Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur og ársuppgjör matarbloggara! :)


IMG_0748

Það er við hæfi að líta tilbaka á síðasta degi ársins og gera upp árið 2012 (þið sem kíktuð bara inn til að fá uppskrift af drykknum ættuð bara að skrolla neðst niður hið bráðasta, þetta verður langloka hjá mér! 😉 )! Þegar ég settist niður við tölvuna laugardaginn 9. júní síðastliðið sumar til að kíkja á tölvupóstinn minn í flýti (var á leið í afmælisveislu til pabba) þá grunaði mig ekki að ég myndi standa upp skömmu seinna sem matarbloggari! Ég opnaði þetta blogg eiginlega án alls undirbúnings. Ég var aðeins búin að gæla við hugmyndina en fannst ég langt frá því að framkvæma hana. Nafnið, Eldhússögur, laust niður í huga mér þegar ég var að skrá mig hér á WordPress sem hýsir bloggið og þar sem boðið var upp á undirtitil lá í augum uppi að Eldhússögurnar væru ,,úr Kleifarselinu“.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fyrstu fimm mánuðina setti ég inn uppskrift á hverjum einasta degi. Mér fannst það bara verða vera þannig, ef maður ætlar að blogga á annað borð þá þarf það að vera almennilegt! 🙂 Sjálfri finnst mér bara gaman að lesa blogg sem eru uppfærð oft. Ég hélt það ekki alveg út allt árið en næstum því! Undir lok ársins varð eitthvað að gefa sig, ég var að skila af mér meistararitgerð, vinna hlutavinnu og að auki með sex manna heimili. Færslurnar urðu 174 á 206 dögum sem er nú alveg ágætis frammistaða samt! Ég var spurð að því um daginn hvort ég væri eitthvað að græða á blogginu. Satt að segja var það fyrsta sem kom upp í huga mér: aukakíló og svefnleysi! 🙂 En vissulega hef ég grætt ákaflega margt á þessu bloggi. Fyrst og fremst hef ég grætt það að hafa sjálf tekið miklum framförum við eldamennskuna. Einnig er ég komin með gott safn af uppskriftunum mínum sem er mér alltaf aðgengilegt, það var eitt af markmiðunum með þessu bloggi. Auk þess hefur bloggið hefur leitt mig í kynni við frábært fólk, ykkur lesendur,  og skemmtileg verkefni.

Áskoranirnar hafa verið afar margar. Minnsta málið er að elda og baka, það er ekkert mál! Það sem hefur verið áskorun fyrst og fremst er að finna, þróa og skrá góðar uppskriftir, það er afar tímafrekt. Í öðru lagi er það myndartakan. Satt best að segja er ég engin sérstök áhugamanneskja um ljósmyndun. Ég hef samt alltaf tekið mikið af myndum en aðallega í skráningarlegum tilgangi ekki fagurfræðilegum. Ég byrjaði á því að taka matarmyndirnar á ,,auto“ stillingunni á myndavélinni sem er nokkuð auðvelt ef maður er með þokkalega myndavél og góða dagsbirtu. En svo neyddist ég til að fara í ,,manual“ stillingar núna í vetur þegar dagsbirtan hætti að vinna með mér. Það hefur tekið dálítið á og verið þolinmæðisverk að finna út úr því. Að auki þarf að vinna myndirnar eftir á sem er einnig tímafrekt. Það er líka áskorun að halda úti góðri vefsíðu. Það finnst mér reyndar mjög skemmtilegt og það kemur aðeins inn á námið sem ég er að ljúka núna, bókasafns- og upplýsingafræði. Ég fór meðal annars í kúrs um heimasíðugerð sem ég hef getað nýtt mér hér. Ég hef samt ekki haft tíma til að að breyta og bæta síðuna eins og ég hefði viljað. Í sannleika sagt hef ég oftast nær sett inn færslur hingað á nóttunni! 🙂 Svo stilli ég á að þær birtist á kristilegum tíma þannig að allir þeir sem fá tölvupóst um nýja færslu verði ekki vaktir um miðja nótt með pípi frá símanum sínum! Stundum hef ég, svefndrukkin um miðjar nætur við tölvuna, velt því fyrir mér af hverju ég sé að þessu og hvort ég ætti ekki bara að hætta þessu rugli! 😉 En núna þegar ég stend við þröskuld nýs árs, búin með ritgerðina mína, aðsóknarmet slegið á síðuna mína í fyrradag og ég fæ fullt af fallegum og hlýjum kveðjum frá ykkur lesendum er ég uppfull af eldmóði! Ég er með ótal hugmyndir og áform fyrir síðuna mína sem ég hlakka til að koma í verk á nýju ári. Ein nýjungin mun birtast á síðunni strax á morgun, nýársdag, ég er afar spennt yfir því!

En fyrir þá sem vildu fá uppskrift af góðum áramótadrykk þá var ég með þennan um daginn í Kalkúnaboðinu góða. Mér finnst freyðivín svona lala gott og kampavín bara alls ekki gott! En hérna er sæt sítrónu/myntu blanda sett út í freyðivínið sem gerir freyðivínið algjört sælgæti. Þetta er ofsalega ferskur og góður drykkur, mæli með því að skála með honum í kvöld fyrir nýju ári! GLEÐILEGT NÝTT ÁR! 🙂

Uppskrift (6 glös):

04037Sævar vínþjónn mælir með Jacob’s Creek Chardonnay Pinot Noir Brut freyðivíninu fyrir þennan drykk. Það er sítrónugult með mjúkri fyllingu, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

 

Sítrónusafanum hellt í pott og suðan látin koma upp, sykrinum bætt út í. Hrært í blöndunni þar til hún bráðnar. Látið kólna (athugið að gera þetta með nokkuð góðum fyrirvara því það tekur drjúga stund fyrir blönduna að kólna alveg). Blöndunni skipt í sex glös, nokkur myntublöð sett ofan í hvert glas og þau síðan fyllt með köldu freyðivíni! SKÁL!
IMG_0747