Pastasalat


Ég er svo heppin að þekkja marga matgæðinga, ein þeirra er Heiða, doktor í tannlækningum með meiru og gott efni í matarbloggara! 🙂 Hún gaf mér uppskriftina af þessu pastasalati þegar við bjuggum báðar í Stokkhólmi og ég hef reglulega gert þetta salat síðan þá. Þetta pastasalat er meðal annars með pepperóni, ólífum og klettasalati. En það sem gerir það sérstaklega gott er maukið sem er útbúið og blandað við salatið. Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik og hlynsíróp gerir dásamlega góða dressingu/mauk sem gefur salatinu gómsætt bragð. Þetta er upplagt salat til að taka með sér á til dæmis hlaðborð eða aðra viðburði eða fara með í lautarferð! Yngstu börnin á heimilinu eru mjög hrifin af þessu salati.

Uppskrift:

 • 300 gr pasta
 • 4 msk sólþurrkaðir tómatar
 • gott búnt af basiliku
 • búnt af steinselju
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 1 dl jómfrúar ólífuolía
 • 2 msk balsamic edik
 • 1 tsk hlynsíróp
 • 4 msk furuhnetur, ristaðar á þurri pönnu
 • 80 g pepperóní, skorin í þunnar sneiðar
 • 2 msk ólífur, skornar í bita
 • 2-3 msk rifinn parmesan ostur
 • slatti af ruccola salati
 • salt og pipar úr kvörn


Pasta soðið eftir leiðbeiningum og kælt (Mikilvægt að ofsjóða það ekki). Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik, ólífuolía og hlynsíróp sett í matvinnsluvél, keyrt nokkra hringi og grófsaxað saman. Blandað saman við pastað. Furuhnetum, pepperoní, ólífum, parmesan osti og klettasalati bætt við, kryddað með salti og pipar. Borið fram með góðu brauði.