Laxaborgarar með mangósósu og sætum frönskum kartöflum


Fyrir löngu síðan fór ég með nokkrum frábærum stelpum úr líkamsræktarhópnum mínum í kraftgöngu vestur á Seltjarnarnes sem endaði svo með notalegri máltíð á Nauthól. Þá voru þeir með á matseðlinum gómsæta laxaborgara með ,,sætkartöflufrönskum“! Þetta var svo ljúffengur matur að ég hef oft hugsað um að endurgera réttinn heima og lét loksins verða af því í kvöld. Namm namm … þetta var svo gott! Meira að segja krakkarnir elskuðu þennan rétt. Það er mjög fljótgert að búa til borgarana, ég setti bara allt hráefnið í matvinnsluvél. En ef maður vill grófari borgara er hægt að mauka hráefnið saman með gaffli. Ég las mér til í sænskri uppskriftabók að það væri mikið betra að sjóða laxinn örstutt áður en búnir eru til borgarar úr þeim, þannig héldust þeir safaríkari. Ég gerði það og borgararnir voru afar safaríkir en ég hef svo sem ekkert viðmið. Ég bar laxaborgarana fram í hamborgarabrauði en þess þarf ekkert endilega. Það er líka gott að bera þá fram með grænmeti, sósu og sætkartöflufrönskum og þá er hægt að kalla þetta laxabuff! Sósan var rosalega góð, ég notaði blöndu af frosnu og fersku mangói en það er hægt að nota bara annað hvort. Þessa sósu er örugglega gott að nota líka með til dæmis grilluðum kjúklingi. En laxaborgararnir og meðlæti er ofsalega ferskur og bragðgóður réttur, mæli með honum!

Laxaborgarar (ca 5-6 borgarar, fer eftir stærð):

  • 1 kíló laxaflök
  • 1/2 – 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 dl brauðmylsna
  • 2 egg
  • 1 tsk Sambal Oelek (chilimauk) eða 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað smátt (meira ef maður vill sterka borgara)
  • 1 dl ferskt kóríander, saxað (hægt að nota steinselju í staðinn)
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • börkur af einni límónu (lime), gróft rifinn
  • salt og pipar

Aðferð:

Léttsaltað vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Laxinn soðinn í ca. 4 mínútur, síðan er hann veiddur upp úr og roðið tekið af. Öll hráefnin í borgarana sett í matvinnsluvél og keyrt þar til blandan er maukuð saman, ekki of lengi samt, best er að hafa hráefnið í borgarana gróft og ef hráefnið er hrært of lengi geta þeir orðið seigir. Það má líka píska hráefnin saman með gaffli, þá verða borgararnir grófari. Olía og smá smjör sett á pönnu og borgararnir steiktir í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Borið fram með laxaborgurunum:

  • hamborgarabrauð
  • klettasalat
  • salat
  • gúrka
  • tómatar
  • avókadó
  • mangósósa
  • sætar franskar kartöflur

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (hægt að nýta límónuna úr laxaborgara uppskriftinni)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Sætar franskar kartöflur:

Sætar kartöflur skornar í aflangar sneiðar eins og franskar kartöflur. Þeim er svo velt upp úr ólífuolíu, maldon salti, grófum pipar og góðri kryddjurtablöndu, til dæmis Best á allt frá Pottagöldrum. Kartöflurnar bakaðar við 220 gráður í ca. 30 mínútur.

6 hugrenningar um “Laxaborgarar með mangósósu og sætum frönskum kartöflum

  1. Bakvísun: Ofnbökuð svínalund með beikoni og sveppum | Eldhússögur

  2. Bakvísun: KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu | Eldhússögur

    • Þar sem að kartöflurnar eru bakaðar í ofni en ekki djúpsteiktar þá verða þær fremur mjúkar en fá samt á sig stökka húð.

  3. Bakvísun: Laxabuff með ferskum kryddjurtum, tómatakúskús og avókadó/chilisósu | Eldhússögur

  4. Bakvísun: Laxaborgarar meA� mangA?sA?su og sA�tum kartA�flum | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.