Focaccia með hvítlauk og basiliku


IMG_6084Frábær helgi er að baki þar sem við nutum afar ljúffengs matar alla helgina. Eftir góða törn í garðvinnu á laugardaginn enduðum við úti að borða um kvöldið á Sjávargrillinu með góðum vinum. Þar fengum við dásamlega góðan mat í afar huggulegu umhverfi, ég mæli með þessum stað! 🙂 Í gær vorum við systkinin og fjölskyldur öll í mat hjá foreldrum mínum þar sem allir lögðu til eitthvað gott á kvöldverðaborðið. Ég gerði eftirrétt sem sló í gegn og fer því örugglega á bloggið við fyrsta tækifæri. Þessa ljúfu helgi enduðum við hjónin á bíóferð í gærkvöldi, sáum Edge of tomorrow og fannst hún stórgóð.

Um daginn bakaði ég ákaflega gott focaccia brauð og bauð stelpunum í saumaklúbbnum mínum. Mér finnst foccacia brauð svo góð og skemmtleg að baka. Bæði eru þau afar einföld og svo er hægt að gera svo mörg tilbrigði af brauðinu. Að þessu sinni gerði ég hvítlauks focaccia með ferskri basilku, dásamlega bragðgott brauð sem bragðast best nýbakað og volgt.

Uppskrift:

  • 1 pakki þurrger Kornax hveiti - blátt
  • 5 dl volgt vatn
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk salt
  • ca. 12 dl Kornax brauðhveiti (í bláu pökkunum)

Fylling:

  • 1 dl ólífuolía
  • 1 box (30 g) basilika, blöðin notuð
  • 2 stór hvítlauksrif, saxaður mjög fínt
  • 1/2 sítróna, skoluð vel og hýðið rifið fínt
  • maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar

Þurrgerið er hrært út í vatnið ásamt sykri, salti og ólífuolíu. Hveitinu er því næst bætt út í og deigið hnoðað í hrærivél eða í höndunum þar till það verður slétt og sprungulaust. Þá er deigið látið hefast undir viskastykki þar til það hefur tvöfaldast eða í um það bil 45-60 mínútur. Því næst er ofnskúffa smurð mjög vel með olíu, deigið sett í skúffuna og því þrýst jafnt út í alla kanta. Viskastykki lagt yfir og látið hefast í um það bil 30 mínútur. Á meðan er ofn hitaður í 250 gráður og fyllingin undirbúin.

Fylling:  Ólífuolíu og basiliku er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Því næst er hvítlauk og sítrónuhýði bætt út í. Smakkað til með salti og pipar.

IMG_6075

Þegar brauðið hefur lyft sér er fingri stungið í deigið og myndaðar holur hér og þar. Fyllingunni er dreift jafnt yfir allt brauðið og bakað í miðjum ofni við 250°C í ca. 15 mínútur eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt.

IMG_6085IMG_6092

Hvítlauksbrauð Ínu


IMG_7329Ég hef sagt frá því áður hvað mér finnst gaman að horfa á Food Network og ég haldi mest upp á þáttinn Barefood Contessa. Þar er Ina Garten við völd með frábærar uppskriftir. Ég fór að hugsa það um daginn að þó hún hafi veitt mér ýmisskonar innblástur þá hef ég ekki beint prófað uppskriftirnar hennar. Ég fór því á stúfana að skoða uppskriftirnar hennar Ínu. Ég á engar uppskriftabækur eftir hana en það kemur ekki að sök þar sem þær eru örugglega allar á netinu. Netið er algjör himnasending þegar kemur að uppskriftum (og öllu öðru!)! Ég var með gómsætan lax í matinn og fann uppskrift af girnilegu hvítlauksbrauði frá Ínu sem ég sá í hendi mér að myndi smellpassa með laxinum. Þetta er svolítið svindl brauð því það er ekki ekki heimabakað en svakalega er það gott! Það er auðvitað líka bara himnasending að fá svona gott brauð með hér um bil engri fyrirhöfn. Í uppskrift Ínu mælir hún með því að nota Ciabatta brauð. Ég keypti hins vegar birkibrauð sem kom afar vel út því það er með stökkum hjúp og er mjúkt og ljóst að innan. Ég mæli svo mikið með þessu hvítlauksbrauði sjóðandi heitu og ljúffengu með einhverjum góðum matrétti!

IMG_7317

Uppskrift:

  • 6 hvítlauksrif, söxuð
  • 30 g steinselja (ítölsk, þessi með flötu blöðunum)
  • 30 g oregano blöð (bergmynta) ég notaði kóríander í staðinn og það kom vel út
  • 1/2 tsk maldon salt salt (ég notaði líka Parmesan/basil saltið sem mér áskotnaðist í jólagjafapakkarugli í saumó – takk Laufey!)
  • svartur nýmalaður pipar
  • 40 g ólífuolía
  • 1 brauðhleifur, t.d. ciabatta brauð (hér notaði ég birkibrauð)
  • 1 1/2 tsk mjúkt smjör

IMG_7314

Bakarofn hitaður í 160 gráður. Hvítlaukurinn settur í matvinnsluvél þar til hann er fínhakkaður. Þá er oreganoblöðum, steinseljublöðum, salti og pipar bætt út í og vélin látin ganga nokkrum sinnum þar til þau eru grófhökkuð. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að fínhakka allt með hníf.

Olían hituð á pönnu við meðalhita og lauk/kryddjurtablöndunni bætt út, steikt í örstutta stund á vægum hita og svo er pannan tekin af hellunni. Brauðið er skorið langsum og smjörinu smurt á neðri helminginn. Þá er blöndunni á pönnunni dreift yfir neðri helming brauðsins. Mér fannst reyndar gott að smyrja blöndunni á báða helminga brauðsins, þá er jafnvel hægt að bera það fram í tveimur helmingum í stað þess að vera lagt saman. Því næst er brauðið lagt saman, því pakkað inn í álpappír og það hitað í ofni við 160 gráður í 5 mínútur. Þá er álpappírinn tekin af brauðinu og það bakað í 7-10 mínútur til viðbótar.

IMG_7321