Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese


Hakkpanna með eggjumÉg hef tekið eftir því að á hverjum einasta sunnudegi eru mest skoðuðu uppskriftirnar á Eldhússögum hægeldaða lambalærið og pönnukökurnar hennar ömmu. Augljóslega eru hefðirnar sterkar hjá mörgum, pönnukökur í sunnudagskaffinu og svo lambalæri í sunnudagsmatinn. 🙂 Enda getur sunnudagurinn ekki klikkað með svona góðum mat.

Í dag set ég hins vegar inn ótrúlega fljótlega og auðvelda uppskrift með nautahakki. Hún byggist á ítalskri fyrirmynd, „Uova al Purgatorio“ en það er réttur þar sem egg eru soðin á pönnu í tómatsósu. Ekki nóg með það heldur reyndi ég að gefa uppskriftinni ítalskan titil þrátt fyrir að ég kunni ekki stakt orð í ítölsku – jamm, hér er metnaður á ferðinni skal ég segja ykkur! 😉 Ég bætti sem sagt nautahakki við þessa klassísku ítölsku uppskrift og úr varð dýrindismáltíð á örskömmum tíma. Þessi uppskrift passar afar vel við LKL (lágkolvetna lífstílinn) en fyrir okkur hin á kolvetnakúrnum þá er dásamlega gott að borða með réttinum gott nýbakað brauð. Mér finnst eiginlega enn betra að rista brauðið með réttinum.

Hakkpanna með eggjum

Uppskrift:

 • 1 stór laukur, saxaður smátt
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 100 g sveppir, saxaðir smátt
 • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
 • ca 900 g nautahakk
 • salt & pipar
 • chiliflögur eða duft
 • góð ítölsk kryddblanda (ég notaði Best á allt frá Pottagöldrum)
 • 1 tsk nautakraftur
 • 2 dósir tómatar í dós (400 g dósin – ég notaði tómata með chili)
 • 6-8 egg
 • ferskur parmesan ostur, rifinn
 • ferskar kryddjurtir, t.d. basilika eða flatblaða steinselja, saxað

IMG_0717

Laukur, hvítlaukur og sveppir steikt á pönnu. Þegar laukurinn hefur mýkst og sveppirnir tekið lit er hakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Kryddað með salti, pipar, chili, ítölsku kryddi og nautakrafti. Þegar hakkið er steikt er tómötunum bætt út á pönnuna og látið malla í um það bil 5 mínútur, hrært í öðru hvoru. Þá eru gerðar litlar holur í hakkið hér og þar og eitt egg sett í hverja holu. Hitinn er lækkaður og allt látið malla í ca. 5-8 mínútur undir loki. Áður en hakkpannan er borinn fram er stráð vel yfir af grófmöluðum svörtum pipar, parmesan osti og ferskum kryddjurtum. Borið fram með auka rifnum parmesan osti og nýju góðu brauði eða ristuðu brauði.
IMG_0681IMG_0708