Mér finnst eitthvað svo fallegt retró útlit á henni. Jú og svo fékk nú kaffikallinn minn að segja eitthvað til um þetta líka. Hann veit meira en ég um þrýstinginn, mölunina og slíkt sem svona vélar eru með og þessi vél slapp líka í gegnum hans nálarauga.

IMG_5543

Við vorum satt best að segja áköf eins og lítil börn þegar vélin kom í hús!

IMG_5515

Elfar var svo spenntur að prófa kaffiið til, stilla mölunina og slíkt að hann drakka fjóra espresso bolla í röð og varð frekar ofvikur fyrir vikið þann daginn! 🙂

IMG_5551IMG_5547IMG_5548IMG_5573

Ég var auðvitað spenntust fyrir capuccino bollanum mínum. Þegar mjólk er flóuð fyrir cappuccino þá er langbest að nota G-mjólk. Munurinn á Cappuccino og Café latte er að í latte er mjólkin flóuð, engar loftbólur eiga að vera í drykknum og hlutfallið milli kaffisins og mjólkur er 1:4. En í Cappuccino er mjólkin freydd og hlutfallið er 1/3 kaffi, 1/3 heit mjólk og 1/3 mjólkurfroða. Þegar mjólkin er flóuð þarf að nota stálkönnu sem er fyllt einum þriðja og mikilvæg er að mjólkin sé köld, sumir kæla líka könnuna sjálfa. Gott er að halla könnunni til að fá sem mest yfirborð. Þegar mjólkin er flóuð fyrir latte þarf að gæta þess að ná góðri hringrás í mjólkina, án þess að hún myndi stórar loftbólur. Ekki má flóa mjólkina of lengi, hún á ekki að vera heitari en 65-75 gráður og hægt er að nota hitamæli til að vera nákvæmur.

IMG_5579IMG_5580IMG_5553IMG_5562IMG_5542

Dásamlega gott og þvílíkur lúxus að fá kaffihúsa-cappucino heima hjá sér .. eða eiginlega bolla sem er betri en á kaffihúsum!  Mér finnst svo gott að fá mér ristaða beyglu með kaffinu og um daginn bjó ég til eiginlega hættulega góða rjómaostahræru sem passar svo ákaflega vel ofan á ristaða beyglu, þið verðið bara að prófa!

IMG_5139

Uppskrift:

  • 200 g rjómaostur
  • ca. 6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt.
  • fersk basiliku blöð (gott að nota ca. helming af 30 g pakka)
  • ferskmalaður svartur pipar
  • salt

Sólþurrkuð tómatarnir saxaðir smátt og basilika er söxuð smátt. Þessu er hrært vel saman við rjómaostinn og smakkað til með salti og pipar. Borið fram t.d. með ristuðum beyglum .. og góðum cappuccino bolla! 😉

IMG_5170

6 hugrenningar um “Rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum & basilku og ný espresso vél

  1. Sæl, hvar keyptir þú vélina? Er sjálf í djúpum kaffivélapælingum. Og takk fyrir allar uppskriftirnar hjá þér, nota þær mikið. 🌹

  2. Við vinkonurnar hittumst í gær í hádeginu og allar komu með eitthvað með sér.
    Ég kom með þessa rjómaostahræru og fannst öllum hún mjög góð og börnunum líka 😊

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.