Þá er góðri helgi senn að ljúka. Ósk hélt tvítugsafmælispartý í gærkvöldi og við buðum upp á ýmsar veitingar sem ég mun setja inn uppskriftirnar að á næstunni. Á meðan partýinu stóð fórum við hjónin í matarklúbbinn okkar en í honum elda karlmennirnir og við konurnar njótum þriggja rétta máltíðar með viðeigandi drykkum. Frábær kvöld sem mættu vera svo mikið oftar! 🙂 Að þessu sinni gerði Elfar forréttinn og bauð upp á humarsúpu með hjálp frá Hrefnu Sætran. Hann keypti sem sagt tilbúna humarsúpu frá Hrefnu (fæst í matvöruverslunum), bragðbætti hana með humarkrafti og fleiru auk þess sem hann bætti við gómsætum humri, afbragðsgott!
Við eyddum þessum ljúfa sunndegi við tiltekt eftir afmælisveisluna og afslöppun á meðan hægeldaða lambið mallaði í ofninum. Núna erum við hjónin hins vegar á leiðinni út úr húsi í bíó sem mér finnst vera fullkominn endir á góðri helgi. Fyrst ætla ég þó að setja inn eina uppskrift hingað á síðuna.
Um daginn gerði ég þessa eftirréttabombu sem er svo ákaflega fljótlegt og auðvelt að útbúa og er ómótstæðilega góð!
Uppskrift f. 6
- 1 box kókosbollur (4 kókosbollur)
- 1 poki lakkrískurl hjúpað súkkulaði (150 g)
- 1 marengsbotn
- 1/2 líter rjómi
- 1 box jarðarber
- 1 box bláber
- önnur ber ef maður vill (t.d. hindber, rifsber, blæjuber og vínber)
- 100 g suðusúkkulaði (má sleppa)
Hver kókosbolla er skorin í þrjá bita og bitunum raðað ofan í eldfast mót.
Því næst er rjóminn þeyttur. Margengsbotninn er mulinn og blandað út í rjómann auk lakkrískurlsins. Þá er rjómanum dreift yfir kókosbollurnar.
Að lokum eru berin sett yfir rjómann. Gott er að bræða suðusúkkulaði og dreifa yfir berin rétt áður en rétturinn er borinn fram.
Sæl.
Notar þú tilbúinn botn eða býrð þú til sjálf?
Kv.
Eva
Ég nota oft tilbúinn botn nema þegar ég luma á heimagerðum í frystinum. Þegar ég á afgangs eggjahvítur bý ég til marengsbotn úr þeim og frysti – tilvalið til að nota í þennan rétt. 🙂
Takk takk 🙂
Var með konuboð um daginn þar sem að allar komu með eitthvað til að setja á borðið og ein í hópnum kom með Kókosbolludrauminn, þvílík unun að borða þennan desert 🙂 Mæli með honum fyrir allan peninginn.
En hvað það var frábært að heyra Elín, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Var með 25manns í útskriftarveislu i gær gerði þennan rétt 5 faldan og fólk hélt ekki vatni yfir honum alveg sjúklega góður, var svo að laumast í eina skeið áðan:) úúuúfff hvað hann er góður. Var svo með grillað lambalæri og gerði sveppasósuna þína 5 falda og fékk hún auðvitað mikið hrós plús kartöflugratínið þitt 3falt, hef gert það áður og er svo yndislega gott.
Maðurinn minn sem var að útskrifast sem viðskiptafræðingur var endalaust ánægður með matinn og auðvitað allir gestirnir líka, og þá er takmarkinu náð með smá hjálp frá þér 😉
Vá en æðislegt Halla Björk! Það er svo gaman að fá svona góðar kveðjur frá ykkur fjölskyldunni og „feedback“ á bloggið mitt, það gleður mig mikið. 🙂 Innilega til hamingju með eiginmanninn og bestu kveðjur til ykkar allra!
Sæl, hvað getur þú gert þennan rétt með skömmum fyrirvara? Bkv. Gg
Ég hef gert hann að morgni og borið fram að kvöldi. Það er örugglega hægt að gera hann sólarhring áður en þá myndi ég setja berin á skömmu áður en rétturinn er borinn fram.