Ég er búin að vera lengi á leiðinni að búa til fiskibollur. Heimatilbúnar fiskibollur með karrísósu er svo dásamlega góður matur. Í margumtalaða skemmtilega ræktarhópnum mínum í Heilsuborg (sem er besta heilsuræktarstöðin í bænum! ) var einmitt rætt um fiskibollur í gær. Það kemur svo sem ekkert á óvart þar sem við tölum mjög mikið um mat á meðan við æfum! Ein í hópnum sagðist hafa verið að leita að góðri uppskrift af fiskibollum á netinu, ég tók það auðvitað beint til mín og dreif mig í fiskibollugerðina! 😉 Mér finnst langbest að nota hefðbundna, gamla og góða fiskibollu uppskrift frá mömmu. Ég hélt kannski að þetta væri uppskrift upphaflega frá ömmu en svo var ekki. Mamma gróf upp uppskriftina sína til að kanna uppruna hennar, það kom í ljós að þetta er úrklippa úr Vísi frá árinu 1981. Þar gefur Kristín Andrésdóttir hústjórnarkennari þessa uppskrift af fiskibollum. Reyndar ber hún þær fram með steiktum lauk og brúnni sósu en á okkar heimili er karrísósan vinsælust. Þessi uppskrift af karrísósu er sænsk, hún er rosalega góð og afar auðveld. Það tekur jafnlanga stund að laga þessa sósu eins og að búa til pakkasósu en hún er svo margfalt betri! Mér finnst bæði gott að hafa kartöflur og hrísgrjón með réttinum en vel oftar hrísgrjón því þau fara svo vel með sósunni.
Ég á ekki hakkavél á hrærivélina mína og notaði þvi bara matvinnsluvélina til að búa til deigið í bollurnar. Fiskibollurnar verða þéttari þannig, mér finnst þær betri ef notuð er hakkavél en það er ekkert sem kemur að sök samt. Ég gef upp stóra uppskrift, mér finnst ekki taka því að búa bara til nokkrar bollur, best er að búa til eins stóran skammt og maður nennir og frysta afganginn. Frábært að geta gripið í fiskibollur úr frystinum. Þessi uppskrift gaf 22 fiskibollur, þær voru líklega í stærri kantinum.
Uppskrift:
- 1.2 kíló ýsa eða þorskur (ég notaði þorsk)
- 2 tsk salt
- dálítill pipar
- 4 msk hveiti
- 3 msk kartöflumjöl
- 2 egg
- 1 laukur
- ca 4 dl mjólk
- smjör til steikingar
Fiskurinn hakkaður ásamt lauknum. Hveiti, karöflumjöli, salti, pipar og eggjum bætt út í fiskhakkið. Að lokum er mjólkinni bætt út í. Bollur mótaðar og þær steiktar upp úr smjörinu á pönnu. Þegar fiskibollurnar hafa náð góðum lit set ég þær í eldfast mót í ofn í við ca. 170 gráður á meðan ég bý til karrísósuna.
Karrísósa:
- 3 msk smjör
- 1 tsk karrí
- 3 msk hveiti
- ca. 4.5 dl vökvi (hægt að nota vatn, mjólk eða rjóma), ég notaði 1 dl matargerðarrjóma og restina léttmjólk.
- 1 tsk eða teningur hænsnakraftur
Smjörið brætt og karrí bætt út í og það steikt í smjörinu í stutta stund. Hveitinu bætt út í og blandan pískuð á fremur háum hita þar til hún verður þykk. Þá er vökvanum bætt út í og á meðan er hrært stöðugt í sósunni með písk. Þá er hænsnakraftinum bætt út í. Sósan látin malla í 3-5 mínútur.
Þakklæti er mér efst í huga, kvöldmaturinn rann ljúft ofan í alla 🙂
Frábært að heyra! 🙂
Fiskibollur og karrísósa er eitt það besta sem ég fæ!, þegar ég geri karrísósu með mínum fiskibollum nota ég kókosmjólk í staðinn fyrir rjóma og mjólk, það er aðeins hollara, kannski ekki fyrir alla, en mér finnst það mjög gott.
Þessi síða er annars yndislega síða að öllu leiti Dröfn! 🙂
Kókosmjólk í karrísósuna hljómar vel Freyja Sjöfn! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Ljómandi bollur og sósan passar vel með þeim. Takk fyrir að deila þessu.
Það var lítið Sveinn, gott að ykkur líkaði uppskriftin! 🙂
Bakvísun: Gratíneraður plokkfiskur | Eldhússögur
Dásamlega gott !! 🙂
Æðislegt, það gleður mig! 🙂
Fysta tilraun í að gera fiskibollur með karrý sósu og rakst á þessa uppskrift:), Rosa góðar bollur og sósan mjög góð með :), takk fyrir mig!
Gaman að heyra það Lýdía! Takk fyrir kveðjuna! 🙂
hvað hafðir þú þær lengi í ofninum ?
Ekkert lengi, bara á meðan ég bjó til sósuna, ca. 10 mínútur kannski.
Sló í gegn. Mjög gott bæði bollur og sósan 🙂
Frábært að heyra það Rannveig, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Sæl. Hvaða karrý notar þú? Var með karrý frá Pottagöldrum og þrefaldaði magnið, en fannst sósan bragðlítil hjá mér.
Ég nota líka frá Pottagöldrum.
Bakvísun: uppskriftir | ghafdis
Ætla að prófa þetta í kvöld … en var að hugsa hvort þú frystir bollurnar hráar eða eftir að hafa steikt þær ?
Frystu þær steiktar Helga! 🙂
Sæl, hvernig er best að haga þessu ef manni langar að gera eitthvað magn af þessu og frysta? Er það ekki í lagi ?
Jú ekkert mál. Bara pakka þeim vel inn, fiskibollur henta vel til að frysta.
Takk fyrir svarið. Myndi ég ekki elda þær fyrst og frysta svo ?
Jú, elda þær fyrst.
Gjörsamlega besta karrysósa í heimi.