Fljótlegt fimmkornabrauð


Þetta brauð er afar fljótlegt þar sem það þarf bara að hefa sig í 10-15 mínútur. Þetta er því upplagt brauð til að hafa með kvöldmatnum án þess að baksturinn krefjist mikillar skipulagningar eða tíma. Ég hnoða það ekkert með höndunum, læt það bara hnoðast í Kitchen Aid. Ég hef deigið líka það blautt að ég get lítið mótað það, helli því bara á ofnplötuna! Sem sagt afar fljótlegt en gott brauð. Í upphaflegu uppskriftinni er bara heilhveiti og hveiti, ég bætti við fimmkornablöndu. En það er líka hægt að sleppa henni. Eins er hægt að hafa bara hveiti, þá er komið voða gott hvítt brauð en auðvitað ekki eins hollt.


Fimmkornabrauð

  • 1 dl. fimmkornablanda
  • 5 dl. heilhveiti
  • 3 dl. hveiti
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk. salt
  • 3 tsk. sykur
  • 4½ dl. volgt vatn
  • 3/4 dl. matarolía

Aðferð:

1. Mælið vatn, olíu, þurrger og sykur og hrærið saman, látið bíða í 10 mín
2. Bætið þurrefnum út í og hnoðið (ég gerði það með hnoðara í hrærivél).
3. Látið deigið hefast í 10-15 mínútur (má auðvitað hefast lengur ef það er tími til þess)
4. Hnoðið deigið vel saman og setjið á ofnplötu.
5.Penslið brauðið með vatni (ég bætti við sesamfræum).
6. Bakið brauðið í 10-15 mínútur við 200 gráður.