Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

 • burritos eða tortillas pönnukökur
 • ólífuolía
 • maldon salt
 • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

 • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
 • 2 msk ólífuolía
 • 1 laukur, saxaður fínt
 • 4 gulrætur, skornar í litla bita
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 4 hvítlauksrif
 • 1.5 líter kjúklingasoð
 • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
 • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
 • 1 tsk broddakúmen (krydd)
 • 1 tsk kóríander (krydd)
 • salt og pipar
 • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
 • rifinn ostur
 • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363