Ég gat ekki staðist mátið að prófa þessa köku eftir að ég sá hana á netinu. Tvennt fannst mér afar spennandi, annað var skemmtilegt útlit kökunnar og hitt var að í henni var kók! Ég hef aldrei bakað úr kóki áður þó ég sé nú hrifin af þeim drykk! 🙂 Þetta er í raun tilbrigði við hefðbundna marmaraköku, bara mikið flottari, mýkri og bragðbetri kaka. Ég var nú ekki viss um að ná sebraútlitinu, hélt að það væri kannski afskaplega erfitt. Annað kom þó á daginn, þetta var ægilega auðvelt og skemmtilegt. Jóhönnu Ingu fannst afar gaman að fylgjast með gerð kökunnar og það var hún sem tók myndirnar þegar ég var að setja deigið í kökuformið. Ég notaði svona nestispoka frá Íkea sem hægt er að loka til þess að sprauta deiginu. Smellan helst vel lokuð og pokarnir eru þykkir, það er því lítil hætta á því að deigið fari út um allt. Mikilvægt er að klippa bara örlítið gat á eitt hornið til þess að deigið renni ekki alltof hratt, maður vill geta haft góða stjórn á því. Ég setti til skiptis ljóst og dökkt deig frekar þétt, það er líka hægt að hafa breiðari renndur, setja þá meira af deigi í hverjum skammti. Það kemur líka mjög flott út. Þetta er virkilega góð kaka, það gerir hana afar safaríka að nota kók en það er líka hægt að nota sódavatn til að ná sömu eiginleikum fyrir þá sem ekki vilja nota kók.
Uppskrift:
- 5½ dl hveiti + 3 msk
- 3 msk kakó
- 3 dl sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 2 tsk lyftiduft
- 4 stór egg
- 2 dl matarolía, (ekki ólífuolía)
- 2 dl kók eða sódavatn
Ofninn er stilltur á 160 gráður á blæstri eða 180 gráður á undir og yfirhita. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Vanillusykri bætt út í. Hveiti og lyftidufti sigtað út í og blandað við deigið. Því næst er matarolíunni hellt út í og þá gosdrykknum. Deiginu er skipt jafnt í tvær skálar. Í aðra þeirra er kakói sigtað út í og blandað saman við deigið með sleikju. Út í hina skálina er þremur matskeiðum af hveiti sigtað út í og blandað við deigið með sleikju. Kringlótt smelluform eða silikonform er smurt að innan (ca. 24 cm). Blöndurnar eru settar í sitt hvorn pokann og þeim lokað vel, örlítið gat er klippt á annað hornið á báðum pokunum. Smávegis af ljósa deiginu er sprautað á miðjuna á botn kökuformsins, því næst er dökka deiginu sprautað ofan í það ljósa. Þannig er haldið áfram koll af kolli þar til báðar blöndurnar eru búnar. Miðjan mun færast til út í kantana á bökunarforminu, það er allt í lagi. Það er örugglega líka hægt að hella bara úr skálunum beint í formið en þá eru kannski meiri líkur á því að litirnir blandist ekki alveg eins og maður vill, erfiðara að hafa stjórn á bununum. Bakað við 160 gráður á blæstri (180 gráður undir/yfir hita) í 40-45 mínútur.
Flott! En ég er að velta því fyrir mér hvað sé hægt að nota í staðinn fyrir gos? 🙂
Frábær síða!
Takk Alda! 🙂 Í staðinn fyrir kók er hægt að nota sódavatn. Í stað sódavatns er hægt að nota mjólk.
Þessi er ansi spennandi, ég mun prófa hana við tækifæri.
Gaman að heyra Inger! 🙂
Æðisleg síða hjá þér, margt sem ég hlakka til að prófa 🙂
Þakka þér fyrir Berglind, vonandi líkar þér það sem þú prófar! 🙂
Þessi er æði ég prófaði hana 🙂
Frábært Lilja Dröfn, gaman að þú skulir hafa prófað að baka kökuna! 🙂
Það er kökubasar í skóla dótturinnar á morgun og ég er með þessa í ofninum. Kom mér líka á óvart hvað það er auðvelt að gera hana. Vona að hún bakist vel en eflaust fæ ég ekki að smakka hana sjálf í þetta sinn 🙂 Geri hana bara aftur seinna.
Gaman að heyra! Þessi á eftir að seljast eins og skot! 🙂 Þú verður að leggja fljótt í aðra til að smakka sjálf. 🙂
Kæra Dröfn,
Frábær uppskrift, meiriháttar kaka! Dáist að dugnaði þínum og eljusemi við að setja inn ferskar og spennandi uppskrifitr. 1000 þakkir!
Kærar þakkir Guðný fyrir fallega kveðju, hún gleður mig! 🙂
Bakvísun: Þorskhnakkar i miðjarðarhafssósu | Eldhússögur
Hæ, vildi bara koma með ábendingu, var að prófa þessa og setti bara með til skiptis eina matskeið af hvoru degi. Kom mjög vel út og ekkert vesen. Annars bara þakka ég fyrir þetta blogg ég kíki reglulega hérna inn og get ekki beðið eftir að prófa meira.
Kveðja, Anna Pála
Góð ábending Anna Pála, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Hef bakað þessa í nokkur skipti, bætti nýlega í súkkulaði degið 1/2 tesk ka il og börk af appelsínu. Báðar uppskriftir koma vel út en aððelsínu bragðið er alltaf svo gott. Takk fyrir frábæra síðu, það er yndi að fylgja þér
Gaman að heyra Sigríður, takk fyrir góða kveðju! 🙂