Ofnbökuð svínalund með beikoni og sveppum


IMG_0378

Mér er tíðrætt um þessa blessuðu ritgerð mína enda er hún efst í huga mínum alla daga og tekur allan minn tíma. Núna sé ég hins vegar loks fyrir endann á þessu verkefni og mun senda hana í prófarkalestur í næstu viku … jejj!!

Í gær átti Alexander 25 ára afmæli, 12.12.12! Það er fjölskylduhefð hjá okkur að afmælisbarnið fái að velja kvöldmatinn. Alexander lagðist yfir þetta blogg og skipti um skoðun nokkrum sinnum. Ég var frekar spennt að vita hvað hann myndi velja og valið kom mér dálítið á óvart. Hann valdi laxaborgara með sætum kartöflum. Ekki það að þeir séu ekki rosalega góðir en ég vissi bara ekki að þeir væru efstir á vinsældalistanum hans. Hann er sérstaklega hrifinn af mangósósunni enda er hún stórgóð og passar örugglega vel með öllum fiski og kjúklingi. Í eftirrétt valdi Alexander franskar crepes með Nutella og banönum sem er hættulega gott! Ósk er ekki hrifin af kökum og eftirréttum (nei, hún er ekki ættleidd) en henni finnst þessar crepes hrikalega góðar og í raun eini eftirrétturinn sem henni finnst góður.

En uppskrift dagsins er svínakjötsréttur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég set inn svínakjötsuppskrift inn á þetta blogg. Ég er frekar lítið fyrir svínakjöt en svo finnst mér það alltaf betra en mig minnti þá sjaldan sem ég matreiði úr svínakjöti. Þessi réttur var allavega afskaplega góður og ég get vel hugsað mér að elda hann aftur.

IMG_0304

 • 600 gr svínalund
 • 3 tómatar
 • 1 pakki beikon
 • 250 gr sveppir, skornir í bita
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • 2 msk dijon sinnep
 • 1 hvítlauksrif
 • svínakraftur
 • rifinn ostur
Beikon steikt og þerrað vel á eldhúspappír, skorið eða klippt í litla bita. Sveppir steiktir þar til þeir verða brúnir, þá eru þeir teknir af pönnunni. Því næst er svínalundin skorin í ca 2 cm sneiðar, saltaðar og pipraðar og steiktar á báðum hliðum i smjöri þar til þær hafa tekið dálítinn lit. Pannan ekki þvegin.
Tómatar sneiddir og þeim raðað á botninn á eldföstu móti. Þá er svínalundssneiðunum raðað yfir tómatana og sveppunum dreift yfir að lokum.
Nú er rjómanum helt út á pönnuna sem svínalundin var steikt á og sinnepi, hvítlauk og svínakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp á meðan hrært er í sósunni, beikoni bætt út í.
Sósunni hellt yfir svínakjötið í eldfasta mótinu og loks er rifna ostinum dreift yfir. Hitað í ofni við 225 gráður í ca 20 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum og salati.
IMG_0352

Bounty kúlur


IMG_6203

Inga móðursystir mín átti afmæli um helgina. Það eru bara sex ár á milli okkar og hún er því meira eins og systirin sem ég eignaðist aldrei! 🙂 Inga les sömu sænsku matarbloggin og ég og hún prófaði þessar Bounty kúlur af einu þeirra fyrir afmælið sitt. Þessar kúlur eru algjört nammi fyrir þá sem eru hrifnir af kókosi og ekki spillir fyrir að það er fremur einfalt að búa þær til. Inga frænka er því gestabloggari dagsins með himneskar Bounty kúlur!

Uppskrift (ca. 45 kúlur, fer eftir stærð)

Fylling:

 • 50 gr smjör
 • 1/2 dl síróp
 • 1/2 dl flórsykur
 • 2 dl rjómi
 • örlítið salt
 • 200 gr kókos

Súkkulaðihjúpur:

200 gr suðusúkkulaði. (hér er notaður „Ljós hjúpur“, hjúpdropar frá Nóa og Siríus)

Aðferð:

Öllu hráefni, fyrir utan kókosmjöl, er blandað saman í pott og látið malla í 5-8 mínútur eða þar til blandan fer að stífna dálítið. Þá er kókosmjöli bætt við. Blandan er svo látin kólna dálítið og því næst eru mótaðar litlar kúlur sem eru lagðar á bökunarpappír eða bretti. Kúlurnar eru að lokum settar í frysti í ca. 30 mínútur.

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kúlunum er svo dýft ofan í brædda súkkulaðið og þær lagðar á bökunarpappír þar til þær harðna. Best er að geyma Bounty kúlurnar í kæli.

IMG_6194

Fylltar kjúklingabringur með basiliku, mozzarella og parmaskinku


IMG_6222

Ég er með nokkrar girnilegar jólauppskriftir í handraðanum sem ég ætla setja hér inn á bloggið en ætla samt að setja inn smá hollustu núna í kvöld, svona til að vega upp á móti sætindunum sem eru á leiðinni! Svo ætlaði líka þjálfarinn minn í ræktinni að kíkja á bloggið mitt (hæ Árndís!) og þá lítur betur út fyrir mig að hafa færslu með kjúklingi og kúskús frekar en einhverju gúmmelaði! Annars er hætta á að ég verði sett í að hlaupa upp og niður tröppurnar í ræktinni oftar en hinar í hópnum! 🙂

Þennan rétt hámuðum við í okkur fyrr í kvöld áður en við fórum í kvöldsund. Ég setti saman hitt og þetta sem mér finnst gott og útkoman varð rosalega góð verð ég að segja. Enda eru þetta hráefni sem geta ekki klikkað saman. Eins og ég hef sagt áður er ég ekki mjög hrifin af sólþurrkuðum tómötum en í þessum rétti njóta þeir sín mjög vel.

IMG_6229

Uppskrift

 • 8 kjúklingabringur
 • 125 g sólþurrkaðir tómatar
 • ca. 1-2 dl rifinn ostur
 • 1 mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum, 120 g)
 • fersk basilika (ég notað heilt box frá Náttúru, 30 g)
 • 8 sneiðar parmaskinka
 • 1.5 dl ólívuolía
 • 2 msk balsamedik
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 3 tsk dijon sinnep
 • salt og pipar

Ofninn stilltur á 210 gráður. Kjúklingabringurnar lagðar á bretti með sléttu hliðina niður annað hvort í litlum plastpokum eða plastfilma lagt yfir þær. Svo eru þær flattar dálítið út með kjöthamri eða kökukefli (ég barði þær nú bara með kökukeflinu!), því næst eru þær saltaðar og pipraðar.

Rifinn ostur, mozzarellaostur, sólþurrkaðir tómatar og basilika sett í matvinnsluvél og keyrt í ca 10 sekúndur eða þar til blandan er grófmaukuð. Fyllingin sett inn í kjúklingabringurnar og einni parmaskinku vafið þétt utan um hverja bringu. Gott er að nota tannstöngla til að loka bringunni enn betur. Bringunum er svo raðað í eldfast mót, ekki alveg þétt upp við hvor aðra því það lengir eldunartímann. Ólífuolíu, balsamedik, hvítlauksrifum og sinnepi hrært saman og dreift yfir bringurnar. Ég átti smá afgang af fyllingunni og bætti henni út í sósuna áður en ég dreifði henni yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 210 gráður í ca. 30 mínútur þar til að kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_6237

Stökkir Marsmolar


IMG_6182

Þá er fallega jólatréð okkar í garðinum loksins farið að skína! Elsku maðurinn minn sýndi aðdáunarverða stillingu þegar hann fór með seríuna þrisvar í viðgerð, fór þrjár ferðir til að kaupa fleiri og fleiri perur og setti seríuna einu sinni í tréð en þurfti að taka hana niður aftur þegar hún virkaði ekki! Eftir þriggja vikna basl fram og tilbaka fékk hann loks nýja seríu sem er komin í tréð og verður líklega ekki tekin niður á milli jóla héðan í frá! 😉

IMG_6217

Elfar, sem er nýbúinn að eignast Iphone, skjalfesti ferlið vel og vandlega! Þeir sem fylgjast með honum á Instagram fengu þetta beint í æð allan daginn! 🙂

Tré

Ég hef eytt öllum mínum tíma í ritgerðina undanfarið og hef engan tíma haft til að njóta aðventunnar almennilega finnst mér. Mér tókst núna um helgina að senda frá mér tæplega 27 þúsund orð til leiðbeinandans sem þýðir að ef að hún er sátt þá á ég ekki langt í land! 🙂 Ég leyfði mér af því tilefni að búa til dálítið jólanammi. Þetta er klárlega stysta uppskriftin sem ég hef sett hér inn! Þá meina ég bæði að í uppskriftinni eru fá hráefni og hún er afar fljótleg að útbúa. En þetta er mögulega líka ein bragðbesta uppskriftin á blogginu! Enda getur það varla klikkað þegar maður tekur súkkulaðistykki og bætir við það meira gúmmelaði! 🙂 Næst ætla ég að prófa að nota Snickers, það er örugglega hrikalega gott! Þetta eru sjúklega góðir bitar, þið verðið bara að prófa.

IMG_6189

Uppskrift:

 • 4 mars
 • 90 gr smjör
 • 60 gr Rice Krispies

Smjör og Mars brætt saman í potti við vægan hita þar til það er bráðnað saman. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Rice Krispies bætt út í. Því næst eru mótaði litlir molar með skeið (ég lagði þá í skeiðina og mótaði þá aðeins til með fingrunum líka) og þeir lagðir á bökunarpappír. Molarnir látnir kólna. Molana þarf ekki að setja í kæli, þeir harðna og verða stökkir og góðir við stofuhita.

IMG_6179

Kanilkaka


IMG_1488Við fjölskyldan fórum aftur í kvöldsund núna í vikunni, það er svo notarlegt að fara í heitan pott í myrkri og kulda! Þá borðum við klukkan sex og drífum okkur svo í Árbæjarlaugina. Þar leika krakkarnir sér og við Elfar náum að spjalla í rólegheitunum í nuddpottinum. Æðislegt, mæli með því! Fyrr þann sama dag bakaði ég köku sem ég ætla að gefa uppskriftina af. Þannig var nefnilega mál með vexti að Jóhanna Inga kom heim úr skólanum þann daginn og var svo ægilega svöng. Það kom svo í ljós að hún var ekki venjulega svöng heldur kökusvöng! 😉 Ég hafði beðið eftir tækifæri til þess að baka köku sem ég fann uppskrift af fyrir nokkru, kanilköku með haframjöli. Ég er mjög hrifin af öllu bakkelsi með kanil og var nokkuð viss um að mér þætti þessi kaka góð. Við mægður skelltum því í eina kanilköku og hún var rosalega einföld og góð. Hættulega góð á meðan hún er enn heit, nýkomin út úr ofninum!

Uppskrift

 • 4 dl sykur
 • 150 g smjör, brætt
 • 2 stór egg eða 3 lítil
 • 3 dl mjólk
 • 7 dl hveiti
 • 4 tsk vanillusykur
 • 3 tsk lyftiduft

Ofn hitaður í 225 gráður (undir og yfirhiti). Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er mjólkinni bætt við og að lokum þurrefnunum. Deiginu helt í smurt kökuform (ég notaði form sem er 26 cm x 39 cm).

Stökkur kanil/hafratoppur

 • 200 gr smjör
 • 2 dl. sykur
 • 4 tsk kanil
 • 3 dl haframjöl

Smjörið brætt í potti. Potturinn tekinn af hellunni og restinni af hráefnunum bætt út í. Þá er blandað hituð og blandað saman. Blöndunni er síðan dreift yfir kökuna. Bökuð í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur. Látið ykkur ekki bregða þó að yfirborðið á kökunni verði hæðótt, þannig á það að vera!

IMG_1484

Heilsteiktur kjúklingur með karrí- og eplasósu


IMG_0194Ég er smátt og smátt að fara í gegnum gömlu uppskriftabókina mína og færa uppskriftirnar þaðan yfir á þetta blogg. Þennan kjúklingarétt eldaði ég fyrir nokkuð löngu síðan en gleymdi að setja hann inn á bloggið þá. Ég hef ekki eldað þennan kjúklingarétt oft eftir að við fluttum til Íslands en þegar við bjuggum úti í Svíþjóð eldaði ég hann reglulega. Heilir kjúklingar eru ákaflega ódýrir í Svíþjóð og ég notaði hann því mikið. Hér eru reyndar heilir kjúklingar á frekar góðu verði líka, ég ætti því eiginlega að vera duglegri að elda úr heilum kjúklingi. Auk þess fær maður bringur, leggi og læri sem hentar mjög vel fyrir stóra fjölskyldu, krakkarnir vilja leggi, mér finnst lærin best og öðrum líkar best við bringurnar. Mér finnst sósan passa rosalega vel með kjúklingum. Þessi blanda, karrí, epli og ananas fer svo vel saman. Ég elda kjúkling mjög oft í steikarpokum, mér finnst hann verða svo safaríkur og meyr við það. Hins vegar er talað um að pensla kjúklinginn reglulega með mareneringu í þessari uppskrift og þá er ekki hægt að nota steikarpoka, betra að nota steikarpott. Ég sleppti reyndar að þessu sinni mareneringunni, kryddaði kjúklinginn vel með kjúklingakryddi og steikti í steikarpoka. Marineringin er samt rosalega góð, mæli með henni.

IMG_0166 Uppskrift:

 • 1 kjúklingur
 • salt og pipar
 • 1 msk olía
 • 30 g smör, brætt
 • 1 msk hunang
 • 1 msk soja
 • 1 gulur laukur, skorinn í bita
 • 2 epli, afhýdd og skorin í bita
 • 5 ananashringir, skornir í bita
 • 5 dl kjúklingasoð (gerður úr kjúklingakrafti og sjóðandi vatni)
 • 1,5 tsk karrí
 • 1 tsk kartöflumjöl eða maísenamjöl (hægt að sleppa)
 • salt og pipar
 • 2 msk smjör

IMG_0203

Ofinn settur á 200 gráður. Kjúklingurinn saltaður og pipraður. Smjöri, hunangi og sojasósu blandað saman og kjúklingurinn smurður með blöndunni. Kjúklingurinn lagður í eldfast mót og grillaður í ofni í 50-60 mínútur við 200 gráður, fer eftir stærð. Kjúklingurinn smurður reglulega með mareneringunni á meðan. Laukur, epli og ananas steiktur í smjöri í stutta stund án þess að það taki lit, þá er karrí stráð yfir og steikt í 1 mínútu til viðbótar. Kjúklingakraftinum hellt út í, suðan látin koma upp og kartöflumjöli eða maísenamjöli bætt út í til að þykkja sósuna (ath. sósan er gerð úr kjúklingakrafti og verður alltaf fremur þunn). Sósan látin malla í nokkrar mínútur, í lokin er smjöri bætt út í sósan smökkuð til með salti og pipar. Kjúklingurinn og sósan borin fram með hrísgrjónum.

IMG_0167

Jólaglögg og piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi


IMG_1494

Þið eruð kannski að velta vöngum yfir þessari samsetningu í fyrirsögninni og finnst hún fráleit. Sko, eitt af því allra besta sem ég veit eru mygluostar! Auðvitað er þetta nafn samt, „mygluostar“ alveg glatað og hljómar frekar ógirnilega. Uppáhaldsosturinn minn er Gullostur (það nafn hljómar hins vegar vel!) og ég held að ég borði næstum því einn á viku! Ætli það sé ekki meinhollt örugglega? Á seinni árum er ég meira að segja farin að kjósa góðan ostbita fram yfir súkkulaðibita, hversu fullorðins er það?! 😉 Miðað við þessa ostaást mína þá mætti halda að piparkökur með gráðosti væru mitt uppátæki en svo er alls ekki. Þessi samsetning er algeng og vinsæl í Svíþjóð. Þar fer maður ekki í jólaglögg án þess að fá þetta gúmmelaði með glögginni. Jólaglögg er líka afar vinsæll drykkur í Svíþjóð á aðventunni, ég hef ekki orðið eins mikið vör við það hér. Í Svíþjóð er hægt að kaupa allskonar tegundir af tilbúinni jólaglögg í Ríkinu. Hér þarf að hafa aðeins meira fyrir glögginni en það er alveg þess virði. Það er svo notalega jólalegt að sötra heita glögg með möndlum og rúsínum á köldu desemberkvöldi og gæða sér á piparkökum með góðum ostum. Þeim sem líkar ekki gráðostur geta farið í mildari samsetningu, t.d. notað brie eða Gullost. Ég mana ykkur til að prófa þessa dásemd, ég lofa því að þið lítið ekki piparkökur sömu augum eftir það! 🙂

IMG_1490

Jólaglögg:

 • 1 flaska rauðvín
 • 1 dl vodka
 • 10 kardimommu belgir
 • 1 -2 kanilstangir
 • ca 3 cm engifer skorið í bita
 • 8 negulnaglar
 • 4 appelsínusneiðar
 • 1½ dl sykur
 • möndlur & rúsínur

Öllu kryddi nema sykri blandað saman við vodka og látið standa yfir nótt við stofuhita. Þá er sykrinum blandað saman við vodkablönduna og hitað að suðu. Blandan má þó alls ekki sjóða. Því næst er kryddið sigtað frá og rauðvíni blandað saman við. Möndlur og rúsínur settar út í eftir smekk. Borið fram með gómsætum piparkökum með ostum.

gl_gg_989708c

Piparkökur með gráðosti og valhnetum í hunangi

 • piparkökur
 • gráðostur, t.d. blár kastali (og/eða jólabrie eða Gullostur)
 • valhnetur
 • gott hunang

Valhnetur hakkaðar gróft og þær settar í skál. Hunangi hellt yfir þannig að það þeki valhneturnar vel en að það renni samt ekki út um allt þegar það er sett á ostinn. Osturinn skorinn í skífur og lagður á piparkökurnar, hunangs-valhneturnar settar yfir ostinn.

IMG_1496

Ofnbakaður lax og grænmeti með teriyaki sósu


IMG_1466

 

Mér finnst svolítið gaman að sjá hér á blogginu hvaða leitarorð leiða lesendurna inn á síðuna mína. Þegar uppskriftunum fer fjölgandi eru fleiri og fleiri sem koma í gegnum leitarsíður inn á bloggið, mörg hundruð daglega. Stundum renni ég yfir listann og fæ innblástur af leitarorðunum. Til dæmis hafði einhver leitað að: lax + teriyaki sósu en sú leit beindi viðkomandi inn á síðuna mína. Mér fannst það hljóma svo girnilega að ég ákvað að elda teriyaki lax í kvöldmatinn! Hins vegar held ég að sá sem leitaði að „blautar sögur“ hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar viðkomandi lenti hér inni á Eldhússögum! 😉

Rétturinn er ákaflega einfaldur að matreiða, ég notaði bara það grænmeti sem ég átti til en það er hægt að nota gulrætur, kúrbít, lauk, sveppi, blómkál eða bara það sem hugurinn girnist. Ég gef líka upp magn hér að neðan en það fer eiginlega bara eftir smekk og plássi í eldfasta mótinu. Öllum í fjölskyldunni fannst þessi laxaréttur æðislega góður og hann verður sannarlega eldaður aftur.

IMG_1464

Uppskrift:

 • 1 kíló laxaflök
 • salt og pipar, eftir smekk
 • ca. 100 ml teriyaki sósa, magnið fer dálítið eftir smekk (ég nota sósu frá La Choy)
 • ca. 100 gr sveppir, skornir í fernt
 • ca. 200 gr gulrætur, sneiddar gróft
 • ca. 100 gr. brokkolí, skorið í stóra bita
 • 3 fersk chili, kjarnhreinsuð og sneidd langsum
 • salatblanda (ristaðar blandaðar hnetur, t.d. frá Náttúru)
 • sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxaflakið/flökin eru roðflett, skorin í hæfilega bita og lögð í stórt eldfast mót. Laxinn saltaður og pipraður eftir smekk. Grænmetið skorið eins og segir hér að ofan og raðað í kringum laxinn. Teriyaki sósunni helt yfir laxinn og aðeins yfir grænmetið, því næst er salatblöndunni og sesamfræunum dreift yfir. Bakað í ofni í ca 20-25 mínútur eða þar til laxinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu brauði.

IMG_1469

Sörur


Sörur

Helginni höfum við eytt í jólaundirbúning. Í gær voru piparkökur skreyttar í skólanum hjá krökkunum og laufabrauð skorin út. Síðan skottuðumst við mæðgur (sú yngri, eldri dóttirinn er föst í próflestri) út í skúr og sóttum jóladótið og erum búnar að dunda okkur við að setja það upp. Eitt af uppáhalds jólaskrautinu okkar er litla jólatréið hér að neðan. Í rauninni er þetta dagatal, fyrir neðan tréið eru 24 litlar skúffur með jólaskrauti, eitt fyrir hvern dag. Í því er líka spiladós og þá snýst tréið í hringi. Krökkunum finnst þetta jólatré svo fallegt og ævintýralegt. Elfar kom heim frá Barcelona síðastliðna nótt og gerði í dag enn eina tilraunina við útiseríuna sem nú var búið var að gera við. Hann var búinn að koma henni vel fyrir í tréinu þegar það slökknaði á henni við litlar vinsældir. Það kallaði því á fjórðu ferðina í búðina (þetta var ný sería!) auk þess sem tveir dagar hafa farið í vaskinn við þetta seríustúss! Það er sannarlega mikið á sig lagt við jólaundirbúninginn! 🙂

Sörur

Á meðan Elfar minn eyddi deginum við seríubasl fór ég ég sörugerð. Þessar sörur eru eins og sörur eiga að vera að mínu mati! 🙂 Mér finnst sörur nefnilega svo ofsalega misjafnar, sumar sörur finnst mér alls ekki góðar. En þessar eru algjört nammi! Botninn er stökkur og loftkenndur (ekki flatur), kremið bragðgott með engu yfirgnæfandi kaffibragði og súkkulaðihjúpurinn þykkur og góður! Ég fer alltaf ákaflega vel út úr sörubakstrinum fyrir hver jól. Mamma nefnilega undirbýr botna og kremið en svo mætum við Inga frænka bara á staðinn og setjum saman sörurnar! Í dag gerðum við 350 gómsætar kökur. Best er að nota Dökkan hjúp, sem eru hjúpdropar frá Nóa og Siríus. Kökurnar fá þá svo fallegan glansandi hjúp.

Sörur

Uppskrift (ca. 60 kökur)

 • 3 eggjahvítur
 • 200 gr. flórsykur
 • 200 gr. fínakkaðar möndlur (heilar hýðislausar möndlur hakkaðar fínt í kvörn)

Eggjahvítur stífþeyttar. Flórsykurinn sigtaður yfir og hrært varlega saman við með sleikju ásamt möndlunum. Sett á plötu, klædda bökunarpappír, með tveimur teskeiðum og bakað við 180°C í ca. 12-13 mínútur. (Blástur 175°C í ca. 12 mín – ég nota ekki blástur, finnst þær molna meira við það).

Sörur

Sörukrem:

 • ¾ dl. sykur
 • ¾ dl vatn
 • 3 eggjarauður
 • 150 gr. smjör, mjúkt
 • 1 msk. kakó
 • 1 tsk. kaffiduft (instant kaffi)

Sykur og vatn sett í pott og soðið saman í síróp, það tekur u.þ.b. 8 -10 mín. Nauðsynlegt er að hafa góðan hita. Tilbúið þegar fer að freyða. Eggjarauðurnar eru þeyttar þar til þær eru kremgular og þykkar. Hellið sírópinu úr pottinum í mjórri bunu út í, þeytið á meðan þar til blandan er orðin létt og loftmikil. Látið kólna. Mjúka smjörinu þá bætt út í, þeytt á meðan. Að lokum er kakói og kaffidufti sigtað út í (instant kaffi er gróft, því er gott að mylja það í gegnum sigtið með skeið, einnig er hægt að mylja það í morteli áður en það er sigtað). Kremið kælt í ísskáp.

Súkkulaðihjúpur N__a_D__kkur_Hj__4ed6b2411dd66

 • ca 1½ poki Dökkur hjúpur (hjúpdropar) frá Nóa og Siríus

Brætt í örbylgjuofni.

Sörur

Kreminu er smurt á botninn á kökunum, frekar þykkt lag. Þá eru kökurnar kældar með kreminu á í smá stund. Því næst er kremhlutanum dýft ofan í brædda súkkulaðihjúpinn og hjúpnum leyft að stífna. Það þarf kannski að hita súkkulaðihjúpinn aftur í örbylgjuofninum á meðan dýfingunum stendur ef hann verður of stífur. Þegar hjúpurinn hefur stífnað á kökunum er best að raða þeim í box með góðu loki, með t.d. bökunarpappír á milli. Það þarf að geyma sörurnar í frysti og bera þær fram beint úr frystinum, þær þiðna mjög fljótt.

SörurSörur