Pavlova með marsípani


Pavlova með marsípaniPavlova með marsípani

IMG_1287

Þann 4. júlí varð Vilhjálmur Jón okkar 13 ára! Eins og lög gera ráð fyrir á okkar heimili er afmælisbarnið (táningurinn!) vakið með köku, pökkum og söng og fær síðan að velja kvöldmatinn.

IMG_1273

Val Vilhjálms á mat kom ekki á óvart, hann vildi fara á Hamborgarafabrikkuna enda mikill áhugamaður um hamborgara. Ég verð að segja að ég var ekkert ægilega spennt yfir mínum hamborgara, hann sló allavega ekki út steikarborgaranum (+ bearnaisesósu!) á Búllunni!

5b21fb9ee4ed11e28b8022000aaa0a1f_7Ég spurði Vilhjálm hverjar væru uppáhaldskökurnar hans og hann svaraði marsípantertur og marengstertur. Ég fór því að skoða hinar ýmsu uppskriftir og datt á tilviljun niður á Pavlovu með marsípani, snilld – uppáhaldsterturnar samankomnar í einni! Þetta varð innblásturinn af marsípan Pavlovunni sem Vilhjálmur var vakinn með á afmælisdaginn. Það er óhætt að segja að þessi terta hafi slegið í gegn. Allri fjölskyldunni auk þeirra gesta og gangandi sem smökkuðu á tertunni fannst hún rosalega góð. Þeir sem eru hrifnir af marsípani mega ekki láta þessa tertu fram hjá sér fara! 🙂

IMG_1315

Uppskrift:

  • 4 stk eggjahvítur (stór egg)Odense marsípan
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk hvítvíns edik
  • 160 g Marsípan (Odense ren rå marcipan)

Fylling:

  • 1/2 líter rjómi, þeyttur
  • Fersk ber eða ávextir eftir smekk (t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber, rifsber)
  • Rifið suðusúkkulaði og örlítið af flórsykri dreift yfir berin

IMG_1300

Ofninn stilltur á 150 gráður undir- og yfir hita. Eggjahvítur þeyttar á miðlungshraða þar til þær eru vel slegnar, þá er hraðinn aukinn og flórsykrinum blandað smátt og smátt saman við. Hvítvínsediki bætt út í. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar er marsípanið rifið með grófu rifjárni út í blandað mjög varlega saman við með sleikju. Best er að rífa lítið í einu og blanda marsípaninu þannig smátt og smátt saman við marengsinn annars er hætta að á að það fari í kekki.

Ca. 20 cm hringur teiknaður á bökunarpappír sem settur er á ofnplötu. Marengsinum er dreift á flötinn og kantarnir látnir vera aðeins hærri en miðjan. Bakað í miðjum ofni í um það bil 45 mínútur, þá er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.

Áður en kakan er borin fram er settur þeyttur rjómi yfir marengsinn og yfir rjómann er dreift berjum, rifnu suðusúkkulaði og að lokum er örlitlum flórsykri sigtað yfir berin.

IMG_1311