Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði


IMG_6307

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði …. nafnið segir allt! Þessi brownie er ótrúlega blaut og djúsí með innslagi af piparkökum og hvítu súkkulaði. Í raun þrennskonar gúmmelaði sem kemur saman í einastaklega jólalegri og gómsætri köku. Þið verðið bara að prófa þessa!

En ég verð eiginlega að setja inn mynd fyrst af ótrúlega krúttulegu jólaskrauti (sem getur reyndar hangið uppi allt árið um kring) sem þjónar göfugum tilgangi. Þetta fallega hjarta er hægt að hengja á tré úti í garði til skrauts en samtímis sjá smáfuglunum fyrir smá góðgæti. Mér finnst þetta ægilega sniðugt og sætt! 🙂

IMG_6280

Svo verð ég að viðurkenna að ég verð alltaf barnslega glöð þegar ég sé vitnað í Eldhússögur. 🙂 Í dag þegar ég fletti Fréttablaðinu sá ég að þar var gefin upp uppskriftin af piparkökunum með gráðosti og valhnetum í hunangi héðan frá Eldhússögum, skemmtilegt!

IMG_6300En varðandi piparkökubrownie kökurnar þá er ég búin að gera nokkrar tilraunir með þær. Fyrst notaði ég hvíta súkkulaðidropa en mér fannst þeir of litlir og hakkaði því núna hvítt súkkulaði í aðeins stærri bita. Síðast gerði ég litlar kúlur úr piparkökudeiginu og stakk þeim meira ofan í deigið. Núna skar ég piparkökudeigið í skífur og lagði ofan á kökuna þannig að þær urðu meira eins og sér piparkökur ofan á kökunni og urðu stökkar. Hvor tveggja er gott en ég held að ég dýfi piparkökudeginu meira ofan í kökuna næst. 12-17 mínútur virðist vera afar stuttur tími en treystið tímanum. Ég bakaði þessa köku í tæpar 16 mínútur og mér fannst hún of mikið bökuð, það er enn betra að hafa hana meira blauta. Þegar kakan er tekin út virðist hún vera lítið bökuð en þegar hún fær að kólna svolítið kemur í ljós að hún er meira bökuð en maður hélt. Næst ætla ég að miða við 13-14 mínútur í mesta lagi.

Uppskrift

200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
4 egg
2 dl sykur
2½ dl hveiti
örlítið salt
100 gr hvítt súkkulaði, saxað frekar smátt
piparkökudeig að vild (ég notaði ca. 120 gr)
IMG_6294
IMG_6295
Bakarofn hitaður í 200 gráður (undir og yfirhita). Smjörið er brætt í potti og suðusúkkulaðinu bætt út í og það brætt í smjörinu. Sykur og egg þeytt létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni hellt út í og hrært saman. Því næst er hveiti og salti  hrært saman við. Deiginu er hellt í lausbotna, ca 24 cm, smurt bökunarform. Þá er hvíta súkkulaðinu dreift yfir deigið. Piparkökudeigið er rifið niður í litla bita og þeim stungið hér og þar niður i deigið eða lagt ofan á deigið í þunnum skífum ef maður vill það frekar. Bakað við 200 gráður í ca 12 – 17 mínútur, gott að hafa kökuna vel blauta og þá nægja yfirleit 12-14 mínútur. Borin fram heit eða köld, gjarnan með þeyttum rjóma eða ís.
IMG_6306