Ananas-salsa með myntu og chili og Eldhússögur á Instagram


IMG_8883

Í gær kom Elfar aftur heim frá Svíþjóð. Hann kom ekki tómhentur heim því ég fékk blóm og afmælisgjöf! Ég á samt ekki afmæli fyrr en eftir nokkra daga en hann var spenntur eins og lítið barn og gat ekki beðið með að gefa mér gjöfina! 🙂 Ég er sem sagt orðin Iphone eigandi!  Ég hef alltaf sagt að Iphone sé óþarfi, ég þurfi ekkert slíkt tæki. Elfar var ekki samþykkur því og sagði að nýútskrifaður upplýsingafræðingur þyrfti að eiga Iphone! Ósk var honum innilega sammála, sjálfri fannst henni afar lífsbætandi að eignast Iphone! 🙂 Ég verð nú eiginlega að vera sammála þeim feðginum eftir að hafa fiktað við Iphone-símann minn í dag, þetta er ansi sniðugt tæki! Núna eru Eldhússögur komnar á Instagram eins og öll almennileg blogg og ég get loksins farið að fylgjast með bloggunum sem ég les á Instagram! Spennandi! Ykkur er velkomið að fylgjast með mér á Instagram, þið finnið mig undir eldhussogur.

Ég er svo leið yfir því að finna ekki uppskriftina af eplakökunni sem ég bakaði um daginn. Ég er búin að leita og leita! Hún var voða góð og fór strax í uppáhald hjá Jóhönnu Ingu sem elskar eplakökur. Svo virðist sem kakan verði bara að lifa í minningunni og á myndum!

IMG_8539Þegar ég var með útskriftaveisluna mína um daginn var einn rétturinn hjá Marentzu einhverskonar ananas-salsa sem var svo gott.

IMG_8214Ég sá í hendi mér að þetta salsa væri gott með allskonar súkkulaðikökum, súkkulaðifrauði, vöfflum, ís og öðru góðu gúmmelaði eða bara eitt og sér. Ég prófaði sjálf að búa til ananas-salsa og bjó til eftirfarandi uppskrif. Magnið metur maður bara sjálfur, fer eftir því hvaða bragð maður vill að sé ríkjandi.

  • ferskur ananas skorin í bita
  • rautt chili, saxað smátt
  • fersk mynta, söxuð smátt
  • limesafi
  • hunang (má sleppa)

Öllu blandað saman og látið bíða í ísskáp í minnst 20 mínútur áður en salsað er borið fram. Borið fram með súkkulaðikökum, ís, grilluðu ljósu kjöti eða fisk. Ég held hreinlega að þetta passi vel með ansi mörgu! 🙂

IMG_8869