Gratíneraður plokkfiskur


PlokkfiskurÁ meðan langri búsetu okkar fjölskyldunar stóð erlendis, kveiknaði oft nostalgísk löngun í íslenskan mat. Ég steikti kleinur, bakaði rúllutertur, bjó til kjötsúpu, fiskibollur og aðra íslenska matrétti um leið og tækifæri gafst. Það var þegar vinir og ættingjar komu í heimsókn með fullar töskur af matvörum af Fróni, matvörur sem maður kaupir alla jafna ekkert endilega mikið af þegar maður býr á Íslandi. Ísskápurinn okkar er að minnsta kosti í dag sjaldan fylltur af flatkökum, hangikjöti, palmín feiti og pítusósu! 🙂 En ennþá hellist samt yfir mig löngun í gamaldags íslenskan mat öðru hvoru. Um daginn voru það fiskibollur, í dag var það plokkfiskur. Mér finnst plokkfiskur agalega góður en bý hann ekki oft til, þyrfti eiginlega að gera hann oftar. Sumir færa plokkfisk í nútímabúning með t.d. hvítlauk, bearnise sósu, krydda með karrí eða öðrum nýjungum. Mér finnst hann bestur hefbundinn eins og maður fékk hann hjá mömmu. Ég hef bara breytt einu, ég set hann inn í ofn með osti. Glænýtt rúgbrauð er bráðnauðsynlegt með plokkfisknum og ekki bara hvaða rúgbrauð sem er. Það þarf að vera rúgbrauð frá Kökugerð HP, það er langbest!

Uppskrift fyrir ca 3:

 • 1/2 laukur, smátt saxaður
 • 50 gr smjör
 • 1/2 -1 dl hveiti
 • 500 gr kartöflur, soðnar
 • 500 gr þorskur eða ýsa, soðinn
 • ca 4 dl mjólk og fiskisoð
 • rifinn ostur
 • salt
 • pipar
 • Nóg af rúgbrauði og smjöri!

img_0546Ofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur soðnar, að því loknu eruð þær flysjaðar. Vatn soðið í stórum potti, salti og pipar (svartur) bætt út í þegar suðan kemur upp. Þá er fisknum bætt út í vatnið, lok sett yfir og potturinn tekinn af hellunni. Fiskurinn veiddur upp úr eftir 5-6 mínútur. Soðið geymt. Smjör og laukur sett í pott og látið malla í smá stund, salt og pipar bætt út í. Hveiti hrært saman við  og þynnt með mjólk og fiskisoði (ég nota ca. 1/3 fiskisoð, 2/3 mjólk).  Þegar jafningurinn er hæfilega þykkur er fisk og kartöflum bætt út í (líka hægt að bera kartöflurnar fram sér og sleppa því að bæta þeim út í plokkfiskinn) og hrært lauslega saman. Kryddað með salti og vel af hvítum pipar. Á þessum tímapunkti er hægt að bera fram plokkfiskinn en það er gott að baka hann í smástund í ofni með rifnum osti. Þá er plokkfisknum hellt í eldfast mót og rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni þar til osturinn hefur bráðnað, í ca. 15 mínútur. Borið fram með rúgbrauði og smjöri. img_0512

8 hugrenningar um “Gratíneraður plokkfiskur

 1. Mmmmm…var að prófa þennan, héðan í frá verður eingöngu heimatilbúinn plokkfiskur á mínu heimili 🙂

 2. sæl Dröfn
  eg geri alveg eins plokkfisk en eg set karry ut i laukinn aukalega, það er rosalega gott. kveðja ur sveitinni.

 3. Fyrsta skipti sem við gerum plokkfisk sjálf og tók svona frábærlega, takk fyrir mig 😉

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.