Í dag fórum við í fermingarveislu til dóttur Önnu æskuvinkonu minnar, hennar Önnu Daggar.
Ég útbjó kjúkling fyrir veisluna og notaði uppskrift sem birtist frá mér í fermingarblaði Fréttatímans nýverið. Í þeirri uppskrift þræddi ég kjúklinginn upp á spjót og grillaði þau.
Fyrir fermingarveisluna í dag hafði ég bitana staka og eldaði þá í ofni. Svo voru bitarnir bornir fram stakir með pinnum í og heit sósan til að dýfa þeim í. Hafa ber í huga að þegar þessi uppskrift er margfölduð þá þarf ekki að margfalda magnið á sósunni jafnmikið. Til dæmis gerði ég fjórfalda sósuuppskrift (og hefði getað haft þrefalda) fyrir veisluna í dag en sjöfaldaði magnið af kjúklingnum. Ég notaði sem sagt sex kíló af kjúklingbringum frá Rose Poultry sem gaf mér um það bil 320 fremur stóra bita.
Veislan í dag var frábær, góðar veitingar og fallega skreyttur salurinn. Fermingarstúlkan, Anna Dögg, er bæði í handbolta og skátum og þau áhugamál hennar komu inn sem þema í veisluna. Hún er líka búin að vera í myndlistaskóla og eftir hana liggja mörg leirlistaverk sem skreyttu gestaborðin.
Það var mjög sniðugt að Anna Dögg valdi sér og pantaði m&m frá Bandaríkjunum í sérstökum litum með áritunum. Það kom skemmtilega út og Rice krispies kransakakan var skreytt með því. Hér er hægt að panta svona skemmtileg M&M en ég held að þeir sendi ekki til Íslands, Anna lét senda þetta til ættingja sinna sem búa í Bandaríkjunum (tók ca. 1 viku).
Anna vinkona hefur verið ótrúlega öflug í gegnum tíðina að búa til minningabækur fyrir börnin sín. Ég held að fáir komist með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum! 🙂
En hér er uppskriftin af gómsæta kjúklingnum.
Uppskrift (um það bil 14 grillspjót með 4-5 bitum hvert):
- 4 msk Huntz tómatpúrra
- 4 msk púðursykur
- 4 msk Blue Dragon sojasósa
- 2 tsk cumin (krydd)
- 2 tsk saxað kóríander í krukku frá Blue Dragon
- 4 msk Blue Dragon sweet chilli sósa
- 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
- 1 dós Blue Dragon kókosmjólk (400 ml)
- 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry
- grillspjót (tréspjót þarf að leggja í bleyti í 30 mínútur fyrir notkun)
Öllum hráefnunum í sósuna, fyrir utan hvítlauk og kókosmjólk, er blandað saman í pott. Á meðan suðan kemur upp er hrært stöðugt í blöndunni þar til púðursykurinn er búinn að leysast upp. Þá er hvítlauknum og kókosmjólkinni bætt út pottinn og sósan látin ná suðu. Því næst er potturinn tekinn af hellunni og sósan látin kólna.
Kjúklingabringurnar eru skornar niður í hæfilega stóra bita. Kjúklingabitunum er blandað saman við tæplega helminginn eða 2/3 af sósunni og sett í kæli í nokkrar klukkustundir, helst yfir nóttu. Kjúklingabitarnir eru því næst þræddir upp á grillspjót og þau grilluð við meðalháan hita í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjötið er grillað í gegn – tíminn er breytilegur eftir grillum. Það er líka hægt að grilla kjúklingaspjótin í bakarofni við 225 gráður. Spjótin eru borin fram heit eða köld með restinni af heitri sósunni.