Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingur í osta- og tómatsósu


IMG_8389Kjúklingur er eitt af mínum uppáhaldshráefnum. Það er svo ótrúlega margt gott hægt að gera úr kjúklingi. Um daginn bjó ég til þennan rétt, Cacciatore kjúklingarétt, sem við vorum öll svo hrifin af. Núna gerði ég aðra útfærslu af svipuðum rétti. Að þessu sinni var papriku bætt út í tómatsósuna ásamt fersku chili. Auk þess er í réttinum ostasósa sem fór ákaflega vel með heimatilbúnu tómatsósunni. Þetta er einfaldur og ljúffengur réttur.

Uppskrift:

  • 800 g kjúklingabringur
  • kjúklingakrydd
  • smjör og/eða olía til steikningar

Tómatsósa:

  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 3 msk tómatpúrra
  • ½ gul paprika eða 1 lítil
  • ½ rauð paprika eða 1 lítil
  • ½ rautt chili, ferskt
  • 3 hvítlauksrif
  • salt & pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g rifinn ostur (bragðmikill)
  • salt & pipar

Að auki:

  • 2 st skarlottulaukar, saxaðir fínt
  • 1-2 dl kasjúhnetur (má sleppa)
  • 30 g fersk basilika, söxuð gróft

IMG_8382

Ofninn stilltur á 225 gráður undir/yfir hita.

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi. Þá er hann snöggsteiktur á pönnu í stutta stund (ekki eldaður í gegn heldur bara látinn taka smá lit). Kjúklingurinn er svo settur í eldfast mót, pannan er ekki þvegin. Því næst er paprikan skorin í bita, chili er fræhreinsað og saxað auk þess sem hvítlaukurinn er saxaður. Allt er sett í matvinnsluvél ásamt tómötunum og keyrt í ca. 10 sekúndur. Þá er tómatsósunni hellt á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á og henni leyft að malla á meðalhita í ca. 10 mínútur. Í lok tímans er 2/3 af basilikunni bætt út í tómatsósuna.

Á meðan tómatsósan mallar er ostasósan búin til. Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts. Osti bætt út í og allt hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með salti og pipar.

Þá er tómatsósunni hellt yfir kjúklingabitana og svo er ostasósunni hellt yfir tómatsósuna. Að lokum er skarlottulauknum og kasjúhnetunum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Restinni af basilikunni dreift yfir réttinn og hann borinn fram með til dæmis hrísgrjónum, kúskúsi eða pasta og fersku salati.

IMG_8384

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 
1 egg, hrært
  • 
1 1/2 dl brauðmylsna
  • ca 100 g sesamfræ
  • salt & svartur grófmalaður pipar
  • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

  • kartöflur
  • brauðmylsna
  • ólífuolía
  • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk smjör
  • 1/2 msk rósapipar, mulinn
  • 400 ml kjúklingasoð
  • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

  • burritos eða tortillas pönnukökur
  • ólífuolía
  • maldon salt
  • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 4 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 4 hvítlauksrif
  • 1.5 líter kjúklingasoð
  • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
  • 1 tsk broddakúmen (krydd)
  • 1 tsk kóríander (krydd)
  • salt og pipar
  • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090