Grillaður camembert með sólþurrkuðum tómötum og basilku


IMG_1047

Í gær vorum við með matarboð og ég ákvað að fara á bloggið mitt, velja eina vinsælustu kjúklingauppskriftina þar og bjóða gestunum upp á þann rétt. Ég var svo spennt á meðan á matarboðinu stóð því Anna Sif vinkona mín var að hlaupa heilt maraþon hlaup í New York á sama tíma. Algjör dugnaðarforkur, frekar nýfarin að hlaupa og ákvað að drífa sig bara í maraþon eins og ekkert væri. Tæknin er svo sniðug að við gátum fylgst með henni hlaupa á korti í tölvunni „live“. Hún rúllaði þessu upp stelpan eins og henni er von og vísa og sagðist vera til að að hlaupa annað maraþonhlaup daginn eftir! Ég vil nú meina að andlegi stuðningurinn frá okkur hérna meginn við hafið hafi örugglega haft sitt að segja! 😉 Við hámuðum í okkur góðan mat, skáluðum fyrir hlauparanum í ljúffengu rauðvíni á meðan við fylgdumst með hlaupinu. Þegar ég var úti í Stokkhólmi í sumar keypti ég þessar flottu servíettur í H&M home deildinni sem er oft með mjög skemmtilegar vörur. Mér fannst vel við hæfi að dekka borðið með þessum New York servíettum í gær.

IMG_1085

New York – Manhattan servíetta úr H&M Home

IMG_1080Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu

Ég var með léttan forrétt fyrir matinn, grillaðan camenbert. Það er með ólíkindum hversu góðir slíkir ostar geta orðið þegar þeir eru bakaðir.

IMG_1052 Hérna fyllti ég ostinn með ferskri basiliku, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk en það eru í raun engin takmörk á því hvað hægt er að setja inn í ostinn. Til dæmis er örugglega gott að nota hnetur, hunang, mango chutney, aðrar ferskar kryddjurtir, chilisultu, þurrkaða ávexti eða hvað sem hugurinn girnist.

Uppskrift:

 • 1 camembert
 • 2-3 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • grófmalaður svartur pipar
 • flögusalt
 • ca. 1 dl fersk basilka, söxuð smátt
 • örlitla ólífuolíu

IMG_1050

Camembert osturinn er klofinn í tvennt. Sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og basilika er dreift ofan á annan helming ostsins og kryddað með salti og pipar auk þess sem örlítið af ólífuolíu er dreift yfir. Hinn helmingurinn af ostinum er lagður yfir og pakkað vel í álpappír. Grillað við meðalhita á grilli í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna vel. Borið strax fram með góðu brauði eða kexi.

IMG_1053

Bananakaka með kanilívafi


Bananakaka með kanilívafi

Núna er kominn nóvember og aðventan mun skella á áður en þið vitið af – trúið mér! Í ár hef ég sett sjálfri mér afar háleit markmið varðandi jólin og þetta „búin að öllu fyrir jólin“ dæmi! Þannig er mál með vexti að síðastliðin ár hef ég verið í meistaranámi í háskólanum og ég get staðfest það að þegar húsmóðir þarf að fara í jólapróf, svo ekki sé talað um að skila af sér meistararitgerð fyrir jól auk þess að eiga eiginmann sem er á vöktum sólarhringum saman, þá hefur það býsna slæm áhrif á jólaundirbúninginn – eða réttara sagt andlega heilsu húsmóðurinnar. Ég er svona týpa sem vil ekki slá af neinu, mér dytti til dæmis aldrei í hug að sleppa því að senda út 100 stykki jólakort. Í fyrra var ég að skila af mér meistararitgerðinni minni um jólin, vann við hana nótt og dag og ákvað því að pakka inn jólagjöfunum á mjög einfaldan hátt, þetta varð útkoman.

548770_485563878151708_1794840187_nJá, þið skiljið kannski vandamálið! Fyrir nokkrum árum setti einhver vinur minn á Facebook status á Þorláksmessukvöldi um að viðkomandi væri búinn að öllu og sötraði hvítvínsglas við kertaljós (sem ætti að vera ólöglegur status by the way!). Á þeim tímapunkti sat ég sveitt við jólagjafainnpökkun, þrif og fleira og hét sjálfri mér því að næstu jól þá væri það ég sem sæti með hvítvínsglas á Þorláksmesskvöld við arineld, búin að öllu. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta einfaldlega ekki tekist enn. Hluti af vandamálinu er að ég er með frestunaráráttu í sambland við fullkomnunaráráttu – blanda sem virkar býsna illa verð ég að segja. Í ár mun þetta hins vegar takast hjá mér, ég finn það á mér! Núna er markmiðið mitt að vera búin að pakka inn jólagjöfum, gera jólakort, kaupa jólaföt á börnin og allt þetta sem þarf að gera fyrir jólin, áður en aðventan rennur upp. Svo ætla ég bara að njóta aðventunnar án nokkurra kvaða. Ég ákvað að skrifa þetta hér á alheimsnetið til þess að veita sjálfri mér aðhald! 😉 Í guðanna bænum ýtið við mér þegar aðventan nálgast – ég ætla að standa við þetta í ár! Satt að segja er ég komin vel áleiðis, ég er næstum því búin með jólagjafirnar, búin að kaupa jólafötin á börnin og er að byrja að vinna í jólakortunum!

Þessar jólahugleiðingar eiga svolítið við uppskrift dagsins því í henni er kanill og kanill er jú einstaklega jólalegt krydd. Ég elska kanil, sérstaklega í allskonar bakkelsi. Ég elska líka bananakökur. Það var því meiri snilldin að blanda þessu tvennu saman. Kakan sló í gegn hjá fjölskyldunni, þið verðið bara að prófa hana um helgina! 🙂

IMG_0946

Uppskrift:

 • 130 g smjör
 • 200 g sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 stór egg
 • 260 g Kornax hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk kanill
 • 2 stórir bananar eða 3 litlir, stappaðir

Kanilsykurblanda

 • 1 dl sykur
 • 2 msk púðursykur
 • 3 tsk kanill

Ofn hitaður í 175 gráður og smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært saman þar til að blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er vanillusykri, hveiti, matarsóda og kanil bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast saman. Að lokum er stöppuðum banönum blandað vel saman við deigið. Bökunarformið er smurt að innan og 1/3 af deiginu er smurt yfir botninn á forminu. Hráefnunum í kanilsykurblöndunni er blandað vel saman og 1/3 hennar dreift jafnt yfir deigið.

IMG_0930Þá er helmingnum af deiginu sem eftir er smurt yfir kanilsykurblönduna. Það er allt í lagi þó það náist ekki alveg að dreifa úr deiginu út í alla kanta. Því næst er helmingnum af kanilsykurblöndunni dreift yfir deigið. Að lokum restinni af deiginu smurt ofan á og endað á því að strá restinni af kanilsykurblöndunni yfir. Bakað í ofni við 175 gráður í 45-55 mínútur eða þar til kakan er farin að losna frá köntunum og kökuprjóni sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn út.

IMG_0950

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

 • 700 g kartöflur
 • 3 msk ólífuolía
 • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
 • ca 1 1/2 tsk maldon salt
 • grófmalaður svartur pipar
 • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650